Heilbrigðisvottorð Samfylkingar

johanna5

Samfylkingarfélagið í Reykjavík hefur, á þeim tæplega tíu árum sem félagið hefur starfað, staðið fyrir fjölmörgum fundum um þjóðfélagsmál. Fundirnir eru haldnir á miðvikudagskvöldum í húsakynnum Samfylkingarinnar við Hallveigarstíg í Reykjavík. Fundirnir eru jafnan vel sóttir og skapast líflegar umræður um málefni líðandi stundar og þau mörgu hugðarefni sem brenna á félagsmönnum.

Stundum eru umfjöllunarefni fundanna léttvæg og vekja litla eftirtekt annarra en félagsmanna. Yfirleitt hafa fundirnir þó fjallað um brýn og oft flókin verkefni stjórnmálanna, hvort sem um ræðir borgarmál, málefni á landsvísu eða heimsviðburði. Frá haustinu 2008 hefur áhugi og fundasókn aukist til muna, en þess má geta að fundirnir eru yfirleitt opnir og allir velkomnir.

Umræðuefni félagsfunda vekja þannig mismikla athygli og fanga sjaldan áhuga fjölmiðla innanlands, hvað þá heimspressunnar. Á þessu eru þó undantekningar líkt og sú gríðarmikla umfjöllum sem fundur haldinn miðvikudagskvöldið 21. janúar í Þjóðleikhússkjallaranum hlaut.

I. KAFLI  

Tilgangur Samfylkingarfélagsins í Reykjavík

Samfylkingarfélagið í Reykjavík er eitt af fimmtíu aðildarfélögum Samfylkingarinnar á landsvísu. Um tilgang félagsins segir í lögum þess: "Tilgangur félagsins er að vera vettvangur einstaklinga sem standa að Samfylkingunni í Reykjavík, til umræðna og ályktana um félagshyggju, jafnaðarstefnu og kvenfrelsi. Jafnframt skal félagið vera bakhjarl og samráðsaðili kjörinna fulltrúa og frambjóðenda til Alþingis og sveitastjórna á vegum Samfylkingarinnar í Reykjavík. Verkefni félagsins er m.a. að stuðla að sameiningu samfylkingarfólks í Reykjavík í eitt vel skipulagt félag."

Stjórn félagsins annast undirbúning félagsfunda en nýtur liðsinnis fjölda frummælenda með sérþekkingu sem endurspegla viðfangsefni dagsins. Fundir hafa auk þess reglulega verið skipulagðir í samstarfi við Unga jafnaðarmenn, borgarmálaráð og þingflokk Samfylkingarinnar. Borgarfulltrúar og þingmenn eiga að sækja alla félagsfundi en helsta markmið þeirra er að tengja saman almenna flokksmenn og kjörna fulltrúa svo milliliðalaus skoðanaskipti geti átt sér stað. Fundirnir eru auk þess hugsaðir sem vettvangur til þess að uppfræða kjörna fulltrúa og félagsmenn um tiltekin málefni en ekki síður fræða fulltrúana um viðhorf eða áhyggjur félagsmanna.

Samfylkingarfólk hefur tekið boðinu vel um opið samtal við fulltrúa sína á þjóðþingi og í borgarstjórn og fjölmennt á fundina, lýst hugsunum eða draumum, gremju eða ánægju og stundum hrósað eða skammað. Tilgangurinn er þó fyrst og fremst að ræða, þroska og móta stefnuna í viðkomandi málum og jafnvel álykta um breytingar og umbætur. Fundirnir skapa gagnvirkan vettvang innan flokksins fyrir mikilvæga þjóðfélagsumræðu og eru andleg næring fyrir þá sem lifa og hrærast í pólitík. Gagnvirknin er ekki síður fólgin í því að veita kjörnum fulltrúum aðhald við störf sín.

Lýðræðisvakning eftir bankahrunið

Eftir bankahrunið í lok september varð mikil vakning í samfélaginu. Enginn hefur farið varhluta af umræðunni og líklega hafa flestir landsmenn tekið þátt með einum eða öðrum hætti. Krafan um réttlæti, reikningsskil og greiningu á vandanum er sanngjörn og opin umræða um stjórnskipan og stjórnarskrána er mikilvæg.

Margir hafa myndað sér sterka skoðun á stjórnmálum og málefnum samfélagsins. Mótmælin hafa verið einstök, söguleg og áhrifamikil. Þeir sem hafa staðið á Austurvelli laugardag eftir laugardag og látið skoðun sína í ljós með friðsömum hætti eiga hrós skilið. Vel heppnaðir og kröftugir borgarafundir hafa sýnt og sannað að áhugi fjölmargra landsmanna á verulegum umbótum er raunverulegur. Hápunktinum var svo náð í fjórðu viku ársins, byltingarvikunni miklu. Krafan um kosningar var þá orðin svo öflug og hávær að enginn gat skellt við skollaeyrum.

Samfylkingarfélagið í Reykjavík hefur reynt að koma til móts við þessa miklu umræðuþörf með miðvikudagsfundunum. Frá því í haust hafa allir fundir snert efnahagsvandann beint eða óbeint og frá ýmsum sjónarhornum. Stjórn félagsins hefur oft þurft að bregðast skjótt við og áætlanir frá því í sumar voru lagðar til hliðar. Félagsfundir vetrarins eru orðnir fimmtán talsins. Hér er yfirlit yfir félagsfundi síðan vetrarstarfið hófst haustið 2008:

Hugsa fyrst, kaupa svo! Neytendaherferð Ungra jafnaðarmanna hófst á fyrsta félagsfundi haustsins sem haldinn var 24. september. Garðar Stefánsson verkefnastjóri, kynnti herferðina sem síðar var auglýst víða um land og í framhaldsskólum. Fundurinn var haldinn í samstarfi við Hallveigu - unga jafnaðarmenn í Reykjavík.

Hvað er í fjárlagafrumvarpinu? var heitið á félagsfundi sem haldinn var 1. október. Gunnar Svavarsson formaður fjárlaganefndar og Steinunn Valdís Óskarsdóttir þingkona sátu fyrir svörum um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2009. Reyndar átti frumvarpið eftir að breytast verulega næstu vikurnar. Gunnar sagði á fundinum að frumvarpið væri í raun fornleifar, því nokkrum dögum áður hafði Glitnir verið þjóðnýttur og hrunið hafist af fullum þunga.

Atburðir síðustu daga var yfirskrift fundar um hrun fjármálakerfisins og hremmingar haustsins sem haldinn var 15. október. Gestir fundarins voru þingmenn og borgarfulltrúar sem hittu félagsmenn til þess að ræða atburðina í kjölfar falls bankanna. Frummælendur voru Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar, Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi, Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi og Helgi Hjörvar alþingismaður. Á þessum tímapunkti var ljóst að staðan var gríðarlega alvarleg. Þungt hljóð var í félagsmönnum og miklar áhyggjur af stöðu heimila og fyrirtækja komu fram. Nauðsynlegar björgunaraðgerðir voru ræddar.

Verjum heimilin. Fundur um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í kjölfar bankahrunsins, sem fyrst átti að halda 8. október, var haldinn sunnudaginn 19. október fyrir fullu húsi í aðalsal Grand hótels. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, ávarpaði félagsmenn eftir heimkomu frá Bandaríkjunum. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra fóru yfir stöðuna, aðgerðir ríkisstjórnarinnar og atburði síðustu vikna. Fundarstjóri var Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður. Fjallað var um neyðarlögin og hvernig bankastarfsemi og greiðslukerfum var haldið gangandi eftir hrunið. Á fundinum komu fram skýrar kröfur um að eitt fyrsta skrefið í endurreisninnni væri yfirlýsing um umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Hvað er framundan? var heiti félagsfundar um efnahagsmál sem haldinn var 22. október. Frummælendur voru Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur og Ólafur Ísleifsson lektor í viðskiptadeild HR. Fundarstjóri var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur og varaformaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Í máli frummælenda kom vel fram hversu alvarlegt ástandið var orðið og hve svört kreppan framundan yrði. Segja má að hvert sjokkið á fætur öðru hafi þarna dunið á fundarmönnum sem héldu orðlausir heim á leið.

Ályktun um efnahagsástandið

Daginn eftir þennan þungbæra fund, fimmtudaginn 23. október, var stjórn félagsins boðuð á aukafund til þess að ræða viðbrögð við félagsfundum liðinna vikna. Ákveðið var að álykta um þá grafalvarlegu stöðu sem upp var komin í Íslensku samfélagi. Braut stjórnin þannig blað í starfsemi félagsins; fram til þessa hafði ekki verið hefð fyrir ályktunum stjórnar.

Ályktunin var send til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar, ásamt yfirlýsingu um eindreginn stuðning við hana og forystu flokksins. Stjórn félagsins taldi ályktunina endurspegla vel þau sjónarmið sem fram höfðu komið á félagsfundum haustsins en á þeim tíma voru efnistök hennar nokkuð viðkvæm og sum atriðin höfðu ekki verið rædd opinberlega. Hér birtist ályktunin í heild sinni:

"1. Efnahagskerfi landsins er hrunið. Ástand efnahagsmála þjóðarinnar í dag er afleiðing alvarlegra mistaka við hagstjórn síðustu ára. Ríkisstjórnin ber pólitíska og siðferðilega ábyrgð á stöðu þjóðarbúsins og því verður hún að axla þá ábyrgð án tafar og bregðast við ástandinu með  öllum tiltækum ráðum. Brýnt er að komast hjá frekara hruni og bjarga því sem bjargað verður svo rýrnun þjóðarverðmæta verði stöðvuð. Aðgerðarleysið leiðir þjóðina til glötunar. Lögmál markaðshyggjunnar munu ekki leysa þetta vandamál. Tími félagshyggju og jöfnuðar verður nú að  renna upp á Íslandi. 

2. Tilraun Seðlabankans með peningamálastefnu hefur mistekist. Síðustu ár hefur ríkisstjórnin og Seðlabankinn haldið úti peningamálastefnu sem nú hefur beðið skipbrot. Íslenska þjóðin ætti ekki að bera ábyrgð á þessari alvarlegu niðurstöðu eftir misheppnaða tilraun með fljótandi örgjaldmiðil.

Allnokkrir einstaklingar bera hinsvegar ábyrgð og þeim ber að axla þá ábyrgð nú þegar. Bankastjórn  Seðlabankans þarf að víkja svo endurvekja megi trúverðugleika bankans. Það stríðir gegn réttlætiskennd þorra þjóðarinnar að engin breyting hafi verið gerð á yfirstjórn bankans. Seðlabankinn stóð ekki undir nafni sem bakhjarl íslensku viðskiptabankanna. Þetta þarf að viðurkenna nú þegar svo sömu mistökin verði ekki gerð aftur við endurreisn hagkerfisins.  

Lögbundið eftirlit Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins var ófullnægjandi. Nú þarf að gera upp verkefnið í heild sinni með heiðarlegum hætti og viðurkenna vandamálið og skipbrot stefnunnar. Markmiðið hlýtur að vera að koma upp víðtæku, sanngjörnu og nákvæmu regluverki á fjármálamarkaði. 

3. Hlutverki krónunnar er lokið. Ráðamenn þjóðarinnar verða að horfast í augu við algjört fall  gjaldmiðilsins og viðurkenna að upptaka evru sem gjaldmiðils til langrar framtíðar er eina raunhæfa  lausnin. Fyrst í gegnum svokallaða biðstofu myntsamstarfs Evrópusambandsins. Síðar með fullri aðild að Evrópusambandinu. Krónan er ónýt, gildi hennar er ekkert og hún verður ekki endurreist. 

4. Samning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn strax. Endurvekja þarf nú þegar trúverðugleika Íslands í samfélagi þjóðanna. Nú má engan tíma missa. Ríkisstjórnin verður að semja strax við IMF. Þetta er eina leiðin til að koma á gjaldeyrisviðskiptum til skemmri tíma litið og raunverulegum viðskiptasamböndum til lengri tíma litið. Án gjaldeyrisviðskipta mun landið einangrast með  skelfilegum afleiðingum. 

5. Reikningsskil. Svo þjóðin geti haldið ró sinni, andlegu jafnvægi og tekið höndum saman við  uppbygginguna verður ríkisstjórnin að tryggja það með formlegri tilkynningu og jafnvel með  lagasetningu að rannsakað verði hverjir bera ábyrgð á falli bankanna. Hverjir bera fjárhagslega, lagalega og siðferðilega ábyrgð? 

Sannleiks- og sáttanefnd með aðkomu óháðra, erlendra aðila er forsenda þess að þjóðin treysti  stjórnvöldum til þess að stýra verkefninu áfram í réttlátan farveg. Þung reiðialda fer um þjóðfélagið allt. Formleg tilkynning um réttlátt, gagnsætt og opinbert uppgjör mun auka sjálfsvirðingu þjóðarinnar. Virðing alþjóðasamfélagsins mun fylgja í kjölfarið.

Sem forsætisráðherra og sem fyrrverandi fjármálaráðherra ber formaður Sjálfstæðisflokksins ábyrgð á þeim efnahagshamförum sem þjóðin tekst nú á við. Getur Samfylkingin setið í skugga  Sjálfstæðisflokksins við þessar aðstæður? Hver eru sársaukamörk ríkisstjórnarsamstarfsins? Hversu  mikil þjóðarverðmæti mega brenna áður en Samfylkingunni er nóg boðið? 

Kjörnir fulltrúar eru kallaðir til ábyrgðar í kosningum. Þjóðin mun ekki sætta sig við að þeir sem hafa tekið rangar ákvarðanir axli ekki ábyrgð fyrr en eftir þrjú ár. Ef biðjast þarf afsökunar á mistökum eða rangri forgangsröðun á það ekki að þvælast fyrir framgangi stefnumála eða að ráðist verði í endurreisn samfélagsins. 

