Laugardagur, 5. apríl 2008
Óþægilegur sannleikur
Heimildarmyndin An Inconvenient Truth, Óþægilegur sannleikur eftir Al Gore, sem einu sinni var næsti forseti Bandaríkjanna, eins og hann kynnir sjálfan sig í myndinni, er eitt mikilvægasta framlagið í umræðunni um hlýnun Jarðar.
Þegar myndin var frumsýnd má segja að umræðan hafi stokkið uppá stærra svið og inní almenna umræðu, sérstaklega í Bandaríkjunum. Al Gore byggir með myndinni mikilvæga brú á milli vísindanna, stjórnmálamanna og almennings og myndin verður því öflugt ákall um viðbrögð umheimsins við loftslagsvánni.
Myndin hlaut Óskarsverðlaun sem heimildarmynd ársins 2007 og er byggð upp í kringum vel sviðssettan og myndrænan fyrirlestur sem Gore hefur flutt víða um heim síðustu árin. Þó að myndin sé aðeins tveggja ára gömul er mikið af þeirri myrku framtíðarsýn sem þar er sett fram nú þegar orðin að veruleika. Nánast allt sem þar birtist hefur verið staðfest með vísindalegum rannsóknum og skýrslum, nú síðast risaskýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Myndin lýsir líka vel mannfjöldaþróuninni sem orðið hefur, sérstaklega eftir seinni heimstyrjöld, en á þessum rúmlega 60 árum hefur mannfjöldi aukist úr 2 milljörðum í rúmlega 6 milljarða og um miðja öldina er líklegt að mannkynið telji um 9 milljarða manna. Þetta tengist beint aukningu koltvíoxíðs í andrúmsloftinu, gríðarlegri tæknibyltingu síðustu áratuga og þeim breytingum á loftslaginu sem í daglegu tali eru nefnd gróðurhúsaáhrif.
Framsetning upplýsinga í myndinni er með þeim hætti að mjög auðvelt er að skilja flóknar vísindalegar niðurstöður og rannsóknir. Myndin ætti því að opna augu margra fyrir þeim vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga sem orðið hafa af mannavöldum.
Í myndinni lýsir Gore þeirri skoðun sinni að framtíð Jarðarinnar og samfélag mannanna sé í húfi ef ekkert verður aðhafst og færir fyrir því sterk rök. Hann segir það siðferðislega skyldu manna, ekki síst stjórnmálamanna, að bregðast við núna og snúa við blaðinu. Hann lýsir því hvernig hann fékk í raun að skyggnast inní framtíðina sem háskólanemi, en kennari hans, Dr. Roger Revelle, var frumherji í mælingum á koltvísýringi í andrúmsloftinu og skynjaði hættuna framundan.
Þrautsegja Gore hefur síðan verið einstök, en í raun byrjaði hann að benda á vandamálið fyrir tugum ára síðan, m.a. fyrir þingnefndum Bandaríkjaþings, en talaði jafnan fyrir daufum eyrum. Þáverandi forseti Bandaríkjanna, George Bush eldri, kallaði hann í ræðum á opinberum vettvangi geggjaðan villitrúarmann.
Al Gore birtist í myndinni sem einarður og sannur baráttumaður fyrir bættum heimi og sýnir hlið á sér sem er athyglisverð, sérstaklega í ljósi þess að hann er í raun "hreinræktaður" bandarískur stjórnmálamaður, en faðir hans var öldungadeildarþingmaður í Washington. Persónuleg reynsla hans vegna bílslyss sonar vakti hann til vitundar um hvað skiptir virkilega máli í lífinu.
Það sem er líka áhugavert að velta fyrir sér, í ljósi þess að Al Gore "tapaði" forsetakjöri í Bandaríkjunum árið 2000, hvað hefði gerst ef hann hefði orðið forseti. Líklega hefði hann komist eitthvað áfram með baráttu sína fyrir bættri umhverfisvitund innan stjórnarinnar. En er víst að hann hefði farið þá leið sem hann fer hér? Hefði stjórnmálaumhverfið í Washington leyft honum það? Hefði málið kannski dagað uppi enn einu sinni? Var það kannski lán í óláni að Gore náði ekki kjöri svo boðskapurinn kæmi fram með þessum hætti? Hann segir að eftir kosningaklúðrið hafi hann vaknað til vitundar, byrjað uppá nýtt og náð að skynja hið stóra samhengi hlutanna.
En af hverju eru upplýsingar þær sem fram koma í myndinni kallaðar óþægilegur sannleikur? Hvers vegna eru þær ekki taldar trúverðugar af stjórnvöldum í Bandaríkjunum? Hvers vegna bregðast stjórnvöld ekki við vánni strax? Hvers vegna hefur upplýsingum um loftslagsbreytingar ítrekað verið breytt af launuðum vísindamönnum á vegum Bandaríkjastjórnar og sannleikanum hagrætt? Hvaða hagsmuni hafa stjórnvöld af því að réttar upplýsingar komi ekki fram?
Al Gore bendir á mörg dæmi þess að olíuiðnaðurinn hafi með skipulegum hætti þaggað niður í þeim sem vildu leggja fram þessar upplýsingar og þrýsihópar á vegum olíufyrirtækja ítrekað grafið undan umræðunni með öllum tiltækum ráðum, m.a. mútugreiðslum. Hann bendir í þessu sambandi á að "það er erfitt að fá mann til að skilja eitthvað, ef laun hans eru háð því að hann skilji það ekki."
Í lok myndarinnar fjallar Gore um leiðir til úrbóta og hann lýsir því að í raun eigum við öll nauðsynleg tæki og þekkjum þær hugmyndir sem við þurfum til að snúa þróuninni við og takast á við vandamálið. Hann segir: "We have everything we need but, say perhaps, political will. But do you know what? In America, political will is a renewable resource." Við höfum allt sem við þurfum nema, kannski, pólitískan vilja. En vitiði hvað? Í Bandaríkjunum er pólitískur vilji endurnýjanlegt hráefni.
Ljóst er að mikil barátta er framundan til að koma í veg fyrir óafturkræfar breytingar á lífríki og vistkerfi Jarðarinnar. Hvað stjórnmálin í Bandaríkjunum varða þá hlýtur það að vekja bjartsýni að bæði Hillary Clinton og Barak Obama eru vel meðvituð um vandamálið, meira að segja John McCain er á margan hátt umhverfisvænn kostur, þó hann sé afleitur á öðrum sviðum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Kvikmyndir, Menning og listir, Vísindi og fræði | Breytt 4.5.2008 kl. 15:17 | Facebook