Móðir náttúra - Engin tilviljun

Fóstur

Náttúran er stórfenglegt samofið gangverk óteljandi ólíkra þráða. Síbreytilegt og undurfagurt kraftaverk. Mannkynið er hluti af náttúrunni. Það sem mannkynið skapar er hluti af náttúrunni.

Móðir náttúra hefur engar tilfinningar en náttúran kallar samt fram kröftugar tilfinningar hjá mönnum. Hvort sem um er að ræða hryllilegar hamfarir eða fágaða fegurð, bregst maðurinn við með tárum eða trega, von eða vonleysi. Náttúruhamfarir leysa úr læðingi gríðarmikla orku og snerta líf manna. Er það þessi orka sem framkallar tilfinningar eða er það aðdáunin og óttinn við augljósa yfirburðina?

Náttúran spyr ekki um aðstæður á Jörðinni, né hjá mönnunum, breytingar í náttúrunni gerast óháð því hvort þær hafi áhrif á mannkynið eða ekki. Náttúran tekur því ekkert tillit til mannsins. Hún er sjálfstæð og sækir ekki um framkvæmda- né ferðaleyfi. Lögmálum náttúrunnar breytir mannkynið ekki en örlög mannkynsins eru í höndum náttúrunnar.

Action = Reaction. Reaction = Action. Atburðir í náttúrunni hafa afleiðingar í för með sér og orsakast af öðrum atburðum. Náttúran og lífríki Jarðarinnar er samsett eftir nákvæmum fyrirmælum efnafræðinnar. Ekkert gerist fyrir tilviljun í náttúrunni. Allt sem fæðist, lifir, þroskast og deyr er hluti af þeim flókna vef sem náttúran spinnur dag og nótt, árið um kring um aldir alda. Allt hefur sinn tilgang.

Ferðalag móður náttúru er langt í samanburði við ferðalag mannsins. Breytingar gerast hægt og aðeins eftir að langir efnafræðilegir ferlar þróast í aðstæðum sem náttúran hefur skapað. Móður náttúru liggur heldur ekkert á. Hún mun lifa mannkynið af. Hún þarf ekki á okkur að halda en við þurfum á henni að halda.

Maðurinn er ung dýrategund en einstök. Á stuttum tíma hefur manninum tekist að þróa með sér vitsmuni. Og segja má að maðurinn sé því undantekningin sem sannar regluna um tilviljanir í náttúrunni. Vitsmunir mannanna geta í raun framkallað tilviljanir eða tekið ákvarðanir sem eru andstæðar grunnhvötum og því í mótstöðu við upprunalegan tilgang tegundarinnar. Vitsmunir eru ástæða þess að mennirnir hafa alltaf val hvort þeir fylgja sínum hvötum eða vinna gegn þeim. Engin dýrategund hefur endurhugsað tilveru sína jafnoft og á svo stuttum tíma, líkt og maðurinn gerir í sífellu.

Önnur dýr efast ekki líkt og maðurinn gerir og hafa ekki frelsi til vitrænnar hugsunar, heldur taka ákvarðanir sínar samkvæmt meðfæddum grunnhvötum. Líf dýra snúast um að uppfylla grunnþarfir án þess að vitsmunir komi þar nokkuð við. Dýr hafa að þessu leyti ekkert val og enga undakomuleið frá hvötunum.

En felast mistök mannanna vegna yfirvofandi loftslagsvanda í notkun á vitsmunum. Frelsinu til að velja? Eru það gjörðir manna sem eru að breyta náttúrunni á óafturkræfan hátt? Hefur valfresli mannanna gert það að verkum að náttúran mun skaðast svo ekki verður aftur snúið? Hver var þá tilgangurinn með fæðingu mannsins? En mun móðir náttúra þá ekki lifa áfram? Jú líklega og Jörðin er ekki í hættu. En mannkynið gæti hinsvegar verið í hættu.

Maðurinn hefur lengi viljað drottna yfir Jörðinni og hefur aldrei viljað viðurkenna vanmátt sinn gangvart móður náttúru. Er það vandamálið sem mannkynið stendur frammi fyrir? Hefur mannkynið sagt móður náttúru óvinnanlegt stríð á hendur?

Spurningin er ekki lengur um hvort og hve mikil áhrif hlýnun Jarðar hefur á mannkynið og lífríki Jarðarinnar. Spurningin er hversu skjótt mannkynið nær að bregðast við til að takmarka þann skaða sem af hlýnuninni mun hljótast.

Nú þurfum við að vakna því náttúran á að njóta vafans. Við eigum ekki annarra kosta völ. Nú verður maðurinn að sanna tilgang sinn og snúa við þróuninni, taka upp lifnað í sátt og samlyndi við móður náttúru og stuðla að nýju jafnvægi hér á Jörðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband