Færsluflokkur: Kvikmyndir

Sex gráður gætu breytt heiminum

SixDegrees

Umræðan um hnattræna hlýnun, Global Warming, snýst að miklu leyti um niðurstöður vísindalegra rannsókna og hversu nákvæmar og raunhæfar þær séu. Nefndar eru mismunandi tölur um hve mikil hlýnunin kunni að verða eða jafnvel hvort nokkur hlýnun verði yfirhöfuð. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar enda eru veðurfar, umhverfi, dýralíf og vistkerfið svo víðtæk rannsóknarefni að stór hluti vísindamanna heimsins kemur með einhverjum hætti að verkefninu.

Flestir eru sammála um að töluverð hlýnun hafi nú þegar átt sér stað og rannsóknir sýna að meðalhiti hækkaði um eina gráðu celsius á síðustu öld. Mannkynið hefur aldrei lifað tímabil þar sem meðalhitinn er einni gráðu hærri en hann er núna og á síðustu milljón árum hefur ekki verið heitara. 

Flestar rannsóknir sýna einnig að ef aðeins meðalspár rætast er samt veruleg vá fyrir höndum og breytingar verða miklar og óafturkræfar. Vísindasamfélagið er orðið algjörlega sammála um þessar niðurstöður og skýrsla Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, Intergovernmental Panel on Climate Change, spáir því að hlýnunin verði á milli 1,4 til 6,4 gráður celsius á þessari öld. Ef meðalspár IPCC rætast og hlýnunin verður t.d. um þrjár gráður mun líf manna og vistkerfið gjörbreytast.

En enginn veit nákvæmlega hvert raunverulega stefnir og vandasamt er að spá fyrir um framtíð loftslagsins. Einnig er deilt um hvort sú hlýnun sem kunni að vera framundan sé hættuleg manninum og sumir telja að lítið mál verði að aðlagast breyttum aðstæðum. Þessar raddir heyrast þó æ sjaldnar þegar augljósar sannanir fyrir dramatískum afleiðingum hlýnunar birtast nú nánast daglega í fjölmiðlum.

Hæst fer deilan um það hvort hlýnunin sé af mannavöldum eða hvort um eðlilega hlýnun og veðurfarssveiflu sé að ræða. Margt bendir til þess að þessari deilu fari líka að ljúka og hægt verði að sameinast um víðtæka viðbragðsáætlun. Nánast allar þjóðir heims hafa tekið höndum saman um hnattræn viðbrögð. Meira að segja Bandaríkjastjórn er að snúast á sveif með þeim sem vilja aðgerðir strax og hefur loksins gert áætlun um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Það er góðs viti, en Bandaríkin hafa um árabil losað mest allra og dregið lappirnar í þessum málum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa leitt umræður og samningagerð vegna loftslagsbreytinga. Nánast allar þjóðirnar eru aðilar að rammasamkomulagi um viðbrögð við loftslagsbreytingum, United Nations Framework Convention on Climate Change, frá árinu 1992. Kyoto bókunin, þar sem kveðið er á um hve miklum koltvísýringi þjóðirnar, þ.m.t. þróunarlönd, mega losa út í andrúmsloftið var svo undirrituð árið 1997. Allar þjóðirnar hafa staðfest bókunina nema Bandaríkin, en hún gildir til ársins 2012. Nýtt ferli er þegar hafið þar sem samið verður um ný viðmið eftir árið 2012. Stefnt er að því undirrita nýja bókun á ráðstefnu í Kaupmannahöfn árið 2009. 

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fylgja stefnu Evrópusambandsins og stefna að 50-75% minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2050 miðað við losunina árið 1990. Það verður ekki létt verk fyrir Ísland að uppfylla þessi skilyrði miðað við stöðuna í dag. Þörf er á allsherjar átaki hér heima.

Í heimildarmynd National Geographic sjónvarpsstöðvarinnar, Six degrees could change the world, Sex gráður gætu breytt heiminum, fjallar á afar áhrifaríkan hátt um hugsanlega hnattræna hlýnun. Dregnar eru skýrar línur vegna mögulegra afleiðinga og sterkt myndmál notað til að lýsa aðstæðum. Gerð er grein fyrir þeim breytingum sem hver gráða af hærri meðalhita hefur í för með sér, allt frá einni gráðu uppí sex gráður. Afleiðingarnar eru allsherjar náttúruhamfarir, stórfelldar breytingar á umhverfi og veðurfari og gríðarleg eyðilegging á lífríkinu. Ljóst er að ef svartsýnustu spár verða að veruleika mun mannkynið ekki lifa af.

Verulegar loftslagsbreytingar eru staðreynd. Þær gerast hratt og mannkynið mun fljótt upplifa gjörbreytta tíma og ferðast um ókannað umhverfi. Ennþá er hlýnunin þó ekki stjórnlaus, þ.e. hún hefur ekki náð þeim punkti þegar ekki verður aftur snúið. Þetta er sú áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir. Að snúa þróuninni við áður en sá tímapunktur kemur að ekki verði aftur snúið. Tíminn til að bregðast við er því núna.

 

 

 


Ellefta stundin

The 11th Hour
Markmið heimildarmyndarinnar The 11th Hour, eða Ellefta stundin, er að rannsaka ástand mannkyns undir ógninni af yfirvofandi loftslagsvá. Hvaða hindranir eru í vegi og hvaða leiðir eru mögulegar til úrbóta? Margir af virtustu vísindamönnum, hönnuðum, sagnfræðingum og hugsuðum okkar tíma koma fram í myndinni, meta stöðuna og leggja fram hugmyndir að lausnum. Myndin er framleidd af Leonardo DiCaprio.

Leitað er svara við þeirri spurningu hvers vegna mannkynið virðist vera á góðri leið með að valda óafturkræfu stórslysi á náttúrunni og hvaða leiðir eru færar til að afstýra því slysi. Farið er yfir stutta sögu mannkyns í samhengi við u.þ.b. fjögurra milljarða ára sögu lífs á Jörðinni og skoðað er hvað framtíðin kann að bera í skauti sér, fyrir mannkynið annars vegar og náttúruna hinsvegar.

Myndin er stórmerkilegt, upplýsandi og nauðsynlegt innlegg í þann suðupott sem umræðan um hlýnun Jarðar er. Sjónrænt er hún mjög áhrifarík, þrátt fyrir að hún byggist að miklu leyti upp á einföldum viðtölum. Fjölbreytt og öflugt myndmál er notað til að styðja við frásögnina. Ekki spillir frábær tónlist sem m.a. er úr smiðju Sigur-Rósar.

Frásögnin í myndinni hverfist um umhverfismál og loftslagsvandann og skilur jafnvel eftir fleiri spurningar en hún svarar. Lausnir á vandanum eru ekki einfaldar né auðsóttar en eru samt margar nú þegar uppá borðinu og tiltækar, bíða framkvæmda. Yfirgripsmiklar staðreyndir eru settar fram um ástand náttúrunnar og loftslagsins. Þetta er mikilvæg þekking sem ekki er hægt að líta framhjá undir neinum kringumstæðum. Þekking sem t.d. stjórnmálamenn hafa siðferðislega skyldu til að bregðast við.

Sterk og sannfærandi rök eru færð fyrir helstu breytum og áhrifavöldum loftslagsvandans og niðurstaðan er mjög skýr. Bregðast þarf strax við svo ekki fari illa. Bregðast þarf við með mjög víðtækum ráðum á hnattrænum vettvangi og á flestum sviðum samfélagsins. Nýir orkugjafar þurfa að mótast. Nýtt hagkerfi þarf að þróast. Ný hugsun þarf að fæðast.

Vandamálin sem mannkynið stendur frammi fyrir eru ekki vísindaleg, tæknileg né efnafræðileg heldur eru þau fyrst og fremst menningarleg og hugarfarsleg. Stærstu vandamálin eru hugsunarháttur mannsins og það pólitíska og félagslega skipulag sem þjóðir og samfélög hafa komið sér upp. Skipulag sem að mestu leyti byggist á neyslu, peningum, völdum og efnishyggju. Það eru stærstu hindranirnar, að breyta hugarfari og menningu þjóða og þeim hraða takti sem maðurinn gengur eftir.

Að koma á jafnvægi á milli manns og náttúru er ekki afturför til fortíðar heldur lífsnauðsynleg framför, raunsæ og rökrétt þróun. Þetta nýja náttúrulega jafnvægi þarf ekki að vera hallærislegt eða gamaldags, heldur getur orðið hátæknilegt og nútímalegt. Grænt hagkerfi býður uppá óendanlega nýja möguleika og ekki síst spennandi viðskipta- og vöruhugmyndir.

Neyslu- og græðgissamfélag nútímans er tímaskekkja og getur aldrei orðið annað en tímabundið ástand. Núverandi menning flestra samfélaga leggur eignarhald manna á náttúrunni til grundvallar. Maðurinn ræður og drottnar. Landssvæði og auðlindir ganga kaupum og sölum og nýting er í þágu hagsældar fárra einstaklinga á kostnað náttúrunnar. Er þetta rétt hugsun? Getur þetta gengið til framtíðar? Varla. Ætti mannkynið ekki frekar að vera í þjónustu náttúrunnar, með auðlindir og land að láni, ef ekki frá framtíðarkynslóðum, þá að láni frá náttúrunni sjálfri?

Maðurinn er óaðskiljanlegur hluti náttúrunnar og geymir í raun frumeindir allt frá upphafi lífs í líkama sínum. Í genum mannsins leynist saga lífsins. Mannkynssagan. En staðreyndin er samt sú að 99,9999% af öllum tegundum lífs á Jörðinni frá upphafi eru útdauðar. Það eru því ekki miklar líkur á því að mannkynið lifi af og sérstaklega þar sem mannkynið er ofarlega í fæðukeðjunni er það í áhættuhópi; útrýmingarhættu. Í því samhengi er útlitið dauft. En okkar kynslóð getur samt reynt að tefja þetta ferli, hlustað á vísindin og tekið mark á neyðarkalli náttúrunnar.

Maðurinn þarf enn á ný að enduruppgötva tilvist sína og endurhanna samspil sitt við náttúruna. Skapa þarf vistvænt, sjálbært hagkerfi sem byggir ekki á jarðefnaeldsneytum sem orkugjöfum heldur endurnýjanlegum orkugjöfum. Sólin er helsti lykillinn að nýjum orkugjöfum og reyndar að öllu lífi á Jörðinni í gegnum ljóstillífun. Margar nýjar lausnir snúast um beislun á kröftum sólarljóssins en nýting vatnsorku er líka það sem horft er til í auknum mæli og þar geta Íslendingar lagt lóð á vogarskálarnar.

Nýja vistvæna hagkerfið þarf að snúa við dauðadæmdri þróun einnar tegundar svo hægt verði að hverfa frá undirbúningi jarðarfarar mannsins. Þetta snýst því ekki um að bjarga Jörðinni heldur mannkyninu og ef maðurinn getur verið upphaf vandans hlýtur hann líka að geta verið uppspretta lausnarinnar.

 

Óþægilegur sannleikur

An Inconvenient Truth

Heimildarmyndin An Inconvenient Truth, Óþægilegur sannleikur eftir Al Gore, sem einu sinni var næsti forseti Bandaríkjanna, eins og hann kynnir sjálfan sig í myndinni, er eitt mikilvægasta framlagið í umræðunni um hlýnun Jarðar.

Þegar myndin var frumsýnd má segja að umræðan hafi stokkið uppá stærra svið og inní almenna umræðu, sérstaklega í Bandaríkjunum. Al Gore byggir með myndinni mikilvæga brú á milli vísindanna, stjórnmálamanna og almennings og myndin verður því öflugt ákall um viðbrögð umheimsins við loftslagsvánni.

Myndin hlaut Óskarsverðlaun sem heimildarmynd ársins 2007 og er byggð upp í kringum vel sviðssettan og myndrænan fyrirlestur sem Gore hefur flutt víða um heim síðustu árin. Þó að myndin sé aðeins tveggja ára gömul er mikið af þeirri myrku framtíðarsýn sem þar er sett fram nú þegar orðin að veruleika. Nánast allt sem þar birtist hefur verið staðfest með vísindalegum rannsóknum og skýrslum, nú síðast risaskýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Myndin lýsir líka vel mannfjöldaþróuninni sem orðið hefur, sérstaklega eftir seinni heimstyrjöld, en á þessum rúmlega 60 árum hefur mannfjöldi aukist úr 2 milljörðum í rúmlega 6 milljarða og um miðja öldina er líklegt að mannkynið telji um 9 milljarða manna. Þetta tengist beint aukningu koltvíoxíðs í andrúmsloftinu, gríðarlegri tæknibyltingu síðustu áratuga og þeim breytingum á loftslaginu sem í daglegu tali eru nefnd gróðurhúsaáhrif.

Framsetning upplýsinga í myndinni er með þeim hætti að mjög auðvelt er að skilja flóknar vísindalegar niðurstöður og rannsóknir. Myndin ætti því að opna augu margra fyrir þeim vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga sem orðið hafa af mannavöldum.

Í myndinni lýsir Gore þeirri skoðun sinni að framtíð Jarðarinnar og samfélag mannanna sé í húfi ef ekkert verður aðhafst og færir fyrir því sterk rök. Hann segir það siðferðislega skyldu manna, ekki síst stjórnmálamanna, að bregðast við núna og snúa við blaðinu. Hann lýsir því hvernig hann fékk í raun að skyggnast inní framtíðina sem háskólanemi, en kennari hans, Dr. Roger Revelle, var frumherji í mælingum á koltvísýringi í andrúmsloftinu og skynjaði hættuna framundan.

Þrautsegja Gore hefur síðan verið einstök, en í raun byrjaði hann að benda á vandamálið fyrir tugum ára síðan, m.a. fyrir þingnefndum Bandaríkjaþings, en talaði jafnan fyrir daufum eyrum. Þáverandi forseti Bandaríkjanna, George Bush eldri, kallaði hann í ræðum á opinberum vettvangi geggjaðan villitrúarmann.

Al Gore birtist í myndinni sem einarður og sannur baráttumaður fyrir bættum heimi og sýnir hlið á sér sem er athyglisverð, sérstaklega í ljósi þess að hann er í raun "hreinræktaður" bandarískur stjórnmálamaður, en faðir hans var öldungadeildarþingmaður í Washington. Persónuleg reynsla hans vegna bílslyss sonar vakti hann til vitundar um hvað skiptir virkilega máli í lífinu.

Það sem er líka áhugavert að velta fyrir sér, í ljósi þess að Al Gore "tapaði" forsetakjöri í Bandaríkjunum árið 2000, hvað hefði gerst ef hann hefði orðið forseti. Líklega hefði hann komist eitthvað áfram með baráttu sína fyrir bættri umhverfisvitund innan stjórnarinnar. En er víst að hann hefði farið þá leið sem hann fer hér? Hefði stjórnmálaumhverfið í Washington leyft honum það? Hefði málið kannski dagað uppi enn einu sinni? Var það kannski lán í óláni að Gore náði ekki kjöri svo boðskapurinn kæmi fram með þessum hætti? Hann segir að eftir kosningaklúðrið hafi hann vaknað til vitundar, byrjað uppá nýtt og náð að skynja hið stóra samhengi hlutanna.

En af hverju eru upplýsingar þær sem fram koma í myndinni kallaðar óþægilegur sannleikur? Hvers vegna eru þær ekki taldar trúverðugar af stjórnvöldum í Bandaríkjunum? Hvers vegna bregðast stjórnvöld ekki við vánni strax? Hvers vegna hefur upplýsingum um loftslagsbreytingar ítrekað verið breytt af launuðum vísindamönnum á vegum Bandaríkjastjórnar og sannleikanum hagrætt? Hvaða hagsmuni hafa stjórnvöld af því að réttar upplýsingar komi ekki fram?

Al Gore bendir á mörg dæmi þess að olíuiðnaðurinn hafi með skipulegum hætti þaggað niður í þeim sem vildu leggja fram þessar upplýsingar og þrýsihópar á vegum olíufyrirtækja ítrekað grafið undan umræðunni með öllum tiltækum ráðum, m.a. mútugreiðslum. Hann bendir í þessu sambandi á að "það er erfitt að fá mann til að skilja eitthvað, ef laun hans eru háð því að hann skilji það ekki."

Í lok myndarinnar fjallar Gore um leiðir til úrbóta og hann lýsir því að í raun eigum við öll nauðsynleg tæki og þekkjum þær hugmyndir sem við þurfum til að snúa þróuninni við og takast á við vandamálið. Hann segir: "We have everything we need but, say perhaps, political will. But do you know what? In America, political will is a renewable resource." Við höfum allt sem við þurfum nema, kannski, pólitískan vilja. En vitiði hvað? Í Bandaríkjunum er pólitískur vilji endurnýjanlegt hráefni.

Ljóst er að mikil barátta er framundan til að koma í veg fyrir óafturkræfar breytingar á lífríki og vistkerfi Jarðarinnar. Hvað stjórnmálin í Bandaríkjunum varða þá hlýtur það að vekja bjartsýni að bæði Hillary Clinton og Barak Obama eru vel meðvituð um vandamálið, meira að segja John McCain er á margan hátt umhverfisvænn kostur, þó hann sé afleitur á öðrum sviðum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband