Níu milljarðar

Jörðin að næturlagi

Þróun mannfjölda á Jörðinni var framanaf í jafnvægi og fjölgun manna hægfara. Það var ekki fyrr en á 20. öld að mannkyninu tók að fjölga verulega og mun hraðar en áður. Iðnbyltingunni í lok 19. aldar fylgdi mikil fólksfjölgun og sama má segja um tæknibyltingu síðustu áratuga, en af henni hefur hlotist mikil fjölgun. Um miðja 20. öld voru um tveir milljarðar manna á Jörðinni. Aðeins þremur áratugum síðar hafði sú tala tvöfaldast og í dag, rúmlega sextíu árum síðar telur mannkynið um sex og hálfan milljarð, sem er þreföldun á einni mannsævi.

Þessi mikla fólksfjölgun er að mörgu leyti jákvæð, því ljóst er að lífsskilyrði, heilsa og afkoma manna hafa batnað þegar á heildina er litið, sérstaklega á Vesturlöndum. Mannsævin hefur lengst sem hlýtur að teljast jákvætt framfaraskref, en þessi hraða fjölgun helst einnig í hendur við breytingar á loftslaginu og er stór áhrifavaldur í yfirvofandi loftslagsvá.

Svo hröð fólksfjölgun gerir það að verkum að öll náttúran er undir stórauknu álagi, ekki síst nú, þegar hraðar fjölgar í millistéttum og neysla og framleiðsla eykst á áður óþekktum hraða. Af hverjum 33 tonnum af framleiddum vörum í heiminum er 32 tonnum hent. Aðeins eitt tonn af 33 eru varanlegar framleiðsluvörur, afgangurinn er sorp. Við þessa þróun, sem ekki sér fyrir endan á, eykst t.d. álagið á helstu málma og jarðefnaeldsneyti og notkun vatns eykst, en ferskvatn er nú orðin ein eftirsóttasta auðlind Jarðar.

Hluti af lausninni hlýtur því að vera að koma böndum á þessa hröðu mannfjöldaþróun og leita jafnvægis við nýtingu og verndun auðlinda. Mannkynið gengur í auknum mæli og stöðugt hraðar á auðlindir náttúrunnar, án þess að gæta þess að eðlileg endurnýjun fari fram. Sjálfbærni auðlinda er fórnað. Sumar auðlindir hafa af þessum sökum þurrkast upp sem þýðir að þeirra verður ekki notið framar, a.m.k. ekki fyrr en eftir hundruð eða þúsundir, jafnvel milljónir ára.

Taka má olíulindir sem dæmi. Ljóst er að olía er takmörkuð auðlind og eldsneyti sem mannkynið er orðið háð. Olían er auðlind sem nær alls ekki að viðhalda sér með slíkri ásókn og verður líklega uppurin innan nokkurra áratuga. Olía og önnur jarðefnaeldsneyti verða til djúpt í jarðlögum á þúsundum ára og því ljóst að of geyst er farið ef hún þurrkast upp á nokkur hundruð árum. Slík þróun gengur eðlilega ekki, hvorki hvað olíu né aðrar auðlindir varðar. Leita þarf nýrra leiða og þróa orkugjafa í sátt við ferli og hraða náttúrunnar. Slík viðhorf eru sem betur fer að verða algild, en þó er langt í land að jafnvægi sé náð.

Sú staðreynd að ný kolaknúin verksmiðja er gangsett nánast vikulega í Kína er ógnvekjandi og þar er toppnum ekki nærri því náð. Mengun sem af þessu stafar er afar mikil og berst víða. Kína notar nú meira af kolum en Bandaríkin, lönd Evrópu og Japan samanlagt og á næstu 25 árum mun Kína brenna meira af kolum og senda meira af koltvísýringi út í andrúmsloftið en öll önnur lönd heimsins samanlagt. Vöxtur í Kína er því svakalegur, en er samt ekki einsdæmi því Indland siglir nú fram á ljóshraða og brátt verða Indverjar fleiri en Kínverjar.

Meðfylgjandi teiknimynd sýnir þróun mannfjölda frá upphafi tímatalsins til okkar daga. Algjör mannfjöldasprenging verður á 20. öld. Einnig sýnir hún mannfjöldaspá næstu 30 ára. Líklegt er að um miðja öldina muni mannkynið telja yfir níu milljarða manna. Þá er talið mögulegt að hægi á mannfjöldaaukningunni og jafnvægi komist á þróunina. En það er háð nokkrum þáttum, s.s. að hægt verði að koma böndum á ótímabærar þunganir og hægja á aukningunni sem einkum á sér stað í þróunarríkjunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband