Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Sex gráður gætu breytt heiminum

SixDegrees

Umræðan um hnattræna hlýnun, Global Warming, snýst að miklu leyti um niðurstöður vísindalegra rannsókna og hversu nákvæmar og raunhæfar þær séu. Nefndar eru mismunandi tölur um hve mikil hlýnunin kunni að verða eða jafnvel hvort nokkur hlýnun verði yfirhöfuð. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar enda eru veðurfar, umhverfi, dýralíf og vistkerfið svo víðtæk rannsóknarefni að stór hluti vísindamanna heimsins kemur með einhverjum hætti að verkefninu.

Flestir eru sammála um að töluverð hlýnun hafi nú þegar átt sér stað og rannsóknir sýna að meðalhiti hækkaði um eina gráðu celsius á síðustu öld. Mannkynið hefur aldrei lifað tímabil þar sem meðalhitinn er einni gráðu hærri en hann er núna og á síðustu milljón árum hefur ekki verið heitara. 

Flestar rannsóknir sýna einnig að ef aðeins meðalspár rætast er samt veruleg vá fyrir höndum og breytingar verða miklar og óafturkræfar. Vísindasamfélagið er orðið algjörlega sammála um þessar niðurstöður og skýrsla Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, Intergovernmental Panel on Climate Change, spáir því að hlýnunin verði á milli 1,4 til 6,4 gráður celsius á þessari öld. Ef meðalspár IPCC rætast og hlýnunin verður t.d. um þrjár gráður mun líf manna og vistkerfið gjörbreytast.

En enginn veit nákvæmlega hvert raunverulega stefnir og vandasamt er að spá fyrir um framtíð loftslagsins. Einnig er deilt um hvort sú hlýnun sem kunni að vera framundan sé hættuleg manninum og sumir telja að lítið mál verði að aðlagast breyttum aðstæðum. Þessar raddir heyrast þó æ sjaldnar þegar augljósar sannanir fyrir dramatískum afleiðingum hlýnunar birtast nú nánast daglega í fjölmiðlum.

Hæst fer deilan um það hvort hlýnunin sé af mannavöldum eða hvort um eðlilega hlýnun og veðurfarssveiflu sé að ræða. Margt bendir til þess að þessari deilu fari líka að ljúka og hægt verði að sameinast um víðtæka viðbragðsáætlun. Nánast allar þjóðir heims hafa tekið höndum saman um hnattræn viðbrögð. Meira að segja Bandaríkjastjórn er að snúast á sveif með þeim sem vilja aðgerðir strax og hefur loksins gert áætlun um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Það er góðs viti, en Bandaríkin hafa um árabil losað mest allra og dregið lappirnar í þessum málum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa leitt umræður og samningagerð vegna loftslagsbreytinga. Nánast allar þjóðirnar eru aðilar að rammasamkomulagi um viðbrögð við loftslagsbreytingum, United Nations Framework Convention on Climate Change, frá árinu 1992. Kyoto bókunin, þar sem kveðið er á um hve miklum koltvísýringi þjóðirnar, þ.m.t. þróunarlönd, mega losa út í andrúmsloftið var svo undirrituð árið 1997. Allar þjóðirnar hafa staðfest bókunina nema Bandaríkin, en hún gildir til ársins 2012. Nýtt ferli er þegar hafið þar sem samið verður um ný viðmið eftir árið 2012. Stefnt er að því undirrita nýja bókun á ráðstefnu í Kaupmannahöfn árið 2009. 

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fylgja stefnu Evrópusambandsins og stefna að 50-75% minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2050 miðað við losunina árið 1990. Það verður ekki létt verk fyrir Ísland að uppfylla þessi skilyrði miðað við stöðuna í dag. Þörf er á allsherjar átaki hér heima.