Krafa kjósenda er sú að um leið og aðstæður leyfa verði gengið til kosninga. Skýrt umboð frá þjóðinni þarf að liggja fyrir um hverjir stjórna skuli uppbyggingunni. Konur verða að gegna auknu hlutverki í nýrri forystusveit Íslands. 

6. Viðræður um aðild að Evrópusambandinu nú þegar. Nú þarf að horfast í augu við  raunveruleikann, taka af skarið og gera strax skýra kröfu um að Ísland sæki nú þegar um aðild að Evrópusambandinu. Samfélagið þarf að opna. Ekki má loka á möguleika komandi kynslóða til menntunar, atvinnu og viðskipta við aðrar þjóðir. Forysta Samfylkingarinnar á ekki að vera hrædd við að standa eða falla með einu mikilvægasta stefnumáli flokksins. 

7. Siðferði. Samfylkingin þarf nú sem aldrei fyrr að halda á lofti umræðunni um siðferði í  stjórnmálum." 

Fleiri félagsfundir vetrarins

Opin hugmyndasmiðja með borgarfulltrúum var haldin 29. október í samstarfi við borgarmálaráð. Yfirskrift smiðjunnar var Atvinna, menntun, velferð og lífsgæði - úr vörn í sókn í Reykjavík. Fundarmönnum var skipt í fjóra hópa þar sem hvert málefni var krufið og rætt. Framtíð borgaranna og heimila í kjölfar hrunsins var í forgrunni. Niðurstöður hópavinnunnar voru síðan kynntar og ræddar. Stjórnandi hugmyndasmiðjunnar var Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi.

Áfram stelpur! Fundur um efnahagsmál framtíðar og þátt kvenna í uppbyggingu samfélagsins var haldinn 5. nóvember. Gestur fundarins, Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, flutti ávarp. Frummælendur voru Elín Blöndal prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst, Guðbjartur Hannesson alþingismaður, Hallgrímur Helgason rithöfundur og Lilja Mósesdóttir prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Fundarstjóri var Steinunn Valdís Óskarsdóttir þingkona. Fundurinn var haldinn í samstarfi við Kvennahreyfingu Samfylkingarinnar.

Verðtryggingin. Félagsfundur um verðtryggð íbúðalán sem haldinn var 12. nóvember. Frummælendur voru Sigrún Elsa Smáradóttir borgarfulltrúi og Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands. Fundarstjóri var Guðlaugur Kr. Jörundsson varaformaður Hallveigar - ungra jafnaðarmanna í Reykjavík en fundurinn var haldinn í samstarfi við Hallveigu. Félagsmenn létu í ljós miklar áhyggjur af skuldasöfnun heimilanna í því ástandi sem ríkti og sérstakar áhyggjur komu fram vegna ungra fjölskyldna sem sætu uppi með dýrar og mikið veðsettar eignir.

Siðferði í stjórnmálum var yfirskrift félagsfundar sem haldinn var 19. nóvember. Þar flutti Jón Ólafsson heimspekingur og prófessor við Háskólann á Bifröst erindi um siðferði stjórnmálamanna og þá menningu sem ríkir í stjórnmálastarfi og stjórnmálaflokkum á Íslandi. Fundarstjóri var Helga Vala Helgadóttir laganemi og stjórnarmaður í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík.

Staðan hjá fólkinu í borginni. Umræðufundur sem haldinn var í Ölduselsskóla í Breiðholti þann 25. nóvember. Fram fóru hringborðsumræður með þátttöku ungmennaráða, eldri borgara, foreldra, Íþrótta- og tómstundaráðs, íþróttafélaga, þjóðkirkjunnar, þjónustumiðstöðva, skóla, Samfoks, íbúasamtaka og annarra félagasamtaka. Fulltrúar Samfylkingarinnar í hverfisráði Breiðholts, þau Falasteen Abu Libdeh og Stefán Jóhann Stefánsson tóku á móti fundargestum og borgarfulltrúarnir Björk Vilhelmsdóttir og Oddný Sturludóttir stjórnuðu umræðum. Erfið staða fólksins í borginni var rædd af hreinsskilni og var góður rómur gerður af frjálslegu og aðgengilegu skipulagi fundarins.

Spurt og svarað. Stjórnmálaumræða með þingmönnum Reykjavíkur sem fram fór 3. desember. Óvissan í þjóðfélaginu var á þessum tímapunkti litlu minni en áður og sögusagnir og draugasögur um ástandið gengu fjöllum hærra. Þingmenn Samfylkingarinnar, þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Ellert B. Schram, Helgi Hjörvar og Steinunn Valdís Óskarsdóttir sátu fyrir svörum um ástandið í þjóðfélaginu. Fundarstjóri var Ásgeir Beinteinsson skólastjóri og formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Sumum spurningum félagsmanna var svarað en öðrum ekki. Ljóst var að ástandið í þjóðfélaginu hafði lítið batnað og kallað var eftir frekari neyðaraðgerðum.

Árleg aðventugleði félagsins var haldin laugardaginn 10. desember. Þar fóru að venju fram óformlegar umræður um stjórnmál, lífið og tilveruna. Tveir höfundar eigin ævisagna, þau Hörður Torfason tónlistarmaður og Margrét Pála Ólafsdóttir skólastjóri lásu uppúr bókum sínum. Boðið var uppá ljúfar jólaveitingar. Var þetta jafnframt síðasti fundur ársins 2008. 

Palestína - Ísland var yfirskriftin á fyrsta félagsfundi á nýju ári þar sem fjallað var um hörmulega atburði á Gaza-svæðinu og deiluna fyrir botni Miðjarðarhafs. Fundurinn var haldinn 14. janúar og frummælendur voru Kristrún Heimisdóttir aðstoðarmaður utanríkisráðherra og Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndagerðarmaður. Fundarstjóri var Mörður Árnason varaþingmaður. Rætt var sérstaklega um samband Íslands og Ísraels en rík krafa var uppi í samfélaginu um að slíta ætti stjórnmálasambandi við Ísraela í kjölfar hernaðar þeirra á Gaza.

II. KAFLI 

Fundurinn í Þjóðleikhússkjallaranum 

Félagsfundur sem haldinn var miðvikudagskvöldið í byltingarvikunni bar yfirskriftinaSamfylkingin og stjórnarsamstarfið. Undirbúningur fyrir fundinn hafði staðið um nokkurt skeið og stjórn félagsins lengi skynjað mikilvægi þess að félagsmenn kæmu saman til að ræða gang samstarfsins. Fyrst var rætt um slíkan fund í nóvember. Aðgerðarleysið var hinsvegar ekki ásættanlegt deginum lengur.

Krafan um afgerandi breytingar var orðin verulega hávær meðal flokksmanna, fyrir utan þau miklu mótmæli viku eftir viku sem samfélagið allt varð svo áþreifanlega vitni að. Í byltingarvikunni fékk samfélagið smjörþefinn af því ástandi sem margar þjóðir heims þurfa að glíma við á hverju ári, sumar í hverjum mánuði og aðrar loga í endalausu ófriðarbáli. Í samanburði við þessar þjóðir ríkir hér friður; þarna mátti hinsvegar ekki miklu muna að sá friður væri úti.

Vegna áhuga sem skrifstofa flokksins skynjaði frá félagsmönnum og vegna áhuga fjölmiðla, sem ítrekað fjölluðu um fundinn á miðvikudeginum, var ákveðið að finna stærri fundarsal. Þjóðleikhússkjallarinn varð fyrir valinu eftir nokkra leit. Þess má geta að fundurinn var auglýstur með hefðbundnum hætti að hálfu félagsins, líkt og aðrir félagsfundir; með tölvupósti til félagsmanna og á heimasíðu flokksins. Fundurinn var kynntur þannig að hann væri sérstaklega ætlaður félagsmönnum.

Engin auglýsing var í dagblöðunum líkt og oft tíðkast þannig að um lágmarks kynningu var að ræða. Það gríðarlega fjölmenni sem birtist á tröppum Þjóðleikhússins og lokaði Hverfisgötunni, kom stjórn félagsins því algjörlega í opna skjöldu. Aldrei hefur fundur félagsins hlotið viðlíka athygli en auðvitað var það tímasetningin sem þarna skipti máli, mótmælin við suðumark og æpandi þörf fyrir að höggvið yrði á hnútinn án tafar.

Opinn fundur

Við upphaf fundarins þustu aðgerðarsinnar inn í fundarsalinn, gerðu nokkurn usla og höfðu hátt. Þetta upphlaup var ekki stöðvað heldur hlustuðu félagsmenn á mótmælendur kyrja í nokkurn tíma. Anna Pála Sverrisdóttir fundarstjóri og formaður Ungra jafnaðarmanna, gerði síðan grein fyrir því að slík truflun og frammíköll yrðu ekki liðin eftir að hún setti fund. Þetta var virt.

Stjórnin áttaði sig á því fyrr um daginn að erfitt yrði að loka fundinum þannig að aðeins félagsmenn kæmust inn, líkt og til stóð. Sérstök gæsla var þess vegna ekki við dyrnar og starfsmenn hússins lentu í stympingum sem stjórnin harmar mjög. Stjórnarmenn fóru út til þess að ræða við mótmælendur og gerðu þeim grein fyrir að fundurinn þyrfti að taka afstöðu til ályktunar, en það yrði ekki hægt ef mótmælendur stöðvuðu fundinn. Þetta róaði ástandið svo fundarfært varð.

Aðgerðarsinnar hurfu úr salnum og eftir sátu félagsmenn, fjölmiðlamenn og aðrir áhugasamir gestir. Fundarsalurinn og allur kjallarinn var orðinn troðfullur, hurðum lokað og Þjóðleikhúsinu læst. Fundurinn hófst á réttum tíma en fyrir utan ómuðu baráttusöngvar sem bárust inn í salinn og lituðu andrúmsloftið. Þeir sem inni sátu gerðu sér þó enga grein fyrir þeim mikla mannfjölda sem mótmælti fyrir utan og beið frétta.

Fundarstjóri óskaði eftir afstöðu fundarmanna til þess hvort loka ætti fundinum fyrir fjölmiðlum eftir framsöguræður. Yfirgnæfandi meirihluti fundarmanna vildi að fundurinn yrði allur opinn fyrir fjölmiðlum.

Kröfur um kosningar

Fundarstjóri kynnti þar næst Ásgeir Beinteinsson formann Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, sem greindi frá ályktun stjórnar félagsins frá 16. nóvember. Ályktunin varð fréttaefni á sínum tíma en í henni var skorað á þingflokkinn að beita sér fyrir alþingiskosningum sem fyrst á árinu 2009. Ásgeir óskaði eftir því að ályktunin yrði borin upp til atkvæða í lok fundar, með breytingum á orðalagi, þar sem aftur yrði skorað á þingflokkinn að beita sér fyrir kosningum sem fyrst, en í síðasta lagi í maí 2009. Afrit að ályktuninni var síðan dreift og fundarmenn höfðu tækifæri til að gera athugasemdir eða breytingatillögur.

Lúðvík Bergvinsson þingsflokksformaður tók svo til máls og fór yfir atburði síðustu mánaða, útskýrði áætlanir ríkisstjórnarinnar og taldi að kjósa þyrfti á árinu; slík krafa væri ekki óeðlileg eins og ástandið væri orðið. Hann sagði einnig að gera þyrfti mannabreytingar í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Fara þyrfti í aðgerðir svo stjórnarsamstarfinu yrði framhaldið en ekki væri ennþá útséð með hvort gengi að samræma hugmyndir stjórnarflokkanna.

Mörður Árnason varaþingmaður tók næst til máls og lýsti miklum efasemdum um stjórnarsamstarfið, sagði það skýra kröfu að kosið yrði sem fyrst og að í raun hefði pólitískt umboð ríkisstjórnarinnar hrunið með bönkunum í haust. Aðgerðir hefðu ekki skilað árangri og brýn mál hefðu dagað uppi. Þolinmæði flokksmanna væri á þrotum og stefna samstarfsflokksins hefði beðið skipbrot. Mörður hafði auk þess áhyggjur að grunnhugmyndir um Samfylkinguna og þær hugsjónir sem hún var stofnuð um hefðu farið forgörðum í stjórnarsamstarfinu.

Öfgalausar umræður

Þegar frummælendur höfðu lokið framsögu var mælendaskrá opnuð og fjöldi félagsmanna tók til máls og tjáði sig af hreinskilni um stjórnarsamstarfið. Mikil samstaða var meðal ræðumanna, viðbrögð fundarmanna afgerandi og verulegar og alvarlegar áhyggjur komu fram vegna samstarfsins. Mörgum þótti nóg komið og að samstarfinu ætti að slíta sem fyrst.

Hæfileiki forystumanna ríkisstjórnarinnar til að klára nauðsynlegar aðgerðir var ítrekað dreginn í efa og krafan um þingkosningar skýr. Allar umræður fundarmanna fóru vel fram, voru studdar sanngjörnum rökum og með öllu öfgalausar. Mikill einhugur einkenndi fundinn þótt andrúmsloftið væri þungt. Alvarleiki stöðunnar öllum ljós.

Í lok fundarins var ályktunin borin upp til atkvæða, en tvær samhljóða breytingatillögur höfðu borist sem báðar gerðu ráð fyrir að jafnframt yrði skorað á þingflokkinn að beita sér fyrir því að stjórnarsamstarfinu yrði slitið strax. Breytt ályktun var samþykkt samhljóða með dynjandi lófataki. Að fundi loknum steig formaður félagsins út á tröppur Þjóðleikhússins og las upp ályktunina við mikinn fögnuð mannfjöldans.

Ályktun fundarins

"Mikil ólga og reiði er í samfélaginu og krafan um kosningar er hávær. Samfylkingin sem  lýðræðislegur stjórnmálaflokkur má ekki skella skollaeyrum við eðlilegum kröfum þjóðarinnar um  virkt lýðræði. Með kosningum verður þjóðin þátttakandi í þeirri uppbyggingu sem framundan er.

Félagsfundur í  Samfylkingarfélaginu í Reykjavík skorar á þingflokk Samfylkingarinnar að beita sér  fyrir því að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks verði slitið strax og mynduð verði ný stjórn  fram að kosningum sem fram fari eigi síðar en í maí 2009. Traust almennings verður einungis  endurvakið með kosningum".

Tímamót?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar, hefur sagt að félagsfundurinn í Þjóðleikhússkjallaranum hafi í raun ekki markað nein sérstök tímamót í ríkisstjórnarsamstarfinu. Fundurinn hafi frekar verið til marks um að þolinmæðin væri á þrotum. Hugmyndir sem upp komu á fundinum hafi oft verið nefndar og ræddar bæði opinberlega og innan flokksins.

Þetta er alveg rétt og sýnir vel að flokksmenn og flokksfélög, þar á meðal Samfylkingarfélagið í Reykjavík, hafi frá því í haust haft verulegar áhyggjur af þeirri stöðu sem upp var komin í stjórnarsamstarfinu. Á þessum félagsfundi brast hinsvegar flóðgáttin svo ekki var aftur snúið. Að því leyti var um vatnaskil í ferlinu að ræða og fundurinn undirstrikaði vilja fjölda fólks.

Tímamótin sem fólust í fundinum í Þjóðleikhússkjallaranum voru því ekki vegna ályktunarinnar sem slíkrar, heldur umræðunnar á fundinum og skýrum viðhorfum fundarmanna. Umgjörð fundarins var líka sérstök; dynjandi trumbusláttur og söngur. Tímasetningin og umgjörðin voru staðfesting á því að mælirinn var fullur. Þolinmæði flokksmanna og fólksins á þrotum. Nokkrum dögum síðar kom í ljós að þolinmæði þingflokksins var einnig á þrotum og samstarfinu því sjálfhætt.

Að hápunkt byltingarvikunnar skuli hafa borið upp á sama kvöld, var í raun tilviljun, en samt staðfesting á því að stjórnmálahreyfingar og forysta þeirra verða ætíð að ganga í takt við fólkið, hlusta á vilja fjöldans og starfa náið með grasrótinni. Skynja taktinn í samfélaginu. Öðruvísi verða kjörnir fulltrúar, sem þiggja umboð sitt frá kjósendum, ekki sannir fulltrúar fólksins og geta hæglega tapað jarðsambandinu.

Andrúm og umræður á fundum Samfylkingarfélagsins í Reykjavík frá því í haust voru skýrt merki frá félagsmönnum. Stjórn félagsins var vel upplýst um gang mála og hafði óskoraðan stuðning félagsmanna. Fullviss um einhuginn í félaginu og að vel athuguðu máli, gat stjórnin því borið fram og staðið við ályktun fundarins um að stjórnarsamstarfinu ætti að slíta. Rökin voru augljós. Baklandið traust.

Miðvikudaginn 28. janúar var svo haldinn félagsfundur undir yfirskriftinni Ný ríkisstjórn í burðarliðnum þar sem þingmennirnir Helgi Hjörvar og Steinunn Valdís Óskarsdóttir svöruðu spurningum fundarmanna um atburði helgarinnar og aðdraganda stjórnarslitanna. Fundarstjóri var greinarhöfundur, Sigurður Kaiser hönnuður og stjórnarmaður í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík. 

Umræður voru afar góðar og hreinskiptnar og fjöldi fundarmanna tók til máls. Tilhlökkun og spenna var í félagsmönnum vegna nýrrar ríkisstjórnar og fengu þingmenn bæði hrós, góðar ábendingar og hugmyndir en líka áminningar vegna atburða liðinna mánaða. Félagsmenn kröfðust þess að þingmenn leituðu sem oftast samráðs og ræktuðu vel sambandið við grasrótina.  

III. KAFLI  

Samstilling flokksmanna og forystu

Fleiri aðildarfélög Samfylkingarinnar tóku undir ályktunina frá félagsfundinum miðvikudaginn 21. janúar í Þjóðleikhússkjallaranum, m.a. Ungir jafnaðarmenn og stjórnir Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og Kópavogi. Verulegar áhyggjur vegna stjórnarsamstarfsins komu fram á fundi Reykjavíkursamráðs fimmtudaginn 22. janúar og á fjölmennum fundi með formönnum aðildarfélaga flokksins laugardaginn 24. janúar var álíka samhljómur.

En svo farið sé lengra aftur í tímann, þá var mikil ólga meðal flokksmanna í aðdraganda flokksstjórnarfundar sem haldinn var í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ, laugardaginn 22. nóvember. Á þeim tíma var óvissan mikil í þjóðfélaginu og nýjar upplýsingar um hrunið komu fram daglega án þess að raunveruleg áætlun um endurreisn væri komin til framkvæmda.

Efasemdir um stjórnarsamstarfið voru töluverðar og flokksmönnum þóttu áherslur flokksins og grunnhugsjónir hafa gleymst í samstarfinu. Vandræðagangur Sjálfstæðisflokksins þurfti stöðugt meira skjól og þoldi ekki dagsljósið. Frekari meðvirkni var ekki réttlætanleg og andstæð þeim hugmyndum sem Samfylkingin var stofnuð um; siðbót í íslenskum stjórnmálum. Í umræðum á fundinum þar sem margir flokksmenn tjáðu sig opinskátt um ástandið og gagnrýndu stjórnarsamstarfið komu þessi sjónarmið vel fram.

Í bláum skugga

Ingibjörg Sólrún hefur lýst fundinum þannig að hún hafi í raun með handafli sannfært flokksstjórnarfulltrúa um að farsæl lausn mála væri ennþá möguleg. Að hún hafi haft vilyrði fyrir því að tekið yrði á málefnum Seðlabankans og öðrum lykilmálum. Beðið væri eftir viðbrögðum við tillögum Samfylkingar um aðgerðir og rétt væri að gefa samstarfsflokknum tíma, auk þess sem umræður um aðild að Evrópusambandinu voru loksins að hefjast fyrir alvöru. Forystan var því allan tímann heils hugar í samstarfinu og gerði hvað hún gat til þess að nauðsynlegar aðgerðir næðu fram að ganga.

Á flokksstjórnarfundinum færði Ingibjörg Sólrún þannig rök fyrir áframhaldandi samstarfi. Flestir fundarmenn féllust á rökin og samþykktu framhaldið, sumir með semingi. Aðrir voru ekki ánægðir og ljóst að ólgan kraumaði undir og átti eftir að stigmagnast á nýjan leik. Að þessu sögðu var ljóst að flokksmenn gengu undir þungum takti, sameinaðir þó, en áhyggjufullir og varkárir vegna stjórnarsamstarfsins. Fullt traust var áfram borið til forystunnar og formanns þó áskoranir og varnaðarorð flokksmanna væru vel þekkt.

