Iceland Warming

Jörðin

Verið velkomin á þetta vefsvæði sem ég vil tileinka einu mikilvægasta viðfangsefni samtímans, hlýnun Jarðar eða Global Warming. Hér verða ýmsar hugleiðingar og vangaveltur en einnig áhugaverðir tenglar vítt og breitt um heiminn. Mörgum spurningum er enn ósvarað þrátt fyrir að ítarlegar rannsóknir hafi verið gerðar um áhrif hnattrænnar hlýnunar á veðurfar, umhverfi, gróður, uppskeru, stærð jökla, sjávarhæð og dýralíf á Jörðinni. 

Niðurstöður viðurkenndra rannsókna eru samhljóða um að stórfelldar breytingar eru að verða á loftslagi Jarðarinnar. Breytingar sem munu gera það að verkum að skilyrði fyrir lífi á Jörðinni versna. Lífsgæðum mannkyns hrakar og ef ekki verður brugðist við með ábyrgum og afgerandi hætti, gæti farið svo að mannkynið eigi ekki öruggt athvarf í framtíðinni. 

Heimili mannkyns, Jörðin, eina heimili þess er því í hættu. Bregðast verður strax við því ljóst er að allt daglegt amstur og lífsgæðakapphlaup er til einskis háð ef illa fer fyrir því samfélagi manna sem nú byggir Jörðina.

Flestir eru nú sammála um að loftslagsvá er yfirvofandi og vaxandi vandamál um heim allan. Umhverfismál eru því orðin að einu helsta viðfangsefni stjórnmálanna. Málaflokkur sem lengi hefur tilheyrt þeim sem verið hafa á vinstri væng stjórnmála. Málaflokkur sem hefur þótt "mjúkur" og oft verið stillt upp sem andstæðu gegn hinum "hörðu" kapítalísku hagkerfum. En grænt umhverfisvænt hagkerfi þarf alls ekki að vera andstæðingur kapitalisma.

Enn eru samt allmargir sem efast um trúverðuleika og sannleiksgildi þeirra alþjóðlegu rannsókna sem framkvæmdar hafa verið, m.a. af Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Hér til hliðar má nálgast skýrslu nefndarinnar, undir tenglinum Climate Change Synthesis Report, en skýrslan samanstendur af niðurstöðum þúsundum vísindamanna um allan heim.

Í þessari umræðu er mikilvægt að horfa á hið stóra samhengi hlutanna og því kunna sumar spurninganna að virka fjarstæðukenndar og svörin fjarlæg, en í þessu máli sem og öðrum er þekkingin lykillinn. Fordómalaus umræða, fræðsla og traust á vísindalegum staðreyndum eru forsendur árangurs. Því meira sem við vitum um umhverfið og náttúruna, því reiðubúnari erum við til að taka upplýstar ákvarðanir. 

Við verðum því að byrja snemma og umhverfisfræði ætti að vera kennd samhliða líffræði og landafræði í grunnskólum. Því fyrr sem við lærum að meta og skilja umhverfið og það furðuverk sem náttúran er, því fyrr mun almenn hugarfarsbreyting geta átt sér stað. En hún er nauðsynleg til að ná samstöðu umhvernig bregðast skuli við. 

Hugarfarsbreyting er það sem þarf til þess að snúa þróuninni við. Virkileg hugarfarsbreyting verður ekki nema með mikilli fræðslu um hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga og hlýnunar Jarðar. Víðtæk þekkingarsköpun og þróunarvinna um nýtt grænt hagkerfi þarf einnig að fara fram og verða í forgangi í framtíðarsýn samfélaga, fyrirtækja, stofnana og heimila.

En hver eiga viðbrögðin að vera við þeim umhverfisskaða og loftslagsvá sem hlýnun Jarðar mun hafa í för með sér? Hver verða áhrif loftslagsbreytinganna á Íslandi? Hver verða áhrifin á daglegt líf Íslendinga? Verða þau fremur efnahagsleg en landfræði-, umhverfis- eða veðurfarsleg? Nú þegar hafa olíuverð og áburðarverð hækkað sem haft hefur hagræn áhrif hér á landi og bein áhrif á fjármál heimilanna. Mun landið sjálft breytast, fjörur færast og fjörðum fjölga? Hvar munu strendur Íslands liggja um miðja 21. öldina?

Kannski finnum við hér einhver svör við þessum spurningum en líklega koma jafnharðan upp nýjar og krefjandi spurningar. Ég hvet alla sem áhuga hafa að gera athugasemdir við greinar eða senda mér spennandi tengla og pistla um þetta ögrandi málefni.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Camilla

Frábær grein um alvarlegt málefni sem snertir okkur öll! Skilur eftir sig margar spurningar sem vert er að leita svara:) Flott hvernig þú setur þetta upp og alltaf ertu góður í að koma málum sem þessum í orð:)

knús:)

Steinunn Camilla, 5.4.2008 kl. 00:40

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband