Færsluflokkur: Menning og listir
Laugardagur, 10. janúar 2009
Skapandi samfélag
Varúð! Áramótahugvekja þessi fjallar ekki um kreppu, bankahrun, peningabruna né Evrópusamruna. Nema þá að litlu leyti. Hún fjallar um annan kraft sem kraumar í samfélaginu; sköpunarkraftinn. Vanmetið hreyfiafl og umhverfisvænan orkugjafa sem þrífst án yfirbyggingar. Hingað til hefur samfélagið sparað sköpunarkraftinn, en á því er engin þörf, af honum er nóg til. Í upphafi árs og í breyttu umhverfi er hollt að horfa til frumlegra lausna og öðruvísi hugmynda, virkja hugarorkuna. Að hvaða sviðum samfélagsins þarf nú að beina kastljósinu?
Menntun er lykillinn
Margir meta stöðuna þannig að nú sé nauðsynlegt að styrkja menntakerfið, auka áherslu á nýsköpun og hinar svokölluðu skapandi atvinnugreinar, Creative Industries. Þetta er rétt mat. Undirstöður samfélagsins verða aldrei sterkari en þroski og þekkingarstig þjóðarinnar. Meiri menntun er lykillinn og ásamt skynsamlegri nýtingu auðlinda, náttúruvernd og fjölbreyttu hagkerfi getur landið risið á nýjan leik.
Kallað er á lausnir og aðgerðir hafa þegar verið kynntar sem eiga að stuðla að nýsköpun. Þessar lausnir eru hinsvegar að mestu tengdar atvinnuvegum sem þegar hafa nokkuð trygga fótfestu. Beinast helst að þeim hópum sem eru að stíga útúr háskólum og hafa tekið ákvörðun um sinn starfsvettvang.
Okkar góði iðnaðarráðherra hefur verið óstöðvandi í því að setja á stofn sjóði og veitur, safna í uppistöðulón, virkja sprota og veita frumkvöðlum tækifæri. Og hefur hlotið góðan stuðning annarra ráðherra. Þessi verkefni mynda brú frá vernduðu umhverfi háskólanna yfir á vinnumarkaðinn og skapa fjölda atvinnutækifæra. Ríkisstjórnin hefur þannig reynt að bjóða uppá nýjar leiðir til verðmætasköpunar við gjörbreyttar aðstæður þar sem áhættufjármagnið er víðsfjærri. Sérstakar heimildir eru nú fyrir hendi sem eiga að draga úr atvinnuleysi og brotthvarfi af vinnumarkaði. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Spurningin er hinsvegar hvort þetta muni skila árangri til lengri tíma litið?
Varanlegar lausnir
Hvernig getum við leyst sköpunarkraftana úr læðingi svo þeir nýtist samfélaginu til langframa en verði ekki aðeins bráðalausn í neyð? Hvernig verður orkan beisluð svo hún skili sér áfram útí hagkerfið sem raunverulegt fjármagn? Verði varanleg lausn. Ef rétt er á málum haldið, getur sá auður sem þarna leynist verið nægilegur til þess að renna fleiri stoðum undir efnahaginn og styrkja hagkerfið verulega. Breyttur veruleiki er óumflýjanlegur en sá veruleiki þarf að byggjast á sönnum verðmætum og fjölbreyttum lausnum. Sýndarheimur sá sem krónubóla nýfrjálshyggjunnar var, er algjörlega verðlaus og víti til að varast.
En hvernig förum við að - hvaða möuleikar eru fyrir hendi? Þurfum við ekki að hugsa út fyrir rammann og vera tilbúin að umbylta núverandi kerfum? Ein leiðin er klárlega í gegnum menntakerfið. Þær breytingar sem gerðar voru á lögum um skólastarf á síðasta þingi gefa góð fyrirheit og þónokkra möguleika. En er þar hugsað nægilega langt útfyrir rammann? Eða er verið að festa eldri hugsun í sessi? Er kerfið nægilega opið fyrir nýjungum? Er svigrúm fyrir skapandi hugsun nemenda og kennara? Er listgreinum veitt nægilegt rými?
Listfræðsla í skólunum
Hvar á að byrja - eigum við að stefna að fleiri skapandi stundum og listfræðslu í leikskóla? Því ekki það? Listnæmi ætti að þroska skipulega um leið og skólagangan hefst og í grunnskóla gæti kennslan alfarið snúist um listsköpun og lifandi hugmyndavinnu nokkrar vikur á hverjum vetri.
Mikill sköpunarkraftur leynist líka í grunnskólanum. Þeir sem hafa upplifað hæfileikakeppnina Skrekk, sem Íþrótta- og tómstundarráð Reykjavíkur stendur fyrir árlega í samstarfi við grunnskóla borgarinnar, vita hversu mikil skapandi orka leysist úr læðingi á þeim vettvangi. Þarna stíga listamenn framtíðarinnar fyrst á svið. Flestar skapandi stundir eða listnám á grunnskólastigi eru ennþá hluti af frístundatíma nemenda. Drífum nú í því að sameina skólastarf og skipulagðar frístundir í heilstæðan skóladag. Þannig gæti listfræðslan orðið stærri þáttur í skólastarfinu og skapandi nemendur valið sér listgrein við hæfi, strax á grunnskólaaldri.
Skapandi sumarstörf Hins hússins eru annað verkefni Reykjavíkurborgar sem ætti að starfrækja árið um kring í samstarfi við skólana, elstu bekki grunnskóla og framhaldsskólana. Þarna er kominn vísir að listaskóla með fjölda námsbrauta. Margir starfandi listamenn hafa þar stigið sín fyrstu skref og fengið smjörþefinn af listrænu starfi. Verkefnið hófst fyrir fimmtán árum sem sumarleikhús, atvinnubótavinna eða nokkurs konar listræn bæjarvinna. Í stað þess að reita arfa, sópa götur eða gróðursetja tré, fengu nokkrir tugir ungmenna að starfa við sitt áhugasvið, leiklist, yfir sumarmánuðina. Síðan hafa fleiri listgreinar bæst við og verkefnið útskrifað hundruð upprennandi listamanna. Eftirspurn eftir því að fá að eyða sumrinu á þennan hátt er mikil.
Framhaldsskólastigið
Beinum kastljósinu að framhaldsskólastiginu þar sem fjölmargir einstaklingar taka ákvarðanir um starfsvettvang framtíðarinnar. Menntaskólar landsins eru orkustöðvar, hugmyndaveitur þar sem mótun lífsgilda og hugsunar á sér stað. Að grunnskóla loknum mæta nemendur færir í flestan sjó og opnir fyrir nýjum áskorunum. Hver og einn er þar á eigin forsendum, gömlu vinahóparnir oft fjærri góðu gamni og alvara lífsins færist nær. Þá gildir að úrval námsbrauta sé fjölbreytt.
Og vissulega er úrvalið töluvert og stöðugt vaxandi. En er nægilega mikið úrval af skapandi námsbrautum? Er listgreinum gert nægilega hátt undir höfði? Tónlist, leiklist, danslist, myndlist, ritlist, kvikmyndagerð og hönnun. Nokkrir sjálfstæðir frístundaskólar eru starfandi sem sinna listgreinum. Þar fá nemendur einingar sem metnar eru til stúdentsprófs. Hér vantar þó sárlega opinberan listaskóla, skóla skapandi greina, á framhaldsskólastigi.
Dæmi eru auk þess um sjálfsprottið skapandi félagsstarf nemenda sem í mörgum tilfellum er framúrskarandi og gæti hæglega verið formlegur hluti af skólastarfinu. Í sumum skólanna fá nemendur meira að segja einingar fyrir þátttöku í slíku félagsstarfi. Því ekki að stíga skrefið til fulls og þróa þetta starf á vettvangi menntamálaráðuneytis?
Sem dæmi um merkilegt starf nemendafélaganna á þessu sviði má nefna að elsta leikfélag landsins Á herranótt starfar í Menntaskólanum í Reykjavík, Leikfélag og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð eru löngu landsþekkt og sama má segja um árleg Nemendamót Verzlunarskólans. Við þessi verkefni starfar fjöldi fagfólks sem leiðbeinendur. Einnig mætti nefna spurningakeppnina Gettu betur, Mælsku- og rökræðukeppni og Söngkeppni framhaldsskólanna. Fjöldi landsþekktra hljómsveita hefur auk þess sprottið uppúr starfi nemenda og orðið að framtíðarstarfsvettvangi þeirra.
Vissulega þarf á sama tíma að huga að sameiginlegri mótun og sterkri grunnmenntun en mundi fjölbreytileikinn ekki verða til þess að brottfall minnkaði? Sumir finna ekki sína köllun í menntaskóla og flosna uppúr námi. Ekki endilega vegna þess að þeir eru verri námsmenn en aðrir, heldur vegna þess að þeir finna ekki nám við hæfi. Með fjölbreytni á fyrri stigum skólastarfs virkjum við frumlega snillinga og hópa frumkvöðla sem væru tilbúnir á vinnumarkaðinn að framhaldsskóla loknum. Aðrir mundu skila sér í enn sérhæfðara háskólanám og yrðu þannig verðmæt auðlind fyrir samfélagið allt.
Nýjir menntaskólar
Í miðbæ Reykjavíkur og næsta nágrenni væri hægt að stofna nokkra sérhæfða menntaskóla. Þeir þyrftu ekki að vera fyrirferðamiklir, gætu að mestu fengið inni í húsnæði sem nú þegar er til staðar. Nóg er til af auðu húsnæði. Kannski frá tuttugu til tvöhundruð nemendur í hverjum. Lítil yfirbygging en sérstaða hvers og eins þeim mun meiri og dregin fram í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir á sama sviði. Ekki er hér verið að leggja til einkavæðingu skólanna, en heilbrigt samstarf við atvinnulífið þarf ekki að vera alslæmt. Starfsþjálfun og beintenging við fagið yrði þannig snar þáttur í skólastarfinu. Svo gætu þetta allt eins verið sérdeildir í þeim menntaskólum sem nú þegar starfa. Sumir þeirra starfrækja vísa að skapandi deildum. Aðeins spurning um form.
Förum á hugarflug; Leiklistarskóli fyrir aftan Þjóðleikhúsið, í gamla Landssímahúsinu við Sölvhólsgötu þegar Listaháskólinn flytur á Laugaveg, danslistarskóli í gamla Morgunblaðshúsinu við Kringluna þegar HR flytur í Vatnsmýrina - rétt við Borgarleikhúsið þar sem Íslenski dansflokkurinn starfar, popptónlistarskóli á Höfðatorgi í samstarfi við Stúdíó Sýrland, nútímalistaskóli í Hafnarhúsinu í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur, myndlistarskóli í viðbyggingu við Kjarvalsstaði, rokktónlistarskóli við Hlemm plús, lúðrasveitarskóli í Hljómskálanum, fatahönnunarskóli við hliðina á Gallerí 17 á Laugavegi, jafnréttisskóli á Hallveigarstöðum og rithöfundaskóli, skóli skapandi skrifa, í Mosfellsdalnum við Gljúfrastein.
Opnum hugann enn frekar; Tölvuleikjaskóli í gamla Slysavarnarhúsinu á Grandagarði við hliðina á CCP, kvikmyndaskóli í gamla Héðinshúsinu, þar sem rjóminn af íslenskum kvikmyndum hefur verið myndaður, brúðugerðarskóli í Latabæ, íþróttakennaraskóli í Laugardal, þjálfaraskóli í kjarnanum við KR-völlinn, handboltaskóli við Valsvöllinn, keiluskóli í Öskjuhlíð, matreiðsluskóli í Perlunni, laxveiðiskóli í Elliðarárdal og verðbréfaskóli í gamla Landsbankanum (já eigum við ekki að kenna strákunum að höndla með verðbréf áður en bankarnir verða aftur einkavæddir).
Því ekki að fara svo hringinn og draga fram sérkenni hvers sveitarfélags fyrir sig? Sérhvert bæjarfélag gæti undirstrikað þá þekkingu sem til staðar er og miðlað reynslu; Sjávarútvegsskóli á Ísafirði, galdraskóli á ströndum, fornleifaskóli á Hólum, garðyrkjuskóli á Flúðum, ferðaþjónustuskóli á Arnarstapa, blómaræktunarskóli í Hveragerði, humarvinnsluskóli á Höfn, bæjarhátíðaskóli á Dalvík, jarðvarmaskóli í Krýsuvík, eldfjallaskóli í Vestmannaeyjum og flugskóli á Miðnesheiði. Og þannig mætti halda áfram. Margir þessa skóla gætu auk þess vakið áhuga erlendis og þannig nýst alþjóðasamfélaginu. Evrópusambandið mundi vitanlega styrkja slíkar menntastofnanir og námsmenn víða að mundu sækja hingað sérhæfða menntun og auðga samfélagið um leið.
Enginn framhjá vikt
Með nokkrum pennastrikum yrði þannig stórlega dregið úr brottkasti úr framhaldsskólum landsins og nemendur viktaðir á eigin forsendum. Enginn framhjá vikt. Þannig yrði rétt verðmæti hvers og eins reiknað og honum svo búið það starfsumhverfi sem hentar óháð kynferði eða kynhneigð, hæð eða þyngd, bróðerni eða þjóðerni.
Flest stórfyrirtæki landsins, já og heimsins, eru saga frumkvöðla, einstaklinga eða skapandi stjórnenda, sem vildu breyta umhverfi sínu og gripu tækifæri sem buðust. Auðvitað hefur markaðurinn síðan tekið vel á móti bestu hugmyndunum og gert þær að stórvirkum alþjóðlegum peningamaskínum. Ekkert segir að slíkt geti ekki gerst í meira mæli hérlendis.
Því getum við ekki átt okkar Kýsildal við Mývatn þar sem tölvusérfræðingar heimsins hanna nýjustu forritin. Er næsti Andy Warhol eða Bill Gates kannski búsettur á Íslandi? Hvað með finnska Nokia-símafyrirtækið? Þegar Nokia var búið að metta finnska markaðinn með gúmmistígvélum, dekkjum og sjónvarpstækjum fór það að hugsa hnattrænt og hóf framleiðslu á farsímum. Gæti þetta gerst hér? Er næsta nafnið í farsímaheiminum 66°North eða Cintamani? Verða það kannski fartölvur eða ferðasjónvörp? Gæti næsti tölvurisi komið frá Íslandi? Það þarf ekki nema einn frumkvöðul eins og Steve Jobs stofnanda Apple til að koma á fót alþjóðlegu stórveldi á sviði hátækni. Hvað með Google-gaurana og Facebook-fýrinn, gátu þeir ekki allt eins fæðst í blokk í Hlíðunum?
Og ekki voru það sænsku kjötbollurnar sem gerðu Ingvar Kamprad ríkan, svo ágætar sem þær eru. Nei það var hugmyndaflugið hans. Og ef hann hefði búið á Íslandi, farið einn góðan veðurdag í Miklagarð sáluga til að kaupa sér bókahillur og svo ekki komið þeim í bílinn sinn, þá hefði hugmyndin að Ikea húsgagnaversluninni allt eins getað kviknað við Holtagarðana. Hvað mundi sérhæfður frumkvöðlaskóli að sænskri fyrirmynd framkalla margar framúrskarandi hugmyndir með tilheyrandi verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið? Skapandi tækniskóli gæti líka fætt af sér alþjóðlegan hátækniiðnað og framleiðslu. Því ekki að framleiða sólarrafhlöður eða vistvænar ljósaperur hérlendis?
Bítlarnir frá Seyðisfirði
Gátu Bítlarnir ekki allt eins æft lögin sín í fjárhúsi á Seyðisfirði eins og í kirkju í Liverpool? Útflutningstekjur Breta af tónlist á sjöunda áratug síðustu aldar voru meiri en af öllum öðrum útflutningsgreinum. Allt sem hefði þurft, fyrir utan segulbandsstæki, eru tveir gítarar, gamalt píanó og kannski hálft trommusett. Já eða eins og einn tónlistarskóli á framhaldsskólastigi.
Líklega má segja að eitt öfgafyllsta dæmið um heila borg byggða í kringum skapandi atvinnugreinar, sé bandaríska borgin Las Vegas sem reist var á sandi útí eyðimörkinni fyrir vafasamt fjármagn (nóg hefur líka verið af pappírspeningum hér síðustu ár). Þar er nú milljónaborg sem grundvallast á ferðaþjónustu, verslun, tónlist, leikhúsum, skemmtistöðum, arkitektúr, hönnun (ekki alltaf smekklegri reyndar) og auðvitað spilavítum.
Og í Las Vegas hefur eitt flottasta menningarfyrirtækið á heimsvísu, hinn magnaði Cirque Du Soleil, kanadíski Sólarsirkusinn, hreiðrað um sig. Fleiri hundruð starfsmanna setja þar upp hverja glæsisýninguna á fætur annarri sem hver um sig kostar marga milljarða en skilar framleiðendum samt gríðarmiklum tekjum. Svo ekki sé talað um tekjur borgarinnar og afleidd störf. Cirque Du Soleil sem einnig starfrækir nú alþjóðlegan listaskóla, er með höfuðstöðvar í Montreal þar sem nýjar sýningar eru þróaðar. Þaðan ferðast fleiri þúsund listamenn og starfsmenn hans frá um 40 löndum með fjölmargar sýningar árlega. Fjarlægðin frá Kanada til heimsborganna þar sem sýningar Cirque hafa blómstrað hefur aldrei stöðvað vöxt fyrirtækisins. Yfir 80 milljón manna hafa séð sýningar sirkusins. Eigum við að ræða það eitthvað hvað slík verðmætasköpun mundi gera fyrir þjóðarbúið íslenska!
Og hvernig hófst þetta stórkostlega ævintýri? Jú, fyrir tuttugu og fimm árum, í atvinnubótavinnu nokkurra götulistamanna í Quebec. Með aðstoð stjórnvalda í Kanada, sem m.a. útveguðu húsnæði til starfseminnar og greiddu atvinnulausum fyrir listræna bæjarvinnu, náði verkefnið fótfestu. Götulistamennirnir hafa þannig endurgoldið samfélagi sínu margfalt, bæði í fjárhagslegum, en ekki síður menningarlegum verðmætum.
Spilað á Sprengisandi
Því gætum við ekki átt okkar Glas Vegas á Sprengisandi, herjað á norræna ferðamannamarkaðinn og boðið hingað skemmtanaglöðum Skandinövum. Þeir mundu gista á íshótelum og í hraunhellum, farið í glúfraklifur, skíðagöngur og vélsleðaferðir og skautað á ísilögðum miðlunarlónum. Þar mundu svo stórsýningar leikhópsins Vesturports laða að menningartúrista, íslenskar kvikmyndir sýndar í snjóhúsum og hljómsveitin Sigur-Rós halda tónleika í sínu náttúrulega umhverfi.
Eða hvað, er hér of langt gengið? Eflaust mundu spilavíti undir jökli ekki falla að viðkvæmri ímynd þjóðarinnar og líklega er þetta ein þeirra hugmynda sem flokkast mundu undir seinni tíma pælingu og enda ofaní skúffu þangað til næsta bankabóla birtist.
Það er auðvitað ljóst að ekki allar hugmyndir verða að veruleika, heldur mun aðeins hluti þeirra verða að arðbærum fyrirtækjum. Áhættan er því alltaf töluverð í upphafi og grunnfjárfestingin nokkur. Það jákvæða er að hvert starf við skapandi greinar kostar aðeins brotabrot af því sem það kostar í stóriðju og fjárfestingin er beint í mannauði en ekki steinsteypu. Og fjárfesting í mannauði er nákvæmlega það sem samfélagið þarf í dag.
Fordæmin eru líka sannarlega til staðar, toppfyrirtæki á borð við Össur og Marel, sem í dag eru arðbær framleiðslufyrirtæki, byrjuðu í bílskúrum og byggja starfsemi sína á skapandi greinum, þá einkum vöru- og iðnhönnun en innan þeirra hafa ávallt starfað margir hönnuðir.
Borgarleikhúsið, Íslenska Óperan, Sinfóníuhljómsveitin, Dansflokkurinn, Stöð 2, Latibær, Iceland Airwaves og tölvuleikjarisinn CCP eru síðan góð dæmi um verkefni sem byrjuðu smátt en hafa vaxið í öflug fyrirtæki á menningarsviðinu, skapa störf og skila verðmætum til samfélagsins. Og ekki má gleyma fjölda auglýsingastofa, ljósmyndara, arkitekta, kvikmyndaframleiðenda og sjálfstæðra leikhúsa, allt skapandi atvinnufyrirtæki, mörg hver arðbær.
Skapandi stórborgir
Fleiri dæmi um heilu borgirnar sem byggjast að miklu leyti upp á skapandi iðnaði eru t.d. Mílanó sem þekkt er fyrir hverskonar hönnun, Hollywood þar sem kvikmyndagerð ræður ríkjum, París er mekka tískunnar og hvar væri Vínarborg án tónlistar. Við Broadway í New York og á West End í London hefur stórvirkur leiklistariðnaður hreiðrað um sig.
Miðborg Lundúna er raunar dæmi um borg sem hefur umbreyst á nokkrum áratugum í skapandi iðnaðarsvæði þar sem listgreinar þrífast og hafa tekið við af hefðbundnum framleiðslugreinum. Þar fer fram gríðarmikil hönnun, tónlistar- og kvikmyndaframleiðsla sem skilar fjölmörgum afleiddum störfum. Sama má segja um New York en báðar þessar borgir eiga öflugt skólakerfi sem styður þennan iðnað.
Fjölmargar borgir um allan heim eru að fylgja í kjölfarið sem alhliða lífsgæðaborgir með áherslu á grænar skapandi atvinnugreinar. Flestar þeirra reka skapandi menningarpólitík og hafa sett gríðarmikið fjármagn í lista- og menningarhátíðir sem bera gjarnan nafn borganna og eru stolt borgaryfirvalda.
Evrópusambandið hefur um árabil staðið fyrir verkefninu Menningarborg Evrópu, European Capital of Culture, þar sem valdar borgir fá sérstakt kastljós sambandsins. Margar evrópskar borgir hafa blómstrað í kjölfarið og draga að sér bæði ferðamenn og greiðendur útsvars.
Arkitektúr er svo hliðarafurð af umbreytingum borganna og eitt megin aðdráttarafl ferðamanna. Stórvirkur byggingariðnaður fylgir í kjölfarið bæði vegna nýbygginga og samgöngumannvirkja en ekki síður vegna verndunar gamalla og sögufrægra húsa og umhverfis. Jafnvægi í verndun og uppbyggingu er oft höfuðverkefni borgaryfirvalda og hefur víða tekist svo vel til að engin raunveruleg framleiðsla fer fram í miðborgunum, allt byggist þar á ferðamannaiðnaði; veitingastöðum, leikhúsum, tónlist og listasöfnum.
Ferðamannaiðnaðurinn er þannig annað afsprengi umbreytinga og hvers konar þjónusta blómstrar í kringum þessa kjarna með beinum jákvæðum áhrifum á hagkerfi borganna. Forsenda umbreytinga sem þessa er líka viðráðanlegt veður, stöðugleiki og friður en ekki síður hátt menntunarstig samfélagsins. Eru jafnvel samskonar möguleikar í Reykjavík, þá vitanlega á smærri skala og allt miðað við hina margfrægu höfðatölu?
Spennandi menning
En hvað kemur útúr skapandi skólakerfi? Í byrjun er auðvelt að ímynda sér þann mátt sem leysist úr læðingi þegar allir þessir skólar hafa tekið til starfa og orkan og sköpunarkrafturinn hríslast um samfélagið. Eftir fimm til tíu ár gætum við síðan séð hundruð, jafnvel þúsundir sprotafyrirtækja á menningarsviðinu og listastofnanir spretta upp eins og gorkúlur um allt samfélagið.
Skapandi atvinnugreinar eru grænar, sjálfbærar og starfsemin er í fínu jafnvægi við náttúruna. Þær eru mikilvægur hluti af grænu hagkerfi framtíðarinnar þar sem öll afleidd störf eru vistvæn. Ekki er heldur gengið á orkuauðlindir Jarðarinnar, ja nema þá hugarorkuna og af henni er nóg til.
En hvað, umfram annað, sameinar skapandi atvinnuvegi? Jú, flestar afurðir þeirra, vörur, krefjast þess af neytandanum að hann sé hluti af sköpuninni. Hluti af afurðinni og upplifunni við notkun vörunnar. Varan sjálf er ekki lokaútgáfa heldur er framlag neytandans og í sumum tilfellum einnig flytjandans, það sem fullkomnar framleiðsluna. Tónverk án hlustenda og/eða flytjenda, ritverk án lesenda og leikverk án áhorfenda og/eða leikenda, túlkendanna, eru þannig ekki endanlegar niðurstöður, heldur aðeins skissur.
Og hvar gæti þetta samfélag helst blómstrað? Hvar yrði þungamiðjan - græni kjarninn? Í því sambandi er ekki úr vegi að horfa til Vatnsmýrarinnar og gjörbreyttu framtíðarskipulagi þess svæðis. Þar verður nóg pláss fyrir fjölda skapandi orkustöðva sem starfa mundu með háskólum og fyrirtækjum á svæðinu. Öflugur þekkingarkjarni gæti þannig risið í Vatnsmýrinni í Reykjavík, iðandi af fjölbreyttu mannlífi. Margir mundu líka vilja búa í návígi við þennan suðupott, taka þátt í gerjuninni. Í slíku umhverfi verður menningin spennandi.
Menning og listir | Breytt 17.1.2009 kl. 02:28 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 19. apríl 2008
Ellefta stundin
Leitað er svara við þeirri spurningu hvers vegna mannkynið virðist vera á góðri leið með að valda óafturkræfu stórslysi á náttúrunni og hvaða leiðir eru færar til að afstýra því slysi. Farið er yfir stutta sögu mannkyns í samhengi við u.þ.b. fjögurra milljarða ára sögu lífs á Jörðinni og skoðað er hvað framtíðin kann að bera í skauti sér, fyrir mannkynið annars vegar og náttúruna hinsvegar.
Myndin er stórmerkilegt, upplýsandi og nauðsynlegt innlegg í þann suðupott sem umræðan um hlýnun Jarðar er. Sjónrænt er hún mjög áhrifarík, þrátt fyrir að hún byggist að miklu leyti upp á einföldum viðtölum. Fjölbreytt og öflugt myndmál er notað til að styðja við frásögnina. Ekki spillir frábær tónlist sem m.a. er úr smiðju Sigur-Rósar.
Frásögnin í myndinni hverfist um umhverfismál og loftslagsvandann og skilur jafnvel eftir fleiri spurningar en hún svarar. Lausnir á vandanum eru ekki einfaldar né auðsóttar en eru samt margar nú þegar uppá borðinu og tiltækar, bíða framkvæmda. Yfirgripsmiklar staðreyndir eru settar fram um ástand náttúrunnar og loftslagsins. Þetta er mikilvæg þekking sem ekki er hægt að líta framhjá undir neinum kringumstæðum. Þekking sem t.d. stjórnmálamenn hafa siðferðislega skyldu til að bregðast við.
Sterk og sannfærandi rök eru færð fyrir helstu breytum og áhrifavöldum loftslagsvandans og niðurstaðan er mjög skýr. Bregðast þarf strax við svo ekki fari illa. Bregðast þarf við með mjög víðtækum ráðum á hnattrænum vettvangi og á flestum sviðum samfélagsins. Nýir orkugjafar þurfa að mótast. Nýtt hagkerfi þarf að þróast. Ný hugsun þarf að fæðast.
Vandamálin sem mannkynið stendur frammi fyrir eru ekki vísindaleg, tæknileg né efnafræðileg heldur eru þau fyrst og fremst menningarleg og hugarfarsleg. Stærstu vandamálin eru hugsunarháttur mannsins og það pólitíska og félagslega skipulag sem þjóðir og samfélög hafa komið sér upp. Skipulag sem að mestu leyti byggist á neyslu, peningum, völdum og efnishyggju. Það eru stærstu hindranirnar, að breyta hugarfari og menningu þjóða og þeim hraða takti sem maðurinn gengur eftir.
Að koma á jafnvægi á milli manns og náttúru er ekki afturför til fortíðar heldur lífsnauðsynleg framför, raunsæ og rökrétt þróun. Þetta nýja náttúrulega jafnvægi þarf ekki að vera hallærislegt eða gamaldags, heldur getur orðið hátæknilegt og nútímalegt. Grænt hagkerfi býður uppá óendanlega nýja möguleika og ekki síst spennandi viðskipta- og vöruhugmyndir.
Neyslu- og græðgissamfélag nútímans er tímaskekkja og getur aldrei orðið annað en tímabundið ástand. Núverandi menning flestra samfélaga leggur eignarhald manna á náttúrunni til grundvallar. Maðurinn ræður og drottnar. Landssvæði og auðlindir ganga kaupum og sölum og nýting er í þágu hagsældar fárra einstaklinga á kostnað náttúrunnar. Er þetta rétt hugsun? Getur þetta gengið til framtíðar? Varla. Ætti mannkynið ekki frekar að vera í þjónustu náttúrunnar, með auðlindir og land að láni, ef ekki frá framtíðarkynslóðum, þá að láni frá náttúrunni sjálfri?
Maðurinn er óaðskiljanlegur hluti náttúrunnar og geymir í raun frumeindir allt frá upphafi lífs í líkama sínum. Í genum mannsins leynist saga lífsins. Mannkynssagan. En staðreyndin er samt sú að 99,9999% af öllum tegundum lífs á Jörðinni frá upphafi eru útdauðar. Það eru því ekki miklar líkur á því að mannkynið lifi af og sérstaklega þar sem mannkynið er ofarlega í fæðukeðjunni er það í áhættuhópi; útrýmingarhættu. Í því samhengi er útlitið dauft. En okkar kynslóð getur samt reynt að tefja þetta ferli, hlustað á vísindin og tekið mark á neyðarkalli náttúrunnar.
Maðurinn þarf enn á ný að enduruppgötva tilvist sína og endurhanna samspil sitt við náttúruna. Skapa þarf vistvænt, sjálbært hagkerfi sem byggir ekki á jarðefnaeldsneytum sem orkugjöfum heldur endurnýjanlegum orkugjöfum. Sólin er helsti lykillinn að nýjum orkugjöfum og reyndar að öllu lífi á Jörðinni í gegnum ljóstillífun. Margar nýjar lausnir snúast um beislun á kröftum sólarljóssins en nýting vatnsorku er líka það sem horft er til í auknum mæli og þar geta Íslendingar lagt lóð á vogarskálarnar.
Nýja vistvæna hagkerfið þarf að snúa við dauðadæmdri þróun einnar tegundar svo hægt verði að hverfa frá undirbúningi jarðarfarar mannsins. Þetta snýst því ekki um að bjarga Jörðinni heldur mannkyninu og ef maðurinn getur verið upphaf vandans hlýtur hann líka að geta verið uppspretta lausnarinnar.
Menning og listir | Breytt 4.5.2008 kl. 15:24 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 17. apríl 2008
Níu milljarðar
Þróun mannfjölda á Jörðinni var framanaf í jafnvægi og fjölgun manna hægfara. Það var ekki fyrr en á 20. öld að mannkyninu tók að fjölga verulega og mun hraðar en áður. Iðnbyltingunni í lok 19. aldar fylgdi mikil fólksfjölgun og sama má segja um tæknibyltingu síðustu áratuga, en af henni hefur hlotist mikil fjölgun. Um miðja 20. öld voru um tveir milljarðar manna á Jörðinni. Aðeins þremur áratugum síðar hafði sú tala tvöfaldast og í dag, rúmlega sextíu árum síðar telur mannkynið um sex og hálfan milljarð, sem er þreföldun á einni mannsævi.
Þessi mikla fólksfjölgun er að mörgu leyti jákvæð, því ljóst er að lífsskilyrði, heilsa og afkoma manna hafa batnað þegar á heildina er litið, sérstaklega á Vesturlöndum. Mannsævin hefur lengst sem hlýtur að teljast jákvætt framfaraskref, en þessi hraða fjölgun helst einnig í hendur við breytingar á loftslaginu og er stór áhrifavaldur í yfirvofandi loftslagsvá.
Svo hröð fólksfjölgun gerir það að verkum að öll náttúran er undir stórauknu álagi, ekki síst nú, þegar hraðar fjölgar í millistéttum og neysla og framleiðsla eykst á áður óþekktum hraða. Af hverjum 33 tonnum af framleiddum vörum í heiminum er 32 tonnum hent. Aðeins eitt tonn af 33 eru varanlegar framleiðsluvörur, afgangurinn er sorp. Við þessa þróun, sem ekki sér fyrir endan á, eykst t.d. álagið á helstu málma og jarðefnaeldsneyti og notkun vatns eykst, en ferskvatn er nú orðin ein eftirsóttasta auðlind Jarðar.
Hluti af lausninni hlýtur því að vera að koma böndum á þessa hröðu mannfjöldaþróun og leita jafnvægis við nýtingu og verndun auðlinda. Mannkynið gengur í auknum mæli og stöðugt hraðar á auðlindir náttúrunnar, án þess að gæta þess að eðlileg endurnýjun fari fram. Sjálfbærni auðlinda er fórnað. Sumar auðlindir hafa af þessum sökum þurrkast upp sem þýðir að þeirra verður ekki notið framar, a.m.k. ekki fyrr en eftir hundruð eða þúsundir, jafnvel milljónir ára.
Taka má olíulindir sem dæmi. Ljóst er að olía er takmörkuð auðlind og eldsneyti sem mannkynið er orðið háð. Olían er auðlind sem nær alls ekki að viðhalda sér með slíkri ásókn og verður líklega uppurin innan nokkurra áratuga. Olía og önnur jarðefnaeldsneyti verða til djúpt í jarðlögum á þúsundum ára og því ljóst að of geyst er farið ef hún þurrkast upp á nokkur hundruð árum. Slík þróun gengur eðlilega ekki, hvorki hvað olíu né aðrar auðlindir varðar. Leita þarf nýrra leiða og þróa orkugjafa í sátt við ferli og hraða náttúrunnar. Slík viðhorf eru sem betur fer að verða algild, en þó er langt í land að jafnvægi sé náð.
Sú staðreynd að ný kolaknúin verksmiðja er gangsett nánast vikulega í Kína er ógnvekjandi og þar er toppnum ekki nærri því náð. Mengun sem af þessu stafar er afar mikil og berst víða. Kína notar nú meira af kolum en Bandaríkin, lönd Evrópu og Japan samanlagt og á næstu 25 árum mun Kína brenna meira af kolum og senda meira af koltvísýringi út í andrúmsloftið en öll önnur lönd heimsins samanlagt. Vöxtur í Kína er því svakalegur, en er samt ekki einsdæmi því Indland siglir nú fram á ljóshraða og brátt verða Indverjar fleiri en Kínverjar.
Meðfylgjandi teiknimynd sýnir þróun mannfjölda frá upphafi tímatalsins til okkar daga. Algjör mannfjöldasprenging verður á 20. öld. Einnig sýnir hún mannfjöldaspá næstu 30 ára. Líklegt er að um miðja öldina muni mannkynið telja yfir níu milljarða manna. Þá er talið mögulegt að hægi á mannfjöldaaukningunni og jafnvægi komist á þróunina. En það er háð nokkrum þáttum, s.s. að hægt verði að koma böndum á ótímabærar þunganir og hægja á aukningunni sem einkum á sér stað í þróunarríkjunum.
Menning og listir | Breytt 4.5.2008 kl. 13:40 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 8. apríl 2008
Móðir náttúra - Engin tilviljun
Náttúran er stórfenglegt samofið gangverk óteljandi ólíkra þráða. Síbreytilegt og undurfagurt kraftaverk. Mannkynið er hluti af náttúrunni. Það sem mannkynið skapar er hluti af náttúrunni.
Móðir náttúra hefur engar tilfinningar en náttúran kallar samt fram kröftugar tilfinningar hjá mönnum. Hvort sem um er að ræða hryllilegar hamfarir eða fágaða fegurð, bregst maðurinn við með tárum eða trega, von eða vonleysi. Náttúruhamfarir leysa úr læðingi gríðarmikla orku og snerta líf manna. Er það þessi orka sem framkallar tilfinningar eða er það aðdáunin og óttinn við augljósa yfirburðina?
Náttúran spyr ekki um aðstæður á Jörðinni, né hjá mönnunum, breytingar í náttúrunni gerast óháð því hvort þær hafi áhrif á mannkynið eða ekki. Náttúran tekur því ekkert tillit til mannsins. Hún er sjálfstæð og sækir ekki um framkvæmda- né ferðaleyfi. Lögmálum náttúrunnar breytir mannkynið ekki en örlög mannkynsins eru í höndum náttúrunnar.
Action = Reaction. Reaction = Action. Atburðir í náttúrunni hafa afleiðingar í för með sér og orsakast af öðrum atburðum. Náttúran og lífríki Jarðarinnar er samsett eftir nákvæmum fyrirmælum efnafræðinnar. Ekkert gerist fyrir tilviljun í náttúrunni. Allt sem fæðist, lifir, þroskast og deyr er hluti af þeim flókna vef sem náttúran spinnur dag og nótt, árið um kring um aldir alda. Allt hefur sinn tilgang.
Ferðalag móður náttúru er langt í samanburði við ferðalag mannsins. Breytingar gerast hægt og aðeins eftir að langir efnafræðilegir ferlar þróast í aðstæðum sem náttúran hefur skapað. Móður náttúru liggur heldur ekkert á. Hún mun lifa mannkynið af. Hún þarf ekki á okkur að halda en við þurfum á henni að halda.
Maðurinn er ung dýrategund en einstök. Á stuttum tíma hefur manninum tekist að þróa með sér vitsmuni. Og segja má að maðurinn sé því undantekningin sem sannar regluna um tilviljanir í náttúrunni. Vitsmunir mannanna geta í raun framkallað tilviljanir eða tekið ákvarðanir sem eru andstæðar grunnhvötum og því í mótstöðu við upprunalegan tilgang tegundarinnar. Vitsmunir eru ástæða þess að mennirnir hafa alltaf val hvort þeir fylgja sínum hvötum eða vinna gegn þeim. Engin dýrategund hefur endurhugsað tilveru sína jafnoft og á svo stuttum tíma, líkt og maðurinn gerir í sífellu.
Önnur dýr efast ekki líkt og maðurinn gerir og hafa ekki frelsi til vitrænnar hugsunar, heldur taka ákvarðanir sínar samkvæmt meðfæddum grunnhvötum. Líf dýra snúast um að uppfylla grunnþarfir án þess að vitsmunir komi þar nokkuð við. Dýr hafa að þessu leyti ekkert val og enga undakomuleið frá hvötunum.
En felast mistök mannanna vegna yfirvofandi loftslagsvanda í notkun á vitsmunum. Frelsinu til að velja? Eru það gjörðir manna sem eru að breyta náttúrunni á óafturkræfan hátt? Hefur valfresli mannanna gert það að verkum að náttúran mun skaðast svo ekki verður aftur snúið? Hver var þá tilgangurinn með fæðingu mannsins? En mun móðir náttúra þá ekki lifa áfram? Jú líklega og Jörðin er ekki í hættu. En mannkynið gæti hinsvegar verið í hættu.
Maðurinn hefur lengi viljað drottna yfir Jörðinni og hefur aldrei viljað viðurkenna vanmátt sinn gangvart móður náttúru. Er það vandamálið sem mannkynið stendur frammi fyrir? Hefur mannkynið sagt móður náttúru óvinnanlegt stríð á hendur?
Spurningin er ekki lengur um hvort og hve mikil áhrif hlýnun Jarðar hefur á mannkynið og lífríki Jarðarinnar. Spurningin er hversu skjótt mannkynið nær að bregðast við til að takmarka þann skaða sem af hlýnuninni mun hljótast.
Nú þurfum við að vakna því náttúran á að njóta vafans. Við eigum ekki annarra kosta völ. Nú verður maðurinn að sanna tilgang sinn og snúa við þróuninni, taka upp lifnað í sátt og samlyndi við móður náttúru og stuðla að nýju jafnvægi hér á Jörðinni.
Menning og listir | Breytt 4.5.2008 kl. 13:45 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 5. apríl 2008
Óþægilegur sannleikur
Heimildarmyndin An Inconvenient Truth, Óþægilegur sannleikur eftir Al Gore, sem einu sinni var næsti forseti Bandaríkjanna, eins og hann kynnir sjálfan sig í myndinni, er eitt mikilvægasta framlagið í umræðunni um hlýnun Jarðar.
Þegar myndin var frumsýnd má segja að umræðan hafi stokkið uppá stærra svið og inní almenna umræðu, sérstaklega í Bandaríkjunum. Al Gore byggir með myndinni mikilvæga brú á milli vísindanna, stjórnmálamanna og almennings og myndin verður því öflugt ákall um viðbrögð umheimsins við loftslagsvánni.
Myndin hlaut Óskarsverðlaun sem heimildarmynd ársins 2007 og er byggð upp í kringum vel sviðssettan og myndrænan fyrirlestur sem Gore hefur flutt víða um heim síðustu árin. Þó að myndin sé aðeins tveggja ára gömul er mikið af þeirri myrku framtíðarsýn sem þar er sett fram nú þegar orðin að veruleika. Nánast allt sem þar birtist hefur verið staðfest með vísindalegum rannsóknum og skýrslum, nú síðast risaskýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Myndin lýsir líka vel mannfjöldaþróuninni sem orðið hefur, sérstaklega eftir seinni heimstyrjöld, en á þessum rúmlega 60 árum hefur mannfjöldi aukist úr 2 milljörðum í rúmlega 6 milljarða og um miðja öldina er líklegt að mannkynið telji um 9 milljarða manna. Þetta tengist beint aukningu koltvíoxíðs í andrúmsloftinu, gríðarlegri tæknibyltingu síðustu áratuga og þeim breytingum á loftslaginu sem í daglegu tali eru nefnd gróðurhúsaáhrif.
Framsetning upplýsinga í myndinni er með þeim hætti að mjög auðvelt er að skilja flóknar vísindalegar niðurstöður og rannsóknir. Myndin ætti því að opna augu margra fyrir þeim vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga sem orðið hafa af mannavöldum.
Í myndinni lýsir Gore þeirri skoðun sinni að framtíð Jarðarinnar og samfélag mannanna sé í húfi ef ekkert verður aðhafst og færir fyrir því sterk rök. Hann segir það siðferðislega skyldu manna, ekki síst stjórnmálamanna, að bregðast við núna og snúa við blaðinu. Hann lýsir því hvernig hann fékk í raun að skyggnast inní framtíðina sem háskólanemi, en kennari hans, Dr. Roger Revelle, var frumherji í mælingum á koltvísýringi í andrúmsloftinu og skynjaði hættuna framundan.
Þrautsegja Gore hefur síðan verið einstök, en í raun byrjaði hann að benda á vandamálið fyrir tugum ára síðan, m.a. fyrir þingnefndum Bandaríkjaþings, en talaði jafnan fyrir daufum eyrum. Þáverandi forseti Bandaríkjanna, George Bush eldri, kallaði hann í ræðum á opinberum vettvangi geggjaðan villitrúarmann.
Al Gore birtist í myndinni sem einarður og sannur baráttumaður fyrir bættum heimi og sýnir hlið á sér sem er athyglisverð, sérstaklega í ljósi þess að hann er í raun "hreinræktaður" bandarískur stjórnmálamaður, en faðir hans var öldungadeildarþingmaður í Washington. Persónuleg reynsla hans vegna bílslyss sonar vakti hann til vitundar um hvað skiptir virkilega máli í lífinu.
Það sem er líka áhugavert að velta fyrir sér, í ljósi þess að Al Gore "tapaði" forsetakjöri í Bandaríkjunum árið 2000, hvað hefði gerst ef hann hefði orðið forseti. Líklega hefði hann komist eitthvað áfram með baráttu sína fyrir bættri umhverfisvitund innan stjórnarinnar. En er víst að hann hefði farið þá leið sem hann fer hér? Hefði stjórnmálaumhverfið í Washington leyft honum það? Hefði málið kannski dagað uppi enn einu sinni? Var það kannski lán í óláni að Gore náði ekki kjöri svo boðskapurinn kæmi fram með þessum hætti? Hann segir að eftir kosningaklúðrið hafi hann vaknað til vitundar, byrjað uppá nýtt og náð að skynja hið stóra samhengi hlutanna.
En af hverju eru upplýsingar þær sem fram koma í myndinni kallaðar óþægilegur sannleikur? Hvers vegna eru þær ekki taldar trúverðugar af stjórnvöldum í Bandaríkjunum? Hvers vegna bregðast stjórnvöld ekki við vánni strax? Hvers vegna hefur upplýsingum um loftslagsbreytingar ítrekað verið breytt af launuðum vísindamönnum á vegum Bandaríkjastjórnar og sannleikanum hagrætt? Hvaða hagsmuni hafa stjórnvöld af því að réttar upplýsingar komi ekki fram?
Al Gore bendir á mörg dæmi þess að olíuiðnaðurinn hafi með skipulegum hætti þaggað niður í þeim sem vildu leggja fram þessar upplýsingar og þrýsihópar á vegum olíufyrirtækja ítrekað grafið undan umræðunni með öllum tiltækum ráðum, m.a. mútugreiðslum. Hann bendir í þessu sambandi á að "það er erfitt að fá mann til að skilja eitthvað, ef laun hans eru háð því að hann skilji það ekki."
Í lok myndarinnar fjallar Gore um leiðir til úrbóta og hann lýsir því að í raun eigum við öll nauðsynleg tæki og þekkjum þær hugmyndir sem við þurfum til að snúa þróuninni við og takast á við vandamálið. Hann segir: "We have everything we need but, say perhaps, political will. But do you know what? In America, political will is a renewable resource." Við höfum allt sem við þurfum nema, kannski, pólitískan vilja. En vitiði hvað? Í Bandaríkjunum er pólitískur vilji endurnýjanlegt hráefni.
Ljóst er að mikil barátta er framundan til að koma í veg fyrir óafturkræfar breytingar á lífríki og vistkerfi Jarðarinnar. Hvað stjórnmálin í Bandaríkjunum varða þá hlýtur það að vekja bjartsýni að bæði Hillary Clinton og Barak Obama eru vel meðvituð um vandamálið, meira að segja John McCain er á margan hátt umhverfisvænn kostur, þó hann sé afleitur á öðrum sviðum.
Menning og listir | Breytt 4.5.2008 kl. 15:17 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 4. apríl 2008
Iceland Warming
Verið velkomin á þetta vefsvæði sem ég vil tileinka einu mikilvægasta viðfangsefni samtímans, hlýnun Jarðar eða Global Warming. Hér verða ýmsar hugleiðingar og vangaveltur en einnig áhugaverðir tenglar vítt og breitt um heiminn. Mörgum spurningum er enn ósvarað þrátt fyrir að ítarlegar rannsóknir hafi verið gerðar um áhrif hnattrænnar hlýnunar á veðurfar, umhverfi, gróður, uppskeru, stærð jökla, sjávarhæð og dýralíf á Jörðinni.
Niðurstöður viðurkenndra rannsókna eru samhljóða um að stórfelldar breytingar eru að verða á loftslagi Jarðarinnar. Breytingar sem munu gera það að verkum að skilyrði fyrir lífi á Jörðinni versna. Lífsgæðum mannkyns hrakar og ef ekki verður brugðist við með ábyrgum og afgerandi hætti, gæti farið svo að mannkynið eigi ekki öruggt athvarf í framtíðinni.
Heimili mannkyns, Jörðin, eina heimili þess er því í hættu. Bregðast verður strax við því ljóst er að allt daglegt amstur og lífsgæðakapphlaup er til einskis háð ef illa fer fyrir því samfélagi manna sem nú byggir Jörðina.
Flestir eru nú sammála um að loftslagsvá er yfirvofandi og vaxandi vandamál um heim allan. Umhverfismál eru því orðin að einu helsta viðfangsefni stjórnmálanna. Málaflokkur sem lengi hefur tilheyrt þeim sem verið hafa á vinstri væng stjórnmála. Málaflokkur sem hefur þótt "mjúkur" og oft verið stillt upp sem andstæðu gegn hinum "hörðu" kapítalísku hagkerfum. En grænt umhverfisvænt hagkerfi þarf alls ekki að vera andstæðingur kapitalisma.
Enn eru samt allmargir sem efast um trúverðuleika og sannleiksgildi þeirra alþjóðlegu rannsókna sem framkvæmdar hafa verið, m.a. af Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Hér til hliðar má nálgast skýrslu nefndarinnar, undir tenglinum Climate Change Synthesis Report, en skýrslan samanstendur af niðurstöðum þúsundum vísindamanna um allan heim.
Í þessari umræðu er mikilvægt að horfa á hið stóra samhengi hlutanna og því kunna sumar spurninganna að virka fjarstæðukenndar og svörin fjarlæg, en í þessu máli sem og öðrum er þekkingin lykillinn. Fordómalaus umræða, fræðsla og traust á vísindalegum staðreyndum eru forsendur árangurs. Því meira sem við vitum um umhverfið og náttúruna, því reiðubúnari erum við til að taka upplýstar ákvarðanir.
Við verðum því að byrja snemma og umhverfisfræði ætti að vera kennd samhliða líffræði og landafræði í grunnskólum. Því fyrr sem við lærum að meta og skilja umhverfið og það furðuverk sem náttúran er, því fyrr mun almenn hugarfarsbreyting geta átt sér stað. En hún er nauðsynleg til að ná samstöðu umhvernig bregðast skuli við.
Hugarfarsbreyting er það sem þarf til þess að snúa þróuninni við. Virkileg hugarfarsbreyting verður ekki nema með mikilli fræðslu um hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga og hlýnunar Jarðar. Víðtæk þekkingarsköpun og þróunarvinna um nýtt grænt hagkerfi þarf einnig að fara fram og verða í forgangi í framtíðarsýn samfélaga, fyrirtækja, stofnana og heimila.
En hver eiga viðbrögðin að vera við þeim umhverfisskaða og loftslagsvá sem hlýnun Jarðar mun hafa í för með sér? Hver verða áhrif loftslagsbreytinganna á Íslandi? Hver verða áhrifin á daglegt líf Íslendinga? Verða þau fremur efnahagsleg en landfræði-, umhverfis- eða veðurfarsleg? Nú þegar hafa olíuverð og áburðarverð hækkað sem haft hefur hagræn áhrif hér á landi og bein áhrif á fjármál heimilanna. Mun landið sjálft breytast, fjörur færast og fjörðum fjölga? Hvar munu strendur Íslands liggja um miðja 21. öldina?
Kannski finnum við hér einhver svör við þessum spurningum en líklega koma jafnharðan upp nýjar og krefjandi spurningar. Ég hvet alla sem áhuga hafa að gera athugasemdir við greinar eða senda mér spennandi tengla og pistla um þetta ögrandi málefni.
Menning og listir | Breytt 4.5.2008 kl. 13:35 | Slóð | Facebook