Í þessu ljósi var spuni fyrrverandi forsætisráðherra um upplausn innan Samfylkingarinnar innistæðulaus; að flokkurinn væri í tætlum var smjörklípa. Það sem var í tætlum var trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar. Raunveruleg ástæða falls forsætisráðherra og óstjórnar hans var ótraust efnahagsstjórn og algjört kerfishrun. Þarf frekar vitnanna við? Kreppa allra tíma! Stórskuldug smáþjóð! Nei, þetta endaði með ósköpum og svarið var augljóst; stundaglas stjórnarsamstarfsins galtómt. Önnur vika í bláum skugga Sjálfstæðisflokksins hefði orðið samfélaginu dýrkeypt.

Verkáætlun uppá borðinu

Síðustu mánuði hefur töluvert verið fjallað um heilsu formannsins; að veikindi Ingibjargar Sólrúnar hafi klofið flokkinn og teflt mikilvægum aðgerðum í tvísýnu. Stöðvað framvindu verkefna. Andstæðingar hugsuðu sér gott til glóðarinnar og kokkuðu upp slúður um vandræði flokks og forystu. Slúðursúpan sú var ódýr og rammsölt. Vitanlega væri best ef formaður flokksins væri alltaf við hestaheilsu, en eins og Ingbjörg Sólrún hefur sjálf orðað það, er lítið annað hægt að gera en að taka veikindum eins og hverju öðru hundsbiti. Sem betur fer hefur hún nú fengið hinar bestu fréttir miðað við aðstæður og safnar kröftum til góðra verka.

Líklega er það rétt að umræðan um heilsu formanna beggja ríkisstjórnarflokkanna fyrrverandi tók tíma frá umræðunni um brýnni verkefni, en því fer fjarri að um tafir hafi verið að ræða vegna fjarveru Ingibjargar Sólrúnar. Tafirnar urðu fyrst og fremst vegna frestunaráráttu samstarfsflokksins, en víðtæk aðgerðaáætlun til að takast á við efnahagsvandann frá Samfylkingunni hafði verið uppá borðinu svo vikum skipti.

Þegar heill samfélagsins er undir má auðvitað ekki láta reka á reiðanum hversu góð eða slæm sem heilsa einstaka forystumanna kann að vera. Því kom aldrei annað til greina en að keyra neyðaraðgerðir áfram af krafti, en samstarfsflokkinn skorti kjarkinn. Verkstjórinn Geir Hilmar Haarde var með verkkvíða og því fór sem fór.

Endurmat er nauðsynlegt

Það er ekki til marks um upplausn að grasrótin í stjórnmálaflokki tjái viðhorf sín, láti í sér heyra, gagnrýni og áminni, hrópi eða hvísli, rífist jafnvel og rökræði. Það er þvert á móti styrkur að geta frjálslega tekist á við erfið málefni. Mismunandi og fjölbreyttar skoðanir eru nauðsynlegt frískleikamerki.

Á fundinum í Þjóðleikhússkjallaranum sýndi grasrótin mátt sinn og megin og tók faglega á flókinni stöðu. Forystan var auk þess upplýst um hvert skref við undirbúning fundarins og gerði engar athugasemdir við umgjörð hans né tímasetningu. Ekki var því á nokkurn hátt vegið að formanni þótt grasrótin bylti sér líkt og andstæðingarnir héldu stöðugt fram. Þannig opinbera margir þeirra hinsvegar þekkingarleysi sitt á lýðræðislegum vinnubrögðum; viðurkenna foringjadýrkun og þöggun sem eðlilega starfshætti. Líkt og um lokaðan einkaklúbb væri að ræða.

Að viðhalda valdakerfinu í þágu vina og sérhagsmuna hefur verið þeirra helsta markmið. Örvæntingafullir standa varðhundar þess kerfis nú berskjaldaðir; tilvera þeirra hrunin ásamt bönkunum. Hugmyndafræðin mygluð. Eftir slíkt áfall er beinlínis nauðsynlegt að horfast í augu við fortíðina og endurmeta lífsgildin af auðmýkt. Þeir ættu að sjá sóma sinn í að víkja til hliðar á meðan uppbyggingin er undirbúin. Batnandi mönnum er best að lifa.

Spillinguna burt!

Heilbrigt samband hvunndagshetja í flokkunum við hina háttvirtu kjörnu fulltrúa, er forsenda þess að hér verði almenn sátt um framhaldslíf flokkakerfis. Að öðrum kosti stendur það höllum fæti. Alræði forystumanna og einleikur valdhafa er ekki hugmyndin bakvið flokkakerfið og ætti að heyra sögunni til eftir hremmingar síðustu mánaða. Spillingu þarf að uppræta með öllum tiltækum ráðum!

Stjórnmálasamtök eru, eða eiga að vera, tæki fólksins til að gera umbætur á þjóðfélaginu og breyta því. Flokkar, þingræði og þrískipting valds er ríkjandi stjórnkerfi. Ef þjóðin vill breytingar þurfa landsmenn og þingmenn að sameinast um þær breytingar. Innan flokkanna sem og í samfélaginu öllu verður lýðræðið að vera æðsta valdið. Hugmyndir um stjórnlagaþing vegna grundvallarbreytinga á stjórnskipan lýðveldisins eru þannig verulega tímabærar. Fyrstu mál á dagskrá þingsins hljóta að verða skýrari aðskilnaður valds og styrking þingræðis Alþingis.

Virkt lýðræði

Um stefnumið Samfylkingarinnar segir m.a. í lögum hennar: "Hlutverk Samfylkingarinnar er að vinna að mótun íslensks samfélags byggðu á jafnaðarstefnu, félagshyggju, frelsi einstaklingsins, kvenfrelsi, jafnrétti borgaranna og samábyrgð. Samfylkingin er opin öllum sem styðja markmið hennar. Samfylkingin vill lýðræðislegt þjóðskipulag byggt á virkri þátttöku almennings, valddreifingu og virðingu fyrir mannréttindum."

Sú frjálsa og sjálfsagða umræða sem félagsmenn í Samfylkingunni og almenningur allur stundar nú dag hvern á fundum, vinnustöðum, heimilum, kaffihúsum, í skólum eða bara hvar sem er um allt samfélagið, er forsenda fyrir beinu og virku lýðræði - bæði innan stjórnmálaflokka og utan. Raddir fólksins eiga að hljóma og frjálsa tjáningu má aldrei þvinga né þagga niður.

Að lifandi umræða flæði um alla þræði Samfylkingarinnar, um allt taugakerfið, frá grasrót til forystu og aftur til baka er alls ekki veikleikamerki heldur vitnisburður um heilbrigði og styrk þeirrar skapandi breiðfylkingar sem Samfylkingin er og þarf að vera.

Rauðgræn grasrót

Hin nýja ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur hlýtur að nýta sér þau tækifæri sem felast í þeim mannauði og þeirri hugmyndaauðgi sem býr í flokksmönnum, grasrótinni og leggja þannig grunn að rauðgrænni framtíð. Hér með er skorað á kjörna fulltrúa stjórnarflokkanna beggja að leita reglulega til grasrótarinnar og þjóðarinnar allrar vegna brýnna samfélagsverkefna og mikilvægra ákvarðana. Aðeins þannig eflist lýðræðið.