Í heimildarmynd National Geographic sjónvarpsstöðvarinnar, Six degrees could change the world, Sex gráður gætu breytt heiminum, fjallar á afar áhrifaríkan hátt um hugsanlega hnattræna hlýnun. Dregnar eru skýrar línur vegna mögulegra afleiðinga og sterkt myndmál notað til að lýsa aðstæðum. Gerð er grein fyrir þeim breytingum sem hver gráða af hærri meðalhita hefur í för með sér, allt frá einni gráðu uppí sex gráður. Afleiðingarnar eru allsherjar náttúruhamfarir, stórfelldar breytingar á umhverfi og veðurfari og gríðarleg eyðilegging á lífríkinu. Ljóst er að ef svartsýnustu spár verða að veruleika mun mannkynið ekki lifa af.

Verulegar loftslagsbreytingar eru staðreynd. Þær gerast hratt og mannkynið mun fljótt upplifa gjörbreytta tíma og ferðast um ókannað umhverfi. Ennþá er hlýnunin þó ekki stjórnlaus, þ.e. hún hefur ekki náð þeim punkti þegar ekki verður aftur snúið. Þetta er sú áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir. Að snúa þróuninni við áður en sá tímapunktur kemur að ekki verði aftur snúið. Tíminn til að bregðast við er því núna.

 

 

 


Ellefta stundin

The 11th Hour
Markmið heimildarmyndarinnar The 11th Hour, eða Ellefta stundin, er að rannsaka ástand mannkyns undir ógninni af yfirvofandi loftslagsvá. Hvaða hindranir eru í vegi og hvaða leiðir eru mögulegar til úrbóta? Margir af virtustu vísindamönnum, hönnuðum, sagnfræðingum og hugsuðum okkar tíma koma fram í myndinni, meta stöðuna og leggja fram hugmyndir að lausnum. Myndin er framleidd af Leonardo DiCaprio.

Leitað er svara við þeirri spurningu hvers vegna mannkynið virðist vera á góðri leið með að valda óafturkræfu stórslysi á náttúrunni og hvaða leiðir eru færar til að afstýra því slysi. Farið er yfir stutta sögu mannkyns í samhengi við u.þ.b. fjögurra milljarða ára sögu lífs á Jörðinni og skoðað er hvað framtíðin kann að bera í skauti sér, fyrir mannkynið annars vegar og náttúruna hinsvegar.

Myndin er stórmerkilegt, upplýsandi og nauðsynlegt innlegg í þann suðupott sem umræðan um hlýnun Jarðar er. Sjónrænt er hún mjög áhrifarík, þrátt fyrir að hún byggist að miklu leyti upp á einföldum viðtölum. Fjölbreytt og öflugt myndmál er notað til að styðja við frásögnina. Ekki spillir frábær tónlist sem m.a. er úr smiðju Sigur-Rósar.

Frásögnin í myndinni hverfist um umhverfismál og loftslagsvandann og skilur jafnvel eftir fleiri spurningar en hún svarar. Lausnir á vandanum eru ekki einfaldar né auðsóttar en eru samt margar nú þegar uppá borðinu og tiltækar, bíða framkvæmda. Yfirgripsmiklar staðreyndir eru settar fram um ástand náttúrunnar og loftslagsins. Þetta er mikilvæg þekking sem ekki er hægt að líta framhjá undir neinum kringumstæðum. Þekking sem t.d. stjórnmálamenn hafa siðferðislega skyldu til að bregðast við.

Sterk og sannfærandi rök eru færð fyrir helstu breytum og áhrifavöldum loftslagsvandans og niðurstaðan er mjög skýr. Bregðast þarf strax við svo ekki fari illa. Bregðast þarf við með mjög víðtækum ráðum á hnattrænum vettvangi og á flestum sviðum samfélagsins. Nýir orkugjafar þurfa að mótast. Nýtt hagkerfi þarf að þróast. Ný hugsun þarf að fæðast.

Vandamálin sem mannkynið stendur frammi fyrir eru ekki vísindaleg, tæknileg né efnafræðileg heldur eru þau fyrst og fremst menningarleg og hugarfarsleg. Stærstu vandamálin eru hugsunarháttur mannsins og það pólitíska og félagslega skipulag sem þjóðir og samfélög hafa komið sér upp. Skipulag sem að mestu leyti byggist á neyslu, peningum, völdum og efnishyggju. Það eru stærstu hindranirnar, að breyta hugarfari og menningu þjóða og þeim hraða takti sem maðurinn gengur eftir.

Að koma á jafnvægi á milli manns og náttúru er ekki afturför til fortíðar heldur lífsnauðsynleg framför, raunsæ og rökrétt þróun. Þetta nýja náttúrulega jafnvægi þarf ekki að vera hallærislegt eða gamaldags, heldur getur orðið hátæknilegt og nútímalegt. Grænt hagkerfi býður uppá óendanlega nýja möguleika og ekki síst spennandi viðskipta- og vöruhugmyndir.

Neyslu- og græðgissamfélag nútímans er tímaskekkja og getur aldrei orðið annað en tímabundið ástand. Núverandi menning flestra samfélaga leggur eignarhald manna á náttúrunni til grundvallar. Maðurinn ræður og drottnar. Landssvæði og auðlindir ganga kaupum og sölum og nýting er í þágu hagsældar fárra einstaklinga á kostnað náttúrunnar. Er þetta rétt hugsun? Getur þetta gengið til framtíðar? Varla. Ætti mannkynið ekki frekar að vera í þjónustu náttúrunnar, með auðlindir og land að láni, ef ekki frá framtíðarkynslóðum, þá að láni frá náttúrunni sjálfri?

Maðurinn er óaðskiljanlegur hluti náttúrunnar og geymir í raun frumeindir allt frá upphafi lífs í líkama sínum. Í genum mannsins leynist saga lífsins. Mannkynssagan. En staðreyndin er samt sú að 99,9999% af öllum tegundum lífs á Jörðinni frá upphafi eru útdauðar. Það eru því ekki miklar líkur á því að mannkynið lifi af og sérstaklega þar sem mannkynið er ofarlega í fæðukeðjunni er það í áhættuhópi; útrýmingarhættu. Í því samhengi er útlitið dauft. En okkar kynslóð getur samt reynt að tefja þetta ferli, hlustað á vísindin og tekið mark á neyðarkalli náttúrunnar.

Maðurinn þarf enn á ný að enduruppgötva tilvist sína og endurhanna samspil sitt við náttúruna. Skapa þarf vistvænt, sjálbært hagkerfi sem byggir ekki á jarðefnaeldsneytum sem orkugjöfum heldur endurnýjanlegum orkugjöfum. Sólin er helsti lykillinn að nýjum orkugjöfum og reyndar að öllu lífi á Jörðinni í gegnum ljóstillífun. Margar nýjar lausnir snúast um beislun á kröftum sólarljóssins en nýting vatnsorku er líka það sem horft er til í auknum mæli og þar geta Íslendingar lagt lóð á vogarskálarnar.

Nýja vistvæna hagkerfið þarf að snúa við dauðadæmdri þróun einnar tegundar svo hægt verði að hverfa frá undirbúningi jarðarfarar mannsins. Þetta snýst því ekki um að bjarga Jörðinni heldur mannkyninu og ef maðurinn getur verið upphaf vandans hlýtur hann líka að geta verið uppspretta lausnarinnar.

 

Níu milljarðar

Jörðin að næturlagi

Þróun mannfjölda á Jörðinni var framanaf í jafnvægi og fjölgun manna hægfara. Það var ekki fyrr en á 20. öld að mannkyninu tók að fjölga verulega og mun hraðar en áður. Iðnbyltingunni í lok 19. aldar fylgdi mikil fólksfjölgun og sama má segja um tæknibyltingu síðustu áratuga, en af henni hefur hlotist mikil fjölgun. Um miðja 20. öld voru um tveir milljarðar manna á Jörðinni. Aðeins þremur áratugum síðar hafði sú tala tvöfaldast og í dag, rúmlega sextíu árum síðar telur mannkynið um sex og hálfan milljarð, sem er þreföldun á einni mannsævi.

Þessi mikla fólksfjölgun er að mörgu leyti jákvæð, því ljóst er að lífsskilyrði, heilsa og afkoma manna hafa batnað þegar á heildina er litið, sérstaklega á Vesturlöndum. Mannsævin hefur lengst sem hlýtur að teljast jákvætt framfaraskref, en þessi hraða fjölgun helst einnig í hendur við breytingar á loftslaginu og er stór áhrifavaldur í yfirvofandi loftslagsvá.

Svo hröð fólksfjölgun gerir það að verkum að öll náttúran er undir stórauknu álagi, ekki síst nú, þegar hraðar fjölgar í millistéttum og neysla og framleiðsla eykst á áður óþekktum hraða. Af hverjum 33 tonnum af framleiddum vörum í heiminum er 32 tonnum hent. Aðeins eitt tonn af 33 eru varanlegar framleiðsluvörur, afgangurinn er sorp. Við þessa þróun, sem ekki sér fyrir endan á, eykst t.d. álagið á helstu málma og jarðefnaeldsneyti og notkun vatns eykst, en ferskvatn er nú orðin ein eftirsóttasta auðlind Jarðar.

Hluti af lausninni hlýtur því að vera að koma böndum á þessa hröðu mannfjöldaþróun og leita jafnvægis við nýtingu og verndun auðlinda. Mannkynið gengur í auknum mæli og stöðugt hraðar á auðlindir náttúrunnar, án þess að gæta þess að eðlileg endurnýjun fari fram. Sjálfbærni auðlinda er fórnað. Sumar auðlindir hafa af þessum sökum þurrkast upp sem þýðir að þeirra verður ekki notið framar, a.m.k. ekki fyrr en eftir hundruð eða þúsundir, jafnvel milljónir ára.

Taka má olíulindir sem dæmi. Ljóst er að olía er takmörkuð auðlind og eldsneyti sem mannkynið er orðið háð. Olían er auðlind sem nær alls ekki að viðhalda sér með slíkri ásókn og verður líklega uppurin innan nokkurra áratuga. Olía og önnur jarðefnaeldsneyti verða til djúpt í jarðlögum á þúsundum ára og því ljóst að of geyst er farið ef hún þurrkast upp á nokkur hundruð árum. Slík þróun gengur eðlilega ekki, hvorki hvað olíu né aðrar auðlindir varðar. Leita þarf nýrra leiða og þróa orkugjafa í sátt við ferli og hraða náttúrunnar. Slík viðhorf eru sem betur fer að verða algild, en þó er langt í land að jafnvægi sé náð.

Sú staðreynd að ný kolaknúin verksmiðja er gangsett nánast vikulega í Kína er ógnvekjandi og þar er toppnum ekki nærri því náð. Mengun sem af þessu stafar er afar mikil og berst víða. Kína notar nú meira af kolum en Bandaríkin, lönd Evrópu og Japan samanlagt og á næstu 25 árum mun Kína brenna meira af kolum og senda meira af koltvísýringi út í andrúmsloftið en öll önnur lönd heimsins samanlagt. Vöxtur í Kína er því svakalegur, en er samt ekki einsdæmi því Indland siglir nú fram á ljóshraða og brátt verða Indverjar fleiri en Kínverjar.

Meðfylgjandi teiknimynd sýnir þróun mannfjölda frá upphafi tímatalsins til okkar daga. Algjör mannfjöldasprenging verður á 20. öld. Einnig sýnir hún mannfjöldaspá næstu 30 ára. Líklegt er að um miðja öldina muni mannkynið telja yfir níu milljarða manna. Þá er talið mögulegt að hægi á mannfjöldaaukningunni og jafnvægi komist á þróunina. En það er háð nokkrum þáttum, s.s. að hægt verði að koma böndum á ótímabærar þunganir og hægja á aukningunni sem einkum á sér stað í þróunarríkjunum.


Móðir náttúra - Engin tilviljun

Fóstur

Náttúran er stórfenglegt samofið gangverk óteljandi ólíkra þráða. Síbreytilegt og undurfagurt kraftaverk. Mannkynið er hluti af náttúrunni. Það sem mannkynið skapar er hluti af náttúrunni.

Móðir náttúra hefur engar tilfinningar en náttúran kallar samt fram kröftugar tilfinningar hjá mönnum. Hvort sem um er að ræða hryllilegar hamfarir eða fágaða fegurð, bregst maðurinn við með tárum eða trega, von eða vonleysi. Náttúruhamfarir leysa úr læðingi gríðarmikla orku og snerta líf manna. Er það þessi orka sem framkallar tilfinningar eða er það aðdáunin og óttinn við augljósa yfirburðina?

Náttúran spyr ekki um aðstæður á Jörðinni, né hjá mönnunum, breytingar í náttúrunni gerast óháð því hvort þær hafi áhrif á mannkynið eða ekki. Náttúran tekur því ekkert tillit til mannsins. Hún er sjálfstæð og sækir ekki um framkvæmda- né ferðaleyfi. Lögmálum náttúrunnar breytir mannkynið ekki en örlög mannkynsins eru í höndum náttúrunnar.

Action = Reaction. Reaction = Action. Atburðir í náttúrunni hafa afleiðingar í för með sér og orsakast af öðrum atburðum. Náttúran og lífríki Jarðarinnar er samsett eftir nákvæmum fyrirmælum efnafræðinnar. Ekkert gerist fyrir tilviljun í náttúrunni. Allt sem fæðist, lifir, þroskast og deyr er hluti af þeim flókna vef sem náttúran spinnur dag og nótt, árið um kring um aldir alda. Allt hefur sinn tilgang.

Ferðalag móður náttúru er langt í samanburði við ferðalag mannsins. Breytingar gerast hægt og aðeins eftir að langir efnafræðilegir ferlar þróast í aðstæðum sem náttúran hefur skapað. Móður náttúru liggur heldur ekkert á. Hún mun lifa mannkynið af. Hún þarf ekki á okkur að halda en við þurfum á henni að halda.

Maðurinn er ung dýrategund en einstök. Á stuttum tíma hefur manninum tekist að þróa með sér vitsmuni. Og segja má að maðurinn sé því undantekningin sem sannar regluna um tilviljanir í náttúrunni. Vitsmunir mannanna geta í raun framkallað tilviljanir eða tekið ákvarðanir sem eru andstæðar grunnhvötum og því í mótstöðu við upprunalegan tilgang tegundarinnar. Vitsmunir eru ástæða þess að mennirnir hafa alltaf val hvort þeir fylgja sínum hvötum eða vinna gegn þeim. Engin dýrategund hefur endurhugsað tilveru sína jafnoft og á svo stuttum tíma, líkt og maðurinn gerir í sífellu.

Önnur dýr efast ekki líkt og maðurinn gerir og hafa ekki frelsi til vitrænnar hugsunar, heldur taka ákvarðanir sínar samkvæmt meðfæddum grunnhvötum. Líf dýra snúast um að uppfylla grunnþarfir án þess að vitsmunir komi þar nokkuð við. Dýr hafa að þessu leyti ekkert val og enga undakomuleið frá hvötunum.

En felast mistök mannanna vegna yfirvofandi loftslagsvanda í notkun á vitsmunum. Frelsinu til að velja? Eru það gjörðir manna sem eru að breyta náttúrunni á óafturkræfan hátt? Hefur valfresli mannanna gert það að verkum að náttúran mun skaðast svo ekki verður aftur snúið? Hver var þá tilgangurinn með fæðingu mannsins? En mun móðir náttúra þá ekki lifa áfram? Jú líklega og Jörðin er ekki í hættu. En mannkynið gæti hinsvegar verið í hættu.

Maðurinn hefur lengi viljað drottna yfir Jörðinni og hefur aldrei viljað viðurkenna vanmátt sinn gangvart móður náttúru. Er það vandamálið sem mannkynið stendur frammi fyrir? Hefur mannkynið sagt móður náttúru óvinnanlegt stríð á hendur?

Spurningin er ekki lengur um hvort og hve mikil áhrif hlýnun Jarðar hefur á mannkynið og lífríki Jarðarinnar. Spurningin er hversu skjótt mannkynið nær að bregðast við til að takmarka þann skaða sem af hlýnuninni mun hljótast.

Nú þurfum við að vakna því náttúran á að njóta vafans. Við eigum ekki annarra kosta völ. Nú verður maðurinn að sanna tilgang sinn og snúa við þróuninni, taka upp lifnað í sátt og samlyndi við móður náttúru og stuðla að nýju jafnvægi hér á Jörðinni.


Óþægilegur sannleikur

An Inconvenient Truth

Heimildarmyndin An Inconvenient Truth, Óþægilegur sannleikur eftir Al Gore, sem einu sinni var næsti forseti Bandaríkjanna, eins og hann kynnir sjálfan sig í myndinni, er eitt mikilvægasta framlagið í umræðunni um hlýnun Jarðar.

Þegar myndin var frumsýnd má segja að umræðan hafi stokkið uppá stærra svið og inní almenna umræðu, sérstaklega í Bandaríkjunum. Al Gore byggir með myndinni mikilvæga brú á milli vísindanna, stjórnmálamanna og almennings og myndin verður því öflugt ákall um viðbrögð umheimsins við loftslagsvánni.

Myndin hlaut Óskarsverðlaun sem heimildarmynd ársins 2007 og er byggð upp í kringum vel sviðssettan og myndrænan fyrirlestur sem Gore hefur flutt víða um heim síðustu árin. Þó að myndin sé aðeins tveggja ára gömul er mikið af þeirri myrku framtíðarsýn sem þar er sett fram nú þegar orðin að veruleika. Nánast allt sem þar birtist hefur verið staðfest með vísindalegum rannsóknum og skýrslum, nú síðast risaskýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Myndin lýsir líka vel mannfjöldaþróuninni sem orðið hefur, sérstaklega eftir seinni heimstyrjöld, en á þessum rúmlega 60 árum hefur mannfjöldi aukist úr 2 milljörðum í rúmlega 6 milljarða og um miðja öldina er líklegt að mannkynið telji um 9 milljarða manna. Þetta tengist beint aukningu koltvíoxíðs í andrúmsloftinu, gríðarlegri tæknibyltingu síðustu áratuga og þeim breytingum á loftslaginu sem í daglegu tali eru nefnd gróðurhúsaáhrif.

Framsetning upplýsinga í myndinni er með þeim hætti að mjög auðvelt er að skilja flóknar vísindalegar niðurstöður og rannsóknir. Myndin ætti því að opna augu margra fyrir þeim vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga sem orðið hafa af mannavöldum.

Í myndinni lýsir Gore þeirri skoðun sinni að framtíð Jarðarinnar og samfélag mannanna sé í húfi ef ekkert verður aðhafst og færir fyrir því sterk rök. Hann segir það siðferðislega skyldu manna, ekki síst stjórnmálamanna, að bregðast við núna og snúa við blaðinu. Hann lýsir því hvernig hann fékk í raun að skyggnast inní framtíðina sem háskólanemi, en kennari hans, Dr. Roger Revelle, var frumherji í mælingum á koltvísýringi í andrúmsloftinu og skynjaði hættuna framundan.

Þrautsegja Gore hefur síðan verið einstök, en í raun byrjaði hann að benda á vandamálið fyrir tugum ára síðan, m.a. fyrir þingnefndum Bandaríkjaþings, en talaði jafnan fyrir daufum eyrum. Þáverandi forseti Bandaríkjanna, George Bush eldri, kallaði hann í ræðum á opinberum vettvangi geggjaðan villitrúarmann.

Al Gore birtist í myndinni sem einarður og sannur baráttumaður fyrir bættum heimi og sýnir hlið á sér sem er athyglisverð, sérstaklega í ljósi þess að hann er í raun "hreinræktaður" bandarískur stjórnmálamaður, en faðir hans var öldungadeildarþingmaður í Washington. Persónuleg reynsla hans vegna bílslyss sonar vakti hann til vitundar um hvað skiptir virkilega máli í lífinu.

Það sem er líka áhugavert að velta fyrir sér, í ljósi þess að Al Gore "tapaði" forsetakjöri í Bandaríkjunum árið 2000, hvað hefði gerst ef hann hefði orðið forseti. Líklega hefði hann komist eitthvað áfram með baráttu sína fyrir bættri umhverfisvitund innan stjórnarinnar. En er víst að hann hefði farið þá leið sem hann fer hér? Hefði stjórnmálaumhverfið í Washington leyft honum það? Hefði málið kannski dagað uppi enn einu sinni? Var það kannski lán í óláni að Gore náði ekki kjöri svo boðskapurinn kæmi fram með þessum hætti? Hann segir að eftir kosningaklúðrið hafi hann vaknað til vitundar, byrjað uppá nýtt og náð að skynja hið stóra samhengi hlutanna.

En af hverju eru upplýsingar þær sem fram koma í myndinni kallaðar óþægilegur sannleikur? Hvers vegna eru þær ekki taldar trúverðugar af stjórnvöldum í Bandaríkjunum? Hvers vegna bregðast stjórnvöld ekki við vánni strax? Hvers vegna hefur upplýsingum um loftslagsbreytingar ítrekað verið breytt af launuðum vísindamönnum á vegum Bandaríkjastjórnar og sannleikanum hagrætt? Hvaða hagsmuni hafa stjórnvöld af því að réttar upplýsingar komi ekki fram?

Al Gore bendir á mörg dæmi þess að olíuiðnaðurinn hafi með skipulegum hætti þaggað niður í þeim sem vildu leggja fram þessar upplýsingar og þrýsihópar á vegum olíufyrirtækja ítrekað grafið undan umræðunni með öllum tiltækum ráðum, m.a. mútugreiðslum. Hann bendir í þessu sambandi á að "það er erfitt að fá mann til að skilja eitthvað, ef laun hans eru háð því að hann skilji það ekki."

Í lok myndarinnar fjallar Gore um leiðir til úrbóta og hann lýsir því að í raun eigum við öll nauðsynleg tæki og þekkjum þær hugmyndir sem við þurfum til að snúa þróuninni við og takast á við vandamálið. Hann segir: "We have everything we need but, say perhaps, political will. But do you know what? In America, political will is a renewable resource." Við höfum allt sem við þurfum nema, kannski, pólitískan vilja. En vitiði hvað? Í Bandaríkjunum er pólitískur vilji endurnýjanlegt hráefni.

Ljóst er að mikil barátta er framundan til að koma í veg fyrir óafturkræfar breytingar á lífríki og vistkerfi Jarðarinnar. Hvað stjórnmálin í Bandaríkjunum varða þá hlýtur það að vekja bjartsýni að bæði Hillary Clinton og Barak Obama eru vel meðvituð um vandamálið, meira að segja John McCain er á margan hátt umhverfisvænn kostur, þó hann sé afleitur á öðrum sviðum.


Iceland Warming

Jörðin

Verið velkomin á þetta vefsvæði sem ég vil tileinka einu mikilvægasta viðfangsefni samtímans, hlýnun Jarðar eða Global Warming. Hér verða ýmsar hugleiðingar og vangaveltur en einnig áhugaverðir tenglar vítt og breitt um heiminn. Mörgum spurningum er enn ósvarað þrátt fyrir að ítarlegar rannsóknir hafi verið gerðar um áhrif hnattrænnar hlýnunar á veðurfar, umhverfi, gróður, uppskeru, stærð jökla, sjávarhæð og dýralíf á Jörðinni. 

Niðurstöður viðurkenndra rannsókna eru samhljóða um að stórfelldar breytingar eru að verða á loftslagi Jarðarinnar. Breytingar sem munu gera það að verkum að skilyrði fyrir lífi á Jörðinni versna. Lífsgæðum mannkyns hrakar og ef ekki verður brugðist við með ábyrgum og afgerandi hætti, gæti farið svo að mannkynið eigi ekki öruggt athvarf í framtíðinni. 

Heimili mannkyns, Jörðin, eina heimili þess er því í hættu. Bregðast verður strax við því ljóst er að allt daglegt amstur og lífsgæðakapphlaup er til einskis háð ef illa fer fyrir því samfélagi manna sem nú byggir Jörðina.

Flestir eru nú sammála um að loftslagsvá er yfirvofandi og vaxandi vandamál um heim allan. Umhverfismál eru því orðin að einu helsta viðfangsefni stjórnmálanna. Málaflokkur sem lengi hefur tilheyrt þeim sem verið hafa á vinstri væng stjórnmála. Málaflokkur sem hefur þótt "mjúkur" og oft verið stillt upp sem andstæðu gegn hinum "hörðu" kapítalísku hagkerfum. En grænt umhverfisvænt hagkerfi þarf alls ekki að vera andstæðingur kapitalisma.

Enn eru samt allmargir sem efast um trúverðuleika og sannleiksgildi þeirra alþjóðlegu rannsókna sem framkvæmdar hafa verið, m.a. af Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Hér til hliðar má nálgast skýrslu nefndarinnar, undir tenglinum Climate Change Synthesis Report, en skýrslan samanstendur af niðurstöðum þúsundum vísindamanna um allan heim.

Í þessari umræðu er mikilvægt að horfa á hið stóra samhengi hlutanna og því kunna sumar spurninganna að virka fjarstæðukenndar og svörin fjarlæg, en í þessu máli sem og öðrum er þekkingin lykillinn. Fordómalaus umræða, fræðsla og traust á vísindalegum staðreyndum eru forsendur árangurs. Því meira sem við vitum um umhverfið og náttúruna, því reiðubúnari erum við til að taka upplýstar ákvarðanir. 

Við verðum því að byrja snemma og umhverfisfræði ætti að vera kennd samhliða líffræði og landafræði í grunnskólum. Því fyrr sem við lærum að meta og skilja umhverfið og það furðuverk sem náttúran er, því fyrr mun almenn hugarfarsbreyting geta átt sér stað. En hún er nauðsynleg til að ná samstöðu umhvernig bregðast skuli við. 

Hugarfarsbreyting er það sem þarf til þess að snúa þróuninni við. Virkileg hugarfarsbreyting verður ekki nema með mikilli fræðslu um hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga og hlýnunar Jarðar. Víðtæk þekkingarsköpun og þróunarvinna um nýtt grænt hagkerfi þarf einnig að fara fram og verða í forgangi í framtíðarsýn samfélaga, fyrirtækja, stofnana og heimila.

En hver eiga viðbrögðin að vera við þeim umhverfisskaða og loftslagsvá sem hlýnun Jarðar mun hafa í för með sér? Hver verða áhrif loftslagsbreytinganna á Íslandi? Hver verða áhrifin á daglegt líf Íslendinga? Verða þau fremur efnahagsleg en landfræði-, umhverfis- eða veðurfarsleg? Nú þegar hafa olíuverð og áburðarverð hækkað sem haft hefur hagræn áhrif hér á landi og bein áhrif á fjármál heimilanna. Mun landið sjálft breytast, fjörur færast og fjörðum fjölga? Hvar munu strendur Íslands liggja um miðja 21. öldina?

Kannski finnum við hér einhver svör við þessum spurningum en líklega koma jafnharðan upp nýjar og krefjandi spurningar. Ég hvet alla sem áhuga hafa að gera athugasemdir við greinar eða senda mér spennandi tengla og pistla um þetta ögrandi málefni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband