Þriðjudagur, 31. mars 2009
Heilbrigðisvottorð Samfylkingar
Samfylkingarfélagið í Reykjavík hefur, á þeim tæplega tíu árum sem félagið hefur starfað, staðið fyrir fjölmörgum fundum um þjóðfélagsmál. Fundirnir eru haldnir á miðvikudagskvöldum í húsakynnum Samfylkingarinnar við Hallveigarstíg í Reykjavík. Fundirnir eru jafnan vel sóttir og skapast líflegar umræður um málefni líðandi stundar og þau mörgu hugðarefni sem brenna á félagsmönnum. Stundum eru umfjöllunarefni fundanna léttvæg og vekja litla eftirtekt annarra en félagsmanna. Yfirleitt hafa fundirnir þó fjallað um brýn og oft flókin verkefni stjórnmálanna, hvort sem um ræðir borgarmál, málefni á landsvísu eða heimsviðburði. Frá haustinu 2008 hefur áhugi og fundasókn aukist til muna, en þess má geta að fundirnir eru yfirleitt opnir og allir velkomnir. Umræðuefni félagsfunda vekja þannig mismikla athygli og fanga sjaldan áhuga fjölmiðla innanlands, hvað þá heimspressunnar. Á þessu eru þó undantekningar líkt og sú gríðarmikla umfjöllum sem fundur haldinn miðvikudagskvöldið 21. janúar í Þjóðleikhússkjallaranum hlaut. Tilgangur Samfylkingarfélagsins í Reykjavík Samfylkingarfélagið í Reykjavík er eitt af fimmtíu aðildarfélögum Samfylkingarinnar á landsvísu. Um tilgang félagsins segir í lögum þess: "Tilgangur félagsins er að vera vettvangur einstaklinga sem standa að Samfylkingunni í Reykjavík, til umræðna og ályktana um félagshyggju, jafnaðarstefnu og kvenfrelsi. Jafnframt skal félagið vera bakhjarl og samráðsaðili kjörinna fulltrúa og frambjóðenda til Alþingis og sveitastjórna á vegum Samfylkingarinnar í Reykjavík. Verkefni félagsins er m.a. að stuðla að sameiningu samfylkingarfólks í Reykjavík í eitt vel skipulagt félag." Stjórn félagsins annast undirbúning félagsfunda en nýtur liðsinnis fjölda frummælenda með sérþekkingu sem endurspegla viðfangsefni dagsins. Fundir hafa auk þess reglulega verið skipulagðir í samstarfi við Unga jafnaðarmenn, borgarmálaráð og þingflokk Samfylkingarinnar. Borgarfulltrúar og þingmenn eiga að sækja alla félagsfundi en helsta markmið þeirra er að tengja saman almenna flokksmenn og kjörna fulltrúa svo milliliðalaus skoðanaskipti geti átt sér stað. Fundirnir eru auk þess hugsaðir sem vettvangur til þess að uppfræða kjörna fulltrúa og félagsmenn um tiltekin málefni en ekki síður fræða fulltrúana um viðhorf eða áhyggjur félagsmanna. Samfylkingarfólk hefur tekið boðinu vel um opið samtal við fulltrúa sína á þjóðþingi og í borgarstjórn og fjölmennt á fundina, lýst hugsunum eða draumum, gremju eða ánægju og stundum hrósað eða skammað. Tilgangurinn er þó fyrst og fremst að ræða, þroska og móta stefnuna í viðkomandi málum og jafnvel álykta um breytingar og umbætur. Fundirnir skapa gagnvirkan vettvang innan flokksins fyrir mikilvæga þjóðfélagsumræðu og eru andleg næring fyrir þá sem lifa og hrærast í pólitík. Gagnvirknin er ekki síður fólgin í því að veita kjörnum fulltrúum aðhald við störf sín. Lýðræðisvakning eftir bankahrunið Eftir bankahrunið í lok september varð mikil vakning í samfélaginu. Enginn hefur farið varhluta af umræðunni og líklega hafa flestir landsmenn tekið þátt með einum eða öðrum hætti. Krafan um réttlæti, reikningsskil og greiningu á vandanum er sanngjörn og opin umræða um stjórnskipan og stjórnarskrána er mikilvæg. Margir hafa myndað sér sterka skoðun á stjórnmálum og málefnum samfélagsins. Mótmælin hafa verið einstök, söguleg og áhrifamikil. Þeir sem hafa staðið á Austurvelli laugardag eftir laugardag og látið skoðun sína í ljós með friðsömum hætti eiga hrós skilið. Vel heppnaðir og kröftugir borgarafundir hafa sýnt og sannað að áhugi fjölmargra landsmanna á verulegum umbótum er raunverulegur. Hápunktinum var svo náð í fjórðu viku ársins, byltingarvikunni miklu. Krafan um kosningar var þá orðin svo öflug og hávær að enginn gat skellt við skollaeyrum. Samfylkingarfélagið í Reykjavík hefur reynt að koma til móts við þessa miklu umræðuþörf með miðvikudagsfundunum. Frá því í haust hafa allir fundir snert efnahagsvandann beint eða óbeint og frá ýmsum sjónarhornum. Stjórn félagsins hefur oft þurft að bregðast skjótt við og áætlanir frá því í sumar voru lagðar til hliðar. Félagsfundir vetrarins eru orðnir fimmtán talsins. Hér er yfirlit yfir félagsfundi síðan vetrarstarfið hófst haustið 2008: Hugsa fyrst, kaupa svo! Neytendaherferð Ungra jafnaðarmanna hófst á fyrsta félagsfundi haustsins sem haldinn var 24. september. Garðar Stefánsson verkefnastjóri, kynnti herferðina sem síðar var auglýst víða um land og í framhaldsskólum. Fundurinn var haldinn í samstarfi við Hallveigu - unga jafnaðarmenn í Reykjavík. Hvað er í fjárlagafrumvarpinu? var heitið á félagsfundi sem haldinn var 1. október. Gunnar Svavarsson formaður fjárlaganefndar og Steinunn Valdís Óskarsdóttir þingkona sátu fyrir svörum um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2009. Reyndar átti frumvarpið eftir að breytast verulega næstu vikurnar. Gunnar sagði á fundinum að frumvarpið væri í raun fornleifar, því nokkrum dögum áður hafði Glitnir verið þjóðnýttur og hrunið hafist af fullum þunga. Atburðir síðustu daga var yfirskrift fundar um hrun fjármálakerfisins og hremmingar haustsins sem haldinn var 15. október. Gestir fundarins voru þingmenn og borgarfulltrúar sem hittu félagsmenn til þess að ræða atburðina í kjölfar falls bankanna. Frummælendur voru Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar, Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi, Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi og Helgi Hjörvar alþingismaður. Á þessum tímapunkti var ljóst að staðan var gríðarlega alvarleg. Þungt hljóð var í félagsmönnum og miklar áhyggjur af stöðu heimila og fyrirtækja komu fram. Nauðsynlegar björgunaraðgerðir voru ræddar. Verjum heimilin. Fundur um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í kjölfar bankahrunsins, sem fyrst átti að halda 8. október, var haldinn sunnudaginn 19. október fyrir fullu húsi í aðalsal Grand hótels. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, ávarpaði félagsmenn eftir heimkomu frá Bandaríkjunum. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra fóru yfir stöðuna, aðgerðir ríkisstjórnarinnar og atburði síðustu vikna. Fundarstjóri var Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður. Fjallað var um neyðarlögin og hvernig bankastarfsemi og greiðslukerfum var haldið gangandi eftir hrunið. Á fundinum komu fram skýrar kröfur um að eitt fyrsta skrefið í endurreisninnni væri yfirlýsing um umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Hvað er framundan? var heiti félagsfundar um efnahagsmál sem haldinn var 22. október. Frummælendur voru Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur og Ólafur Ísleifsson lektor í viðskiptadeild HR. Fundarstjóri var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur og varaformaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Í máli frummælenda kom vel fram hversu alvarlegt ástandið var orðið og hve svört kreppan framundan yrði. Segja má að hvert sjokkið á fætur öðru hafi þarna dunið á fundarmönnum sem héldu orðlausir heim á leið. Ályktun um efnahagsástandið Daginn eftir þennan þungbæra fund, fimmtudaginn 23. október, var stjórn félagsins boðuð á aukafund til þess að ræða viðbrögð við félagsfundum liðinna vikna. Ákveðið var að álykta um þá grafalvarlegu stöðu sem upp var komin í Íslensku samfélagi. Braut stjórnin þannig blað í starfsemi félagsins; fram til þessa hafði ekki verið hefð fyrir ályktunum stjórnar. Ályktunin var send til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar, ásamt yfirlýsingu um eindreginn stuðning við hana og forystu flokksins. Stjórn félagsins taldi ályktunina endurspegla vel þau sjónarmið sem fram höfðu komið á félagsfundum haustsins en á þeim tíma voru efnistök hennar nokkuð viðkvæm og sum atriðin höfðu ekki verið rædd opinberlega. Hér birtist ályktunin í heild sinni: "1. Efnahagskerfi landsins er hrunið. Ástand efnahagsmála þjóðarinnar í dag er afleiðing alvarlegra mistaka við hagstjórn síðustu ára. Ríkisstjórnin ber pólitíska og siðferðilega ábyrgð á stöðu þjóðarbúsins og því verður hún að axla þá ábyrgð án tafar og bregðast við ástandinu með öllum tiltækum ráðum. Brýnt er að komast hjá frekara hruni og bjarga því sem bjargað verður svo rýrnun þjóðarverðmæta verði stöðvuð. Aðgerðarleysið leiðir þjóðina til glötunar. Lögmál markaðshyggjunnar munu ekki leysa þetta vandamál. Tími félagshyggju og jöfnuðar verður nú að renna upp á Íslandi. 2. Tilraun Seðlabankans með peningamálastefnu hefur mistekist. Síðustu ár hefur ríkisstjórnin og Seðlabankinn haldið úti peningamálastefnu sem nú hefur beðið skipbrot. Íslenska þjóðin ætti ekki að bera ábyrgð á þessari alvarlegu niðurstöðu eftir misheppnaða tilraun með fljótandi örgjaldmiðil. Allnokkrir einstaklingar bera hinsvegar ábyrgð og þeim ber að axla þá ábyrgð nú þegar. Bankastjórn Seðlabankans þarf að víkja svo endurvekja megi trúverðugleika bankans. Það stríðir gegn réttlætiskennd þorra þjóðarinnar að engin breyting hafi verið gerð á yfirstjórn bankans. Seðlabankinn stóð ekki undir nafni sem bakhjarl íslensku viðskiptabankanna. Þetta þarf að viðurkenna nú þegar svo sömu mistökin verði ekki gerð aftur við endurreisn hagkerfisins. Lögbundið eftirlit Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins var ófullnægjandi. Nú þarf að gera upp verkefnið í heild sinni með heiðarlegum hætti og viðurkenna vandamálið og skipbrot stefnunnar. Markmiðið hlýtur að vera að koma upp víðtæku, sanngjörnu og nákvæmu regluverki á fjármálamarkaði. 3. Hlutverki krónunnar er lokið. Ráðamenn þjóðarinnar verða að horfast í augu við algjört fall gjaldmiðilsins og viðurkenna að upptaka evru sem gjaldmiðils til langrar framtíðar er eina raunhæfa lausnin. Fyrst í gegnum svokallaða biðstofu myntsamstarfs Evrópusambandsins. Síðar með fullri aðild að Evrópusambandinu. Krónan er ónýt, gildi hennar er ekkert og hún verður ekki endurreist. 4. Samning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn strax. Endurvekja þarf nú þegar trúverðugleika Íslands í samfélagi þjóðanna. Nú má engan tíma missa. Ríkisstjórnin verður að semja strax við IMF. Þetta er eina leiðin til að koma á gjaldeyrisviðskiptum til skemmri tíma litið og raunverulegum viðskiptasamböndum til lengri tíma litið. Án gjaldeyrisviðskipta mun landið einangrast með skelfilegum afleiðingum. 5. Reikningsskil. Svo þjóðin geti haldið ró sinni, andlegu jafnvægi og tekið höndum saman við uppbygginguna verður ríkisstjórnin að tryggja það með formlegri tilkynningu og jafnvel með lagasetningu að rannsakað verði hverjir bera ábyrgð á falli bankanna. Hverjir bera fjárhagslega, lagalega og siðferðilega ábyrgð? Sannleiks- og sáttanefnd með aðkomu óháðra, erlendra aðila er forsenda þess að þjóðin treysti stjórnvöldum til þess að stýra verkefninu áfram í réttlátan farveg. Þung reiðialda fer um þjóðfélagið allt. Formleg tilkynning um réttlátt, gagnsætt og opinbert uppgjör mun auka sjálfsvirðingu þjóðarinnar. Virðing alþjóðasamfélagsins mun fylgja í kjölfarið. Sem forsætisráðherra og sem fyrrverandi fjármálaráðherra ber formaður Sjálfstæðisflokksins ábyrgð á þeim efnahagshamförum sem þjóðin tekst nú á við. Getur Samfylkingin setið í skugga Sjálfstæðisflokksins við þessar aðstæður? Hver eru sársaukamörk ríkisstjórnarsamstarfsins? Hversu mikil þjóðarverðmæti mega brenna áður en Samfylkingunni er nóg boðið? Kjörnir fulltrúar eru kallaðir til ábyrgðar í kosningum. Þjóðin mun ekki sætta sig við að þeir sem hafa tekið rangar ákvarðanir axli ekki ábyrgð fyrr en eftir þrjú ár. Ef biðjast þarf afsökunar á mistökum eða rangri forgangsröðun á það ekki að þvælast fyrir framgangi stefnumála eða að ráðist verði í endurreisn samfélagsins. Krafa kjósenda er sú að um leið og aðstæður leyfa verði gengið til kosninga. Skýrt umboð frá þjóðinni þarf að liggja fyrir um hverjir stjórna skuli uppbyggingunni. Konur verða að gegna auknu hlutverki í nýrri forystusveit Íslands. 6. Viðræður um aðild að Evrópusambandinu nú þegar. Nú þarf að horfast í augu við raunveruleikann, taka af skarið og gera strax skýra kröfu um að Ísland sæki nú þegar um aðild að Evrópusambandinu. Samfélagið þarf að opna. Ekki má loka á möguleika komandi kynslóða til menntunar, atvinnu og viðskipta við aðrar þjóðir. Forysta Samfylkingarinnar á ekki að vera hrædd við að standa eða falla með einu mikilvægasta stefnumáli flokksins. 7. Siðferði. Samfylkingin þarf nú sem aldrei fyrr að halda á lofti umræðunni um siðferði í stjórnmálum." Fleiri félagsfundir vetrarins Opin hugmyndasmiðja með borgarfulltrúum var haldin 29. október í samstarfi við borgarmálaráð. Yfirskrift smiðjunnar var Atvinna, menntun, velferð og lífsgæði - úr vörn í sókn í Reykjavík. Fundarmönnum var skipt í fjóra hópa þar sem hvert málefni var krufið og rætt. Framtíð borgaranna og heimila í kjölfar hrunsins var í forgrunni. Niðurstöður hópavinnunnar voru síðan kynntar og ræddar. Stjórnandi hugmyndasmiðjunnar var Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi. Áfram stelpur! Fundur um efnahagsmál framtíðar og þátt kvenna í uppbyggingu samfélagsins var haldinn 5. nóvember. Gestur fundarins, Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, flutti ávarp. Frummælendur voru Elín Blöndal prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst, Guðbjartur Hannesson alþingismaður, Hallgrímur Helgason rithöfundur og Lilja Mósesdóttir prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Fundarstjóri var Steinunn Valdís Óskarsdóttir þingkona. Fundurinn var haldinn í samstarfi við Kvennahreyfingu Samfylkingarinnar. Verðtryggingin. Félagsfundur um verðtryggð íbúðalán sem haldinn var 12. nóvember. Frummælendur voru Sigrún Elsa Smáradóttir borgarfulltrúi og Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands. Fundarstjóri var Guðlaugur Kr. Jörundsson varaformaður Hallveigar - ungra jafnaðarmanna í Reykjavík en fundurinn var haldinn í samstarfi við Hallveigu. Félagsmenn létu í ljós miklar áhyggjur af skuldasöfnun heimilanna í því ástandi sem ríkti og sérstakar áhyggjur komu fram vegna ungra fjölskyldna sem sætu uppi með dýrar og mikið veðsettar eignir. Siðferði í stjórnmálum var yfirskrift félagsfundar sem haldinn var 19. nóvember. Þar flutti Jón Ólafsson heimspekingur og prófessor við Háskólann á Bifröst erindi um siðferði stjórnmálamanna og þá menningu sem ríkir í stjórnmálastarfi og stjórnmálaflokkum á Íslandi. Fundarstjóri var Helga Vala Helgadóttir laganemi og stjórnarmaður í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík. Staðan hjá fólkinu í borginni. Umræðufundur sem haldinn var í Ölduselsskóla í Breiðholti þann 25. nóvember. Fram fóru hringborðsumræður með þátttöku ungmennaráða, eldri borgara, foreldra, Íþrótta- og tómstundaráðs, íþróttafélaga, þjóðkirkjunnar, þjónustumiðstöðva, skóla, Samfoks, íbúasamtaka og annarra félagasamtaka. Fulltrúar Samfylkingarinnar í hverfisráði Breiðholts, þau Falasteen Abu Libdeh og Stefán Jóhann Stefánsson tóku á móti fundargestum og borgarfulltrúarnir Björk Vilhelmsdóttir og Oddný Sturludóttir stjórnuðu umræðum. Erfið staða fólksins í borginni var rædd af hreinsskilni og var góður rómur gerður af frjálslegu og aðgengilegu skipulagi fundarins. Spurt og svarað. Stjórnmálaumræða með þingmönnum Reykjavíkur sem fram fór 3. desember. Óvissan í þjóðfélaginu var á þessum tímapunkti litlu minni en áður og sögusagnir og draugasögur um ástandið gengu fjöllum hærra. Þingmenn Samfylkingarinnar, þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Ellert B. Schram, Helgi Hjörvar og Steinunn Valdís Óskarsdóttir sátu fyrir svörum um ástandið í þjóðfélaginu. Fundarstjóri var Ásgeir Beinteinsson skólastjóri og formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Sumum spurningum félagsmanna var svarað en öðrum ekki. Ljóst var að ástandið í þjóðfélaginu hafði lítið batnað og kallað var eftir frekari neyðaraðgerðum. Árleg aðventugleði félagsins var haldin laugardaginn 10. desember. Þar fóru að venju fram óformlegar umræður um stjórnmál, lífið og tilveruna. Tveir höfundar eigin ævisagna, þau Hörður Torfason tónlistarmaður og Margrét Pála Ólafsdóttir skólastjóri lásu uppúr bókum sínum. Boðið var uppá ljúfar jólaveitingar. Var þetta jafnframt síðasti fundur ársins 2008. Palestína - Ísland var yfirskriftin á fyrsta félagsfundi á nýju ári þar sem fjallað var um hörmulega atburði á Gaza-svæðinu og deiluna fyrir botni Miðjarðarhafs. Fundurinn var haldinn 14. janúar og frummælendur voru Kristrún Heimisdóttir aðstoðarmaður utanríkisráðherra og Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndagerðarmaður. Fundarstjóri var Mörður Árnason varaþingmaður. Rætt var sérstaklega um samband Íslands og Ísraels en rík krafa var uppi í samfélaginu um að slíta ætti stjórnmálasambandi við Ísraela í kjölfar hernaðar þeirra á Gaza. II. KAFLI Fundurinn í Þjóðleikhússkjallaranum Félagsfundur sem haldinn var miðvikudagskvöldið í byltingarvikunni bar yfirskriftinaSamfylkingin og stjórnarsamstarfið. Undirbúningur fyrir fundinn hafði staðið um nokkurt skeið og stjórn félagsins lengi skynjað mikilvægi þess að félagsmenn kæmu saman til að ræða gang samstarfsins. Fyrst var rætt um slíkan fund í nóvember. Aðgerðarleysið var hinsvegar ekki ásættanlegt deginum lengur. Krafan um afgerandi breytingar var orðin verulega hávær meðal flokksmanna, fyrir utan þau miklu mótmæli viku eftir viku sem samfélagið allt varð svo áþreifanlega vitni að. Í byltingarvikunni fékk samfélagið smjörþefinn af því ástandi sem margar þjóðir heims þurfa að glíma við á hverju ári, sumar í hverjum mánuði og aðrar loga í endalausu ófriðarbáli. Í samanburði við þessar þjóðir ríkir hér friður; þarna mátti hinsvegar ekki miklu muna að sá friður væri úti. Vegna áhuga sem skrifstofa flokksins skynjaði frá félagsmönnum og vegna áhuga fjölmiðla, sem ítrekað fjölluðu um fundinn á miðvikudeginum, var ákveðið að finna stærri fundarsal. Þjóðleikhússkjallarinn varð fyrir valinu eftir nokkra leit. Þess má geta að fundurinn var auglýstur með hefðbundnum hætti að hálfu félagsins, líkt og aðrir félagsfundir; með tölvupósti til félagsmanna og á heimasíðu flokksins. Fundurinn var kynntur þannig að hann væri sérstaklega ætlaður félagsmönnum. Engin auglýsing var í dagblöðunum líkt og oft tíðkast þannig að um lágmarks kynningu var að ræða. Það gríðarlega fjölmenni sem birtist á tröppum Þjóðleikhússins og lokaði Hverfisgötunni, kom stjórn félagsins því algjörlega í opna skjöldu. Aldrei hefur fundur félagsins hlotið viðlíka athygli en auðvitað var það tímasetningin sem þarna skipti máli, mótmælin við suðumark og æpandi þörf fyrir að höggvið yrði á hnútinn án tafar. Opinn fundur Við upphaf fundarins þustu aðgerðarsinnar inn í fundarsalinn, gerðu nokkurn usla og höfðu hátt. Þetta upphlaup var ekki stöðvað heldur hlustuðu félagsmenn á mótmælendur kyrja í nokkurn tíma. Anna Pála Sverrisdóttir fundarstjóri og formaður Ungra jafnaðarmanna, gerði síðan grein fyrir því að slík truflun og frammíköll yrðu ekki liðin eftir að hún setti fund. Þetta var virt. Stjórnin áttaði sig á því fyrr um daginn að erfitt yrði að loka fundinum þannig að aðeins félagsmenn kæmust inn, líkt og til stóð. Sérstök gæsla var þess vegna ekki við dyrnar og starfsmenn hússins lentu í stympingum sem stjórnin harmar mjög. Stjórnarmenn fóru út til þess að ræða við mótmælendur og gerðu þeim grein fyrir að fundurinn þyrfti að taka afstöðu til ályktunar, en það yrði ekki hægt ef mótmælendur stöðvuðu fundinn. Þetta róaði ástandið svo fundarfært varð. Aðgerðarsinnar hurfu úr salnum og eftir sátu félagsmenn, fjölmiðlamenn og aðrir áhugasamir gestir. Fundarsalurinn og allur kjallarinn var orðinn troðfullur, hurðum lokað og Þjóðleikhúsinu læst. Fundurinn hófst á réttum tíma en fyrir utan ómuðu baráttusöngvar sem bárust inn í salinn og lituðu andrúmsloftið. Þeir sem inni sátu gerðu sér þó enga grein fyrir þeim mikla mannfjölda sem mótmælti fyrir utan og beið frétta. Fundarstjóri óskaði eftir afstöðu fundarmanna til þess hvort loka ætti fundinum fyrir fjölmiðlum eftir framsöguræður. Yfirgnæfandi meirihluti fundarmanna vildi að fundurinn yrði allur opinn fyrir fjölmiðlum. Kröfur um kosningar Fundarstjóri kynnti þar næst Ásgeir Beinteinsson formann Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, sem greindi frá ályktun stjórnar félagsins frá 16. nóvember. Ályktunin varð fréttaefni á sínum tíma en í henni var skorað á þingflokkinn að beita sér fyrir alþingiskosningum sem fyrst á árinu 2009. Ásgeir óskaði eftir því að ályktunin yrði borin upp til atkvæða í lok fundar, með breytingum á orðalagi, þar sem aftur yrði skorað á þingflokkinn að beita sér fyrir kosningum sem fyrst, en í síðasta lagi í maí 2009. Afrit að ályktuninni var síðan dreift og fundarmenn höfðu tækifæri til að gera athugasemdir eða breytingatillögur. Lúðvík Bergvinsson þingsflokksformaður tók svo til máls og fór yfir atburði síðustu mánaða, útskýrði áætlanir ríkisstjórnarinnar og taldi að kjósa þyrfti á árinu; slík krafa væri ekki óeðlileg eins og ástandið væri orðið. Hann sagði einnig að gera þyrfti mannabreytingar í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Fara þyrfti í aðgerðir svo stjórnarsamstarfinu yrði framhaldið en ekki væri ennþá útséð með hvort gengi að samræma hugmyndir stjórnarflokkanna. Mörður Árnason varaþingmaður tók næst til máls og lýsti miklum efasemdum um stjórnarsamstarfið, sagði það skýra kröfu að kosið yrði sem fyrst og að í raun hefði pólitískt umboð ríkisstjórnarinnar hrunið með bönkunum í haust. Aðgerðir hefðu ekki skilað árangri og brýn mál hefðu dagað uppi. Þolinmæði flokksmanna væri á þrotum og stefna samstarfsflokksins hefði beðið skipbrot. Mörður hafði auk þess áhyggjur að grunnhugmyndir um Samfylkinguna og þær hugsjónir sem hún var stofnuð um hefðu farið forgörðum í stjórnarsamstarfinu. Öfgalausar umræður Þegar frummælendur höfðu lokið framsögu var mælendaskrá opnuð og fjöldi félagsmanna tók til máls og tjáði sig af hreinskilni um stjórnarsamstarfið. Mikil samstaða var meðal ræðumanna, viðbrögð fundarmanna afgerandi og verulegar og alvarlegar áhyggjur komu fram vegna samstarfsins. Mörgum þótti nóg komið og að samstarfinu ætti að slíta sem fyrst. Hæfileiki forystumanna ríkisstjórnarinnar til að klára nauðsynlegar aðgerðir var ítrekað dreginn í efa og krafan um þingkosningar skýr. Allar umræður fundarmanna fóru vel fram, voru studdar sanngjörnum rökum og með öllu öfgalausar. Mikill einhugur einkenndi fundinn þótt andrúmsloftið væri þungt. Alvarleiki stöðunnar öllum ljós. Í lok fundarins var ályktunin borin upp til atkvæða, en tvær samhljóða breytingatillögur höfðu borist sem báðar gerðu ráð fyrir að jafnframt yrði skorað á þingflokkinn að beita sér fyrir því að stjórnarsamstarfinu yrði slitið strax. Breytt ályktun var samþykkt samhljóða með dynjandi lófataki. Að fundi loknum steig formaður félagsins út á tröppur Þjóðleikhússins og las upp ályktunina við mikinn fögnuð mannfjöldans. Ályktun fundarins "Mikil ólga og reiði er í samfélaginu og krafan um kosningar er hávær. Samfylkingin sem lýðræðislegur stjórnmálaflokkur má ekki skella skollaeyrum við eðlilegum kröfum þjóðarinnar um virkt lýðræði. Með kosningum verður þjóðin þátttakandi í þeirri uppbyggingu sem framundan er. Félagsfundur í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík skorar á þingflokk Samfylkingarinnar að beita sér fyrir því að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks verði slitið strax og mynduð verði ný stjórn fram að kosningum sem fram fari eigi síðar en í maí 2009. Traust almennings verður einungis endurvakið með kosningum". Tímamót? Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar, hefur sagt að félagsfundurinn í Þjóðleikhússkjallaranum hafi í raun ekki markað nein sérstök tímamót í ríkisstjórnarsamstarfinu. Fundurinn hafi frekar verið til marks um að þolinmæðin væri á þrotum. Hugmyndir sem upp komu á fundinum hafi oft verið nefndar og ræddar bæði opinberlega og innan flokksins. Þetta er alveg rétt og sýnir vel að flokksmenn og flokksfélög, þar á meðal Samfylkingarfélagið í Reykjavík, hafi frá því í haust haft verulegar áhyggjur af þeirri stöðu sem upp var komin í stjórnarsamstarfinu. Á þessum félagsfundi brast hinsvegar flóðgáttin svo ekki var aftur snúið. Að því leyti var um vatnaskil í ferlinu að ræða og fundurinn undirstrikaði vilja fjölda fólks. Tímamótin sem fólust í fundinum í Þjóðleikhússkjallaranum voru því ekki vegna ályktunarinnar sem slíkrar, heldur umræðunnar á fundinum og skýrum viðhorfum fundarmanna. Umgjörð fundarins var líka sérstök; dynjandi trumbusláttur og söngur. Tímasetningin og umgjörðin voru staðfesting á því að mælirinn var fullur. Þolinmæði flokksmanna og fólksins á þrotum. Nokkrum dögum síðar kom í ljós að þolinmæði þingflokksins var einnig á þrotum og samstarfinu því sjálfhætt. Að hápunkt byltingarvikunnar skuli hafa borið upp á sama kvöld, var í raun tilviljun, en samt staðfesting á því að stjórnmálahreyfingar og forysta þeirra verða ætíð að ganga í takt við fólkið, hlusta á vilja fjöldans og starfa náið með grasrótinni. Skynja taktinn í samfélaginu. Öðruvísi verða kjörnir fulltrúar, sem þiggja umboð sitt frá kjósendum, ekki sannir fulltrúar fólksins og geta hæglega tapað jarðsambandinu. Andrúm og umræður á fundum Samfylkingarfélagsins í Reykjavík frá því í haust voru skýrt merki frá félagsmönnum. Stjórn félagsins var vel upplýst um gang mála og hafði óskoraðan stuðning félagsmanna. Fullviss um einhuginn í félaginu og að vel athuguðu máli, gat stjórnin því borið fram og staðið við ályktun fundarins um að stjórnarsamstarfinu ætti að slíta. Rökin voru augljós. Baklandið traust. Miðvikudaginn 28. janúar var svo haldinn félagsfundur undir yfirskriftinni Ný ríkisstjórn í burðarliðnum þar sem þingmennirnir Helgi Hjörvar og Steinunn Valdís Óskarsdóttir svöruðu spurningum fundarmanna um atburði helgarinnar og aðdraganda stjórnarslitanna. Fundarstjóri var greinarhöfundur, Sigurður Kaiser hönnuður og stjórnarmaður í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík. Umræður voru afar góðar og hreinskiptnar og fjöldi fundarmanna tók til máls. Tilhlökkun og spenna var í félagsmönnum vegna nýrrar ríkisstjórnar og fengu þingmenn bæði hrós, góðar ábendingar og hugmyndir en líka áminningar vegna atburða liðinna mánaða. Félagsmenn kröfðust þess að þingmenn leituðu sem oftast samráðs og ræktuðu vel sambandið við grasrótina. III. KAFLI Samstilling flokksmanna og forystu Fleiri aðildarfélög Samfylkingarinnar tóku undir ályktunina frá félagsfundinum miðvikudaginn 21. janúar í Þjóðleikhússkjallaranum, m.a. Ungir jafnaðarmenn og stjórnir Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og Kópavogi. Verulegar áhyggjur vegna stjórnarsamstarfsins komu fram á fundi Reykjavíkursamráðs fimmtudaginn 22. janúar og á fjölmennum fundi með formönnum aðildarfélaga flokksins laugardaginn 24. janúar var álíka samhljómur. En svo farið sé lengra aftur í tímann, þá var mikil ólga meðal flokksmanna í aðdraganda flokksstjórnarfundar sem haldinn var í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ, laugardaginn 22. nóvember. Á þeim tíma var óvissan mikil í þjóðfélaginu og nýjar upplýsingar um hrunið komu fram daglega án þess að raunveruleg áætlun um endurreisn væri komin til framkvæmda. Efasemdir um stjórnarsamstarfið voru töluverðar og flokksmönnum þóttu áherslur flokksins og grunnhugsjónir hafa gleymst í samstarfinu. Vandræðagangur Sjálfstæðisflokksins þurfti stöðugt meira skjól og þoldi ekki dagsljósið. Frekari meðvirkni var ekki réttlætanleg og andstæð þeim hugmyndum sem Samfylkingin var stofnuð um; siðbót í íslenskum stjórnmálum. Í umræðum á fundinum þar sem margir flokksmenn tjáðu sig opinskátt um ástandið og gagnrýndu stjórnarsamstarfið komu þessi sjónarmið vel fram. Í bláum skugga Ingibjörg Sólrún hefur lýst fundinum þannig að hún hafi í raun með handafli sannfært flokksstjórnarfulltrúa um að farsæl lausn mála væri ennþá möguleg. Að hún hafi haft vilyrði fyrir því að tekið yrði á málefnum Seðlabankans og öðrum lykilmálum. Beðið væri eftir viðbrögðum við tillögum Samfylkingar um aðgerðir og rétt væri að gefa samstarfsflokknum tíma, auk þess sem umræður um aðild að Evrópusambandinu voru loksins að hefjast fyrir alvöru. Forystan var því allan tímann heils hugar í samstarfinu og gerði hvað hún gat til þess að nauðsynlegar aðgerðir næðu fram að ganga. Á flokksstjórnarfundinum færði Ingibjörg Sólrún þannig rök fyrir áframhaldandi samstarfi. Flestir fundarmenn féllust á rökin og samþykktu framhaldið, sumir með semingi. Aðrir voru ekki ánægðir og ljóst að ólgan kraumaði undir og átti eftir að stigmagnast á nýjan leik. Að þessu sögðu var ljóst að flokksmenn gengu undir þungum takti, sameinaðir þó, en áhyggjufullir og varkárir vegna stjórnarsamstarfsins. Fullt traust var áfram borið til forystunnar og formanns þó áskoranir og varnaðarorð flokksmanna væru vel þekkt. Í þessu ljósi var spuni fyrrverandi forsætisráðherra um upplausn innan Samfylkingarinnar innistæðulaus; að flokkurinn væri í tætlum var smjörklípa. Það sem var í tætlum var trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar. Raunveruleg ástæða falls forsætisráðherra og óstjórnar hans var ótraust efnahagsstjórn og algjört kerfishrun. Þarf frekar vitnanna við? Kreppa allra tíma! Stórskuldug smáþjóð! Nei, þetta endaði með ósköpum og svarið var augljóst; stundaglas stjórnarsamstarfsins galtómt. Önnur vika í bláum skugga Sjálfstæðisflokksins hefði orðið samfélaginu dýrkeypt. Verkáætlun uppá borðinu Síðustu mánuði hefur töluvert verið fjallað um heilsu formannsins; að veikindi Ingibjargar Sólrúnar hafi klofið flokkinn og teflt mikilvægum aðgerðum í tvísýnu. Stöðvað framvindu verkefna. Andstæðingar hugsuðu sér gott til glóðarinnar og kokkuðu upp slúður um vandræði flokks og forystu. Slúðursúpan sú var ódýr og rammsölt. Vitanlega væri best ef formaður flokksins væri alltaf við hestaheilsu, en eins og Ingbjörg Sólrún hefur sjálf orðað það, er lítið annað hægt að gera en að taka veikindum eins og hverju öðru hundsbiti. Sem betur fer hefur hún nú fengið hinar bestu fréttir miðað við aðstæður og safnar kröftum til góðra verka. Líklega er það rétt að umræðan um heilsu formanna beggja ríkisstjórnarflokkanna fyrrverandi tók tíma frá umræðunni um brýnni verkefni, en því fer fjarri að um tafir hafi verið að ræða vegna fjarveru Ingibjargar Sólrúnar. Tafirnar urðu fyrst og fremst vegna frestunaráráttu samstarfsflokksins, en víðtæk aðgerðaáætlun til að takast á við efnahagsvandann frá Samfylkingunni hafði verið uppá borðinu svo vikum skipti. Þegar heill samfélagsins er undir má auðvitað ekki láta reka á reiðanum hversu góð eða slæm sem heilsa einstaka forystumanna kann að vera. Því kom aldrei annað til greina en að keyra neyðaraðgerðir áfram af krafti, en samstarfsflokkinn skorti kjarkinn. Verkstjórinn Geir Hilmar Haarde var með verkkvíða og því fór sem fór. Endurmat er nauðsynlegt Það er ekki til marks um upplausn að grasrótin í stjórnmálaflokki tjái viðhorf sín, láti í sér heyra, gagnrýni og áminni, hrópi eða hvísli, rífist jafnvel og rökræði. Það er þvert á móti styrkur að geta frjálslega tekist á við erfið málefni. Mismunandi og fjölbreyttar skoðanir eru nauðsynlegt frískleikamerki. Á fundinum í Þjóðleikhússkjallaranum sýndi grasrótin mátt sinn og megin og tók faglega á flókinni stöðu. Forystan var auk þess upplýst um hvert skref við undirbúning fundarins og gerði engar athugasemdir við umgjörð hans né tímasetningu. Ekki var því á nokkurn hátt vegið að formanni þótt grasrótin bylti sér líkt og andstæðingarnir héldu stöðugt fram. Þannig opinbera margir þeirra hinsvegar þekkingarleysi sitt á lýðræðislegum vinnubrögðum; viðurkenna foringjadýrkun og þöggun sem eðlilega starfshætti. Líkt og um lokaðan einkaklúbb væri að ræða. Að viðhalda valdakerfinu í þágu vina og sérhagsmuna hefur verið þeirra helsta markmið. Örvæntingafullir standa varðhundar þess kerfis nú berskjaldaðir; tilvera þeirra hrunin ásamt bönkunum. Hugmyndafræðin mygluð. Eftir slíkt áfall er beinlínis nauðsynlegt að horfast í augu við fortíðina og endurmeta lífsgildin af auðmýkt. Þeir ættu að sjá sóma sinn í að víkja til hliðar á meðan uppbyggingin er undirbúin. Batnandi mönnum er best að lifa. Spillinguna burt! Heilbrigt samband hvunndagshetja í flokkunum við hina háttvirtu kjörnu fulltrúa, er forsenda þess að hér verði almenn sátt um framhaldslíf flokkakerfis. Að öðrum kosti stendur það höllum fæti. Alræði forystumanna og einleikur valdhafa er ekki hugmyndin bakvið flokkakerfið og ætti að heyra sögunni til eftir hremmingar síðustu mánaða. Spillingu þarf að uppræta með öllum tiltækum ráðum! Stjórnmálasamtök eru, eða eiga að vera, tæki fólksins til að gera umbætur á þjóðfélaginu og breyta því. Flokkar, þingræði og þrískipting valds er ríkjandi stjórnkerfi. Ef þjóðin vill breytingar þurfa landsmenn og þingmenn að sameinast um þær breytingar. Innan flokkanna sem og í samfélaginu öllu verður lýðræðið að vera æðsta valdið. Hugmyndir um stjórnlagaþing vegna grundvallarbreytinga á stjórnskipan lýðveldisins eru þannig verulega tímabærar. Fyrstu mál á dagskrá þingsins hljóta að verða skýrari aðskilnaður valds og styrking þingræðis Alþingis. Virkt lýðræði Um stefnumið Samfylkingarinnar segir m.a. í lögum hennar: "Hlutverk Samfylkingarinnar er að vinna að mótun íslensks samfélags byggðu á jafnaðarstefnu, félagshyggju, frelsi einstaklingsins, kvenfrelsi, jafnrétti borgaranna og samábyrgð. Samfylkingin er opin öllum sem styðja markmið hennar. Samfylkingin vill lýðræðislegt þjóðskipulag byggt á virkri þátttöku almennings, valddreifingu og virðingu fyrir mannréttindum." Sú frjálsa og sjálfsagða umræða sem félagsmenn í Samfylkingunni og almenningur allur stundar nú dag hvern á fundum, vinnustöðum, heimilum, kaffihúsum, í skólum eða bara hvar sem er um allt samfélagið, er forsenda fyrir beinu og virku lýðræði - bæði innan stjórnmálaflokka og utan. Raddir fólksins eiga að hljóma og frjálsa tjáningu má aldrei þvinga né þagga niður. Að lifandi umræða flæði um alla þræði Samfylkingarinnar, um allt taugakerfið, frá grasrót til forystu og aftur til baka er alls ekki veikleikamerki heldur vitnisburður um heilbrigði og styrk þeirrar skapandi breiðfylkingar sem Samfylkingin er og þarf að vera. Rauðgræn grasrót Hin nýja ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur hlýtur að nýta sér þau tækifæri sem felast í þeim mannauði og þeirri hugmyndaauðgi sem býr í flokksmönnum, grasrótinni og leggja þannig grunn að rauðgrænni framtíð. Hér með er skorað á kjörna fulltrúa stjórnarflokkanna beggja að leita reglulega til grasrótarinnar og þjóðarinnar allrar vegna brýnna samfélagsverkefna og mikilvægra ákvarðana. Aðeins þannig eflist lýðræðið. Og þessari áskorun hefur þegar verið tekið, því á vel heppnuðu framtíðarþingi á Hressó, laugardaginn 7. febrúar, var grasrótin í aðalhlutverki. Skapandi umræður um brýnustu verkefnin voru uppbyggilegar og fjölmargar góðar hugmyndir fæddust sem nýtast munu við endurreisnina. Þarna sannaðist að óbeisluð orka býr í flokksmönnum, þeir eru hvergi af baki dottnir við að uppfylla raunverulegt erindi Samfylkingarinnar við íslenskt samfélag. Höfundur er varaformaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík og í flokksstjórn Samfylkingarinnar. Greinin birtist fyrst á vefsvæði Samfylkingarinnar; samfylking.is þann 16. febrúar 2009.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.9.2009 kl. 05:18 | Facebook