Og þessari áskorun hefur þegar verið tekið, því á vel heppnuðu framtíðarþingi á Hressó, laugardaginn 7. febrúar, var grasrótin í aðalhlutverki. Skapandi umræður um brýnustu verkefnin voru uppbyggilegar og fjölmargar góðar hugmyndir fæddust sem nýtast munu við endurreisnina. Þarna sannaðist að óbeisluð orka býr í flokksmönnum, þeir eru hvergi af baki dottnir við að uppfylla raunverulegt erindi Samfylkingarinnar við íslenskt samfélag.

Höfundur er varaformaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík og í flokksstjórn Samfylkingarinnar. Greinin birtist fyrst á vefsvæði Samfylkingarinnar; samfylking.is þann 16. febrúar 2009.


Skapandi samfélag

Broadway1

melaskoli_2_768068.jpgVarúð! Áramótahugvekja þessi fjallar ekki um kreppu, bankahrun, peningabruna né Evrópusamruna. Nema þá að litlu leyti. Hún fjallar um annan kraft sem kraumar í samfélaginu; sköpunarkraftinn. Vanmetið hreyfiafl og umhverfisvænan orkugjafa sem þrífst án yfirbyggingar. Hingað til hefur samfélagið sparað sköpunarkraftinn, en á því er engin þörf, af honum er nóg til. Í upphafi árs og í breyttu umhverfi er hollt að horfa til frumlegra lausna og öðruvísi hugmynda, virkja hugarorkuna. Að hvaða sviðum samfélagsins þarf nú að beina kastljósinu?

Menntun er lykillinn

Margir meta stöðuna þannig að nú sé nauðsynlegt að styrkja menntakerfið, auka áherslu á nýsköpun og hinar svokölluðu skapandi atvinnugreinar, Creative Industries. Þetta er rétt mat. Undirstöður samfélagsins verða aldrei sterkari en þroski og þekkingarstig þjóðarinnar. Meiri menntun er lykillinn og ásamt skynsamlegri nýtingu auðlinda, náttúruvernd og fjölbreyttu hagkerfi getur landið risið á nýjan leik.

Kallað er á lausnir og aðgerðir hafa þegar verið kynntar sem eiga að stuðla að nýsköpun. Þessar lausnir eru hinsvegar að mestu tengdar atvinnuvegum sem þegar hafa nokkuð trygga fótfestu. Beinast helst að þeim hópum sem eru að stíga útúr háskólum og hafa tekið ákvörðun um sinn starfsvettvang.

Okkar góði iðnaðarráðherra hefur verið óstöðvandi í því að setja á stofn sjóði og veitur, safna í uppistöðulón, virkja sprota og veita frumkvöðlum tækifæri. Og hefur hlotið gómade_in_usa_2_768075.jpgðan stuðning annarra ráðherra. Þessi verkefni mynda brú frá vernduðu umhverfi háskólanna yfir á vinnumarkaðinn og skapa fjölda atvinnutækifæra. Ríkisstjórnin hefur þannig reynt að bjóða uppá nýjar leiðir til verðmætasköpunar við gjörbreyttar aðstæður þar sem áhættufjármagnið er víðsfjærri. Sérstakar heimildir eru nú fyrir hendi sem eiga að draga úr atvinnuleysi og brotthvarfi af vinnumarkaði. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Spurningin er hinsvegar hvort þetta muni skila árangri til lengri tíma litið?

Varanlegar lausnir

Hvernig getum við leyst sköpunarkraftana úr læðingi svo þeir nýtist samfélaginu til langframa en verði ekki aðeins bráðalausn í neyð? Hvernig verður orkan beisluð svo hún skili sér áfram útí hagkerfið sem raunverulegt fjármagn? Verði varanleg lausn. Ef rétt er á málum haldið, getur sá auður sem þarna leynist verið nægilegur til þess að renna fleiri stoðum undir efnahaginn og styrkja hagkerfið verulega. Breyttur veruleiki er óumflýmade_in_usa_768088.jpgjanlegur en sá veruleiki þarf að byggjast á sönnum verðmætum og fjölbreyttum lausnum. Sýndarheimur sá sem krónubóla nýfrjálshyggjunnar var, er algjörlega verðlaus og víti til að varast.

En hvernig förum við að - hvaða möuleikar eru fyrir hendi? Þurfum við ekki að hugsa út fyrir rammann og vera tilbúin að umbylta núverandi kerfum? Ein leiðin er klárlega í gegnum menntakerfið. Þær breytingar sem gerðar voru á lögum um skólastarf á síðasta þingi gefa góð fyrirheit og þónokkra möguleika. En er þar hugsað nægilega langt útfyrir rammann? Eða er verið að festa eldri hugsun í sessi? Er kerfið nægilega opið fyrir nýjungum? Er svigrúm fyrir skapandi hugsun nemenda og kennara? Er listgreinum veitt nægilegt rými?

Listfræðsla í skólunum

Hvar á að byrja - eigum við að stefna að fleiri skapandi stundum og listfræðslu í leikskóla? Því ekki það? Listnæmi ætti að þroska skipulega um leið og skólagangan hefst og í grunnskóla gæti kennslan alfarið snúist um listsköpun og lifandi hugmyndavinnu nokkrar vikur á hverjummhlxali.jpg vetri. 

Mikill sköpunarkraftur leynist líka í grunnskólanum. Þeir sem hafa upplifað hæfileikakeppnina Skrekk, sem Íþrótta- og tómstundarráð Reykjavíkur stendur fyrir árlega í samstarfi við grunnskóla borgarinnar, vita hversu mikil skapandi orka leysist úr læðingi á þeim vettvangi. Þarna stíga listamenn framtíðarinnar fyrst á svið. Flestar skapandi stundir eða listnám á grunnskólastigi eru ennþá hluti af frístundatíma nemenda. Drífum nú í því að sameina skólastarf og skipulagðar frístundir í heilstæðan skóladag. Þannig gæti listfræðslan orðið stærri þáttur í skólastarfinu og skapandi nemendur valið sér listgrein við hæfi, strax á grunnskólaaldri.

Skapandi sumarstörf Hins hússins eru annað verkefni Reykjavíkurborgar sem ætti að starfrækja árið um kring í samstarfi við skólana, elstu bekki grunnskóla og framhaldsskólana. Þarna er kominn vísir að listaskóla með fjölda námsbrauta. Margir starfandi listamenn hafa þar stigið sín fyrstu skref og fengið smjörþefinn af listrænu starfi. Verkefnið hófst fyrir fimmtán árum sem sumarlecirque_du_soleil_3_768101.jpgikhús, atvinnubótavinna eða nokkurs konar listræn bæjarvinna. Í stað þess að reita arfa, sópa götur eða gróðursetja tré, fengu nokkrir tugir ungmenna að starfa við sitt áhugasvið, leiklist, yfir sumarmánuðina. Síðan hafa fleiri listgreinar bæst við og verkefnið útskrifað hundruð upprennandi listamanna. Eftirspurn eftir því að fá að eyða sumrinu á þennan hátt er mikil.

Framhaldsskólastigið

Beinum kastljósinu að framhaldsskólastiginu þar sem fjölmargir einstaklingar taka ákvarðanir um starfsvettvang framtíðarinnar. Menntaskólar landsins eru orkustöðvar, hugmyndaveitur þar sem mótun lífsgilda og hugsunar á sér stað. Að grunnskóla loknum mæta nemendur færir í flestan sjó og opnir fyrir nýjum áskorunum. Hver og einn er þar á eigin forsendum, gömlu vinahóparnir oft fjærri góðu gamni og alvara lífsins færist nær. Þá gildir að úrval námsbrauta sé fjölbreytt. 

Og vissulega er úrvalið töluvert og stöðugt vaxandi. En er nægilega mikið úrval af skapandi námsbrautum? Er listgreinum gert nægilega hátt undir höfði? Tónlist, leiklist, danslist, myndlist, ritlist, kvikmyndagerð og hönnun. Nokkrir sjálfstæðir frístundaskólar eru starfandi sem sinna listgreinum. Þar fá nemendur einingar sem metnar eru til stúdentsprófs. Hér vantar þó sárlega opinberan listaskóla, skóla skapandi greina, á framhaldsskólastigi.

Dæmi eru auk þess um sjálfsprottið skapandi félagsstarf nemenda sem í mörgum tilfellum er framúrskarandi og gæti hæglega verið formlegur hluti af skólastarfinu. Í sumum skólanna fá nemendur meira að segja einingar fyrir þátttöku í slíku félagsstarfi. Því ekki að stíga skrefið til fulls og þróa þetta starf á vettvangi menntamálaráðuneytis?cirque_du_soleil_4_768122.jpg

Sem dæmi um merkilegt starf nemendafélaganna á þessu sviði má nefna að elsta leikfélag landsins Á herranótt starfar í Menntaskólanum í Reykjavík, Leikfélag og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð eru löngu landsþekkt og sama má segja um árleg Nemendamót Verzlunarskólans. Við þessi verkefni starfar fjöldi fagfólks sem leiðbeinendur. Einnig mætti nefna spurningakeppnina Gettu betur, Mælsku- og rökræðukeppni og Söngkeppni framhaldsskólanna. Fjöldi landsþekktra hljómsveita hefur auk þess sprottið uppúr starfi nemenda og orðið að framtíðarstarfsvettvangi þeirra.

Vissulega þarf á sama tíma að huga að sameiginlegri mótun og sterkri grunnmenntun en mundi fjölbreytileikinn ekki verða til þess að brottfall minnkaði? Sumir finna ekki sína köllun í menntaskóla og flosna uppúr námi. Ekki endilega vegna þess að þeir eru verri námsmenn en aðrir, heldur vegna þess að þeir finna ekki nám við hæfi. Með fjölbreytni á fyrri stigum skólastarfs virkjum við frumlega snillinga og hópa frumkvöðla sem væru tilbúnir á vinnumarkaðinn að framhaldsskóla loknum. Aðrir mundu skila sér í enn sérhæfðara háskólanám og yrðu þannig verðmæt auðlind fyrir samfélagið allt.

Nýjir menntaskólar

Í miðbæ Reykjavíkur og næsta nágrenni væri hægt að stofna nokkra sérhæfða menntaskóla. Þeir þyrftu ekki að vera fyrirferðamiklir, gætu að mestu fengið inni í húsnæði sem nú þegar er til staðar. Nóg er til af auðu húsnæði. Kannski frá tuttugu til tvöhundruð nemendur í hverjum. Lítil yfirbygging en sérstaða hvers og eins þeim mun meiri og dregin fram í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir á sama sviði. Ekki er hér verið að leggja til einkavæðingu skólanna, en heilbrigt samstarf við atvinnulífið þarf ekki að vera alslæmt. Starfsþjálfun og beintenging við fagið yrði þannig snar þáttur í skólastarfinu. Svo gætu þetta allt eins verið sérdeildir í þeim cirque_du_soleil_768120.jpgmenntaskólum sem nú þegar starfa. Sumir þeirra starfrækja vísa að skapandi deildum. Aðeins spurning um form.

Förum á hugarflug; Leiklistarskóli fyrir aftan Þjóðleikhúsið, í gamla Landssímahúsinu við Sölvhólsgötu þegar Listaháskólinn flytur á Laugaveg, danslistarskóli í gamla Morgunblaðshúsinu við Kringluna þegar HR flytur í Vatnsmýrina - rétt við Borgarleikhúsið þar sem Íslenski dansflokkurinn starfar, popptónlistarskóli á Höfðatorgi í samstarfi við Stúdíó Sýrland, nútímalistaskóli í Hafnarhúsinu í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur, myndlistarskóli í viðbyggingu við Kjarvalsstaði, rokktónlistarskóli við Hlemm plús, lúðrasveitarskóli í Hljómskálanum, fatahönnunarskóli við hliðina á Gallerí 17 á Laugavegi, jafnréttisskóli á Hallveigarstöðum og rithöfundaskóli, skóli skapandi skrifa, í Mosfellsdalnum við Gljúfrastein.

Opnum hugann enn frekar; Tölvuleikjaskóli í gamla Slysavarnarhúsinu á Grandagarði við hliðina á CCP, kvikmyndaskóli í gamla Héðinshúsinu, þar sem rjóminn af íslenskum kvikmyndum hefur verið myndaður, brúðugerðarskóli í Latabæ, íþróttakennaraskóli í Laugardal, þjálfaraskóli í kjarnanum við KR-völlinn, handboltaskóli við Valsvöllinn, keiluskóli í Öskjuhlíð, matreiðsluskóli í Perlunni, laxveiðiskóli í Elliðarárdal og verðbréfaskóli í gamla Landsbankanum (já eigum við ekki að kenna strákunum að höndla með verðbréf áður en bankarnir verða aftur einkavæddir).

Því ekki að fara svo hringinn og draga fram sérkenni hvers sveitarfélags fyrir sig? Sérhvert bæjarfélag gæti undirstrikað þá þekkingu sem til staðar er og miðlað reynslu; Sjávarútvegsskóli á Ísafirði, galdraskóli á ströndum, fornleifaskóli á Hólum, garðyrkjuskóli á Flúðum, ferðaþjónustuskóli á Arnarstapa, blómaræktunarskóli í Hveragerði, humarvinnsluskóli á Höfn, bæjarhátíðaskóli á Dalvík, jarðvarmaskóli í Krýsuvík, eldfjallaskóli í Vestmannaeyjum og flugskóli á Miðnesheiði. Og þannig mætti halda áfram. Margir þessa skóla gætu auk þess vakið áhuga erlendis og þannig nýst alþjóðasamfélaginu. Evrópusambandið mundi vitanlega styrkja slíkar menntastofnanir og námsmenn víða að mundu sækja hingað sérhæfða menntun og auðga samfélagið um leið.cirque_du_soleil_5_768123.jpg

Enginn framhjá vikt

Með nokkrum pennastrikum yrði þannig stórlega dregið úr brottkasti úr framhaldsskólum landsins og nemendur viktaðir á eigin forsendum. Enginn