Ellefta stundin

The 11th Hour
Markmið heimildarmyndarinnar The 11th Hour, eða Ellefta stundin, er að rannsaka ástand mannkyns undir ógninni af yfirvofandi loftslagsvá. Hvaða hindranir eru í vegi og hvaða leiðir eru mögulegar til úrbóta? Margir af virtustu vísindamönnum, hönnuðum, sagnfræðingum og hugsuðum okkar tíma koma fram í myndinni, meta stöðuna og leggja fram hugmyndir að lausnum. Myndin er framleidd af Leonardo DiCaprio.

Leitað er svara við þeirri spurningu hvers vegna mannkynið virðist vera á góðri leið með að valda óafturkræfu stórslysi á náttúrunni og hvaða leiðir eru færar til að afstýra því slysi. Farið er yfir stutta sögu mannkyns í samhengi við u.þ.b. fjögurra milljarða ára sögu lífs á Jörðinni og skoðað er hvað framtíðin kann að bera í skauti sér, fyrir mannkynið annars vegar og náttúruna hinsvegar.

Myndin er stórmerkilegt, upplýsandi og nauðsynlegt innlegg í þann suðupott sem umræðan um hlýnun Jarðar er. Sjónrænt er hún mjög áhrifarík, þrátt fyrir að hún byggist að miklu leyti upp á einföldum viðtölum. Fjölbreytt og öflugt myndmál er notað til að styðja við frásögnina. Ekki spillir frábær tónlist sem m.a. er úr smiðju Sigur-Rósar.

Frásögnin í myndinni hverfist um umhverfismál og loftslagsvandann og skilur jafnvel eftir fleiri spurningar en hún svarar. Lausnir á vandanum eru ekki einfaldar né auðsóttar en eru samt margar nú þegar uppá borðinu og tiltækar, bíða framkvæmda. Yfirgripsmiklar staðreyndir eru settar fram um ástand náttúrunnar og loftslagsins. Þetta er mikilvæg þekking sem ekki er hægt að líta framhjá undir neinum kringumstæðum. Þekking sem t.d. stjórnmálamenn hafa siðferðislega skyldu til að bregðast við.

Sterk og sannfærandi rök eru færð fyrir helstu breytum og áhrifavöldum loftslagsvandans og niðurstaðan er mjög skýr. Bregðast þarf strax við svo ekki fari illa. Bregðast þarf við með mjög víðtækum ráðum á hnattrænum vettvangi og á flestum sviðum samfélagsins. Nýir orkugjafar þurfa að mótast. Nýtt hagkerfi þarf að þróast. Ný hugsun þarf að fæðast.

Vandamálin sem mannkynið stendur frammi fyrir eru ekki vísindaleg, tæknileg né efnafræðileg heldur eru þau fyrst og fremst menningarleg og hugarfarsleg. Stærstu vandamálin eru hugsunarháttur mannsins og það pólitíska og félagslega skipulag sem þjóðir og samfélög hafa komið sér upp. Skipulag sem að mestu leyti byggist á neyslu, peningum, völdum og efnishyggju. Það eru stærstu hindranirnar, að breyta hugarfari og menningu þjóða og þeim hraða takti sem maðurinn gengur eftir.

Að koma á jafnvægi á milli manns og náttúru er ekki afturför til fortíðar heldur lífsnauðsynleg framför, raunsæ og rökrétt þróun. Þetta nýja náttúrulega jafnvægi þarf ekki að vera hallærislegt eða gamaldags, heldur getur orðið hátæknilegt og nútímalegt. Grænt hagkerfi býður uppá óendanlega nýja möguleika og ekki síst spennandi viðskipta- og vöruhugmyndir.

Neyslu- og græðgissamfélag nútímans er tímaskekkja og getur aldrei orðið annað en tímabundið ástand. Núverandi menning flestra samfélaga leggur eignarhald manna á náttúrunni til grundvallar. Maðurinn ræður og drottnar. Landssvæði og auðlindir ganga kaupum og sölum og nýting er í þágu hagsældar fárra einstaklinga á kostnað náttúrunnar. Er þetta rétt hugsun? Getur þetta gengið til framtíðar? Varla. Ætti mannkynið ekki frekar að vera í þjónustu náttúrunnar, með auðlindir og land að láni, ef ekki frá framtíðarkynslóðum, þá að láni frá náttúrunni sjálfri?

Maðurinn er óaðskiljanlegur hluti náttúrunnar og geymir í raun frumeindir allt frá upphafi lífs í líkama sínum. Í genum mannsins leynist saga lífsins. Mannkynssagan. En staðreyndin er samt sú að 99,9999% af öllum tegundum lífs á Jörðinni frá upphafi eru útdauðar. Það eru því ekki miklar líkur á því að mannkynið lifi af og sérstaklega þar sem mannkynið er ofarlega í fæðukeðjunni er það í áhættuhópi; útrýmingarhættu. Í því samhengi er útlitið dauft. En okkar kynslóð getur samt reynt að tefja þetta ferli, hlustað á vísindin og tekið mark á neyðarkalli náttúrunnar.

Maðurinn þarf enn á ný að enduruppgötva tilvist sína og endurhanna samspil sitt við náttúruna. Skapa þarf vistvænt, sjálbært hagkerfi sem byggir ekki á jarðefnaeldsneytum sem orkugjöfum heldur endurnýjanlegum orkugjöfum. Sólin er helsti lykillinn að nýjum orkugjöfum og reyndar að öllu lífi á Jörðinni í gegnum ljóstillífun. Margar nýjar lausnir snúast um beislun á kröftum sólarljóssins en nýting vatnsorku er líka það sem horft er til í auknum mæli og þar geta Íslendingar lagt lóð á vogarskálarnar.

Nýja vistvæna hagkerfið þarf að snúa við dauðadæmdri þróun einnar tegundar svo hægt verði að hverfa frá undirbúningi jarðarfarar mannsins. Þetta snýst því ekki um að bjarga Jörðinni heldur mannkyninu og ef maðurinn getur verið upphaf vandans hlýtur hann líka að geta verið uppspretta lausnarinnar.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband