Sex gráður gætu breytt heiminum

SixDegrees

Umræðan um hnattræna hlýnun, Global Warming, snýst að miklu leyti um niðurstöður vísindalegra rannsókna og hversu nákvæmar og raunhæfar þær séu. Nefndar eru mismunandi tölur um hve mikil hlýnunin kunni að verða eða jafnvel hvort nokkur hlýnun verði yfirhöfuð. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar enda eru veðurfar, umhverfi, dýralíf og vistkerfið svo víðtæk rannsóknarefni að stór hluti vísindamanna heimsins kemur með einhverjum hætti að verkefninu.

Flestir eru sammála um að töluverð hlýnun hafi nú þegar átt sér stað og rannsóknir sýna að meðalhiti hækkaði um eina gráðu celsius á síðustu öld. Mannkynið hefur aldrei lifað tímabil þar sem meðalhitinn er einni gráðu hærri en hann er núna og á síðustu milljón árum hefur ekki verið heitara. 

Flestar rannsóknir sýna einnig að ef aðeins meðalspár rætast er samt veruleg vá fyrir höndum og breytingar verða miklar og óafturkræfar. Vísindasamfélagið er orðið algjörlega sammála um þessar niðurstöður og skýrsla Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, Intergovernmental Panel on Climate Change, spáir því að hlýnunin verði á milli 1,4 til 6,4 gráður celsius á þessari öld. Ef meðalspár IPCC rætast og hlýnunin verður t.d. um þrjár gráður mun líf manna og vistkerfið gjörbreytast.

En enginn veit nákvæmlega hvert raunverulega stefnir og vandasamt er að spá fyrir um framtíð loftslagsins. Einnig er deilt um hvort sú hlýnun sem kunni að vera framundan sé hættuleg manninum og sumir telja að lítið mál verði að aðlagast breyttum aðstæðum. Þessar raddir heyrast þó æ sjaldnar þegar augljósar sannanir fyrir dramatískum afleiðingum hlýnunar birtast nú nánast daglega í fjölmiðlum.

Hæst fer deilan um það hvort hlýnunin sé af mannavöldum eða hvort um eðlilega hlýnun og veðurfarssveiflu sé að ræða. Margt bendir til þess að þessari deilu fari líka að ljúka og hægt verði að sameinast um víðtæka viðbragðsáætlun. Nánast allar þjóðir heims hafa tekið höndum saman um hnattræn viðbrögð. Meira að segja Bandaríkjastjórn er að snúast á sveif með þeim sem vilja aðgerðir strax og hefur loksins gert áætlun um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Það er góðs viti, en Bandaríkin hafa um árabil losað mest allra og dregið lappirnar í þessum málum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa leitt umræður og samningagerð vegna loftslagsbreytinga. Nánast allar þjóðirnar eru aðilar að rammasamkomulagi um viðbrögð við loftslagsbreytingum, United Nations Framework Convention on Climate Change, frá árinu 1992. Kyoto bókunin, þar sem kveðið er á um hve miklum koltvísýringi þjóðirnar, þ.m.t. þróunarlönd, mega losa út í andrúmsloftið var svo undirrituð árið 1997. Allar þjóðirnar hafa staðfest bókunina nema Bandaríkin, en hún gildir til ársins 2012. Nýtt ferli er þegar hafið þar sem samið verður um ný viðmið eftir árið 2012. Stefnt er að því undirrita nýja bókun á ráðstefnu í Kaupmannahöfn árið 2009. 

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fylgja stefnu Evrópusambandsins og stefna að 50-75% minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2050 miðað við losunina árið 1990. Það verður ekki létt verk fyrir Ísland að uppfylla þessi skilyrði miðað við stöðuna í dag. Þörf er á allsherjar átaki hér heima.

Í heimildarmynd National Geographic sjónvarpsstöðvarinnar, Six degrees could change the world, Sex gráður gætu breytt heiminum, fjallar á afar áhrifaríkan hátt um hugsanlega hnattræna hlýnun. Dregnar eru skýrar línur vegna mögulegra afleiðinga og sterkt myndmál notað til að lýsa aðstæðum. Gerð er grein fyrir þeim breytingum sem hver gráða af hærri meðalhita hefur í för með sér, allt frá einni gráðu uppí sex gráður. Afleiðingarnar eru allsherjar náttúruhamfarir, stórfelldar breytingar á umhverfi og veðurfari og gríðarleg eyðilegging á lífríkinu. Ljóst er að ef svartsýnustu spár verða að veruleika mun mannkynið ekki lifa af.

Verulegar loftslagsbreytingar eru staðreynd. Þær gerast hratt og mannkynið mun fljótt upplifa gjörbreytta tíma og ferðast um ókannað umhverfi. Ennþá er hlýnunin þó ekki stjórnlaus, þ.e. hún hefur ekki náð þeim punkti þegar ekki verður aftur snúið. Þetta er sú áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir. Að snúa þróuninni við áður en sá tímapunktur kemur að ekki verði aftur snúið. Tíminn til að bregðast við er því núna.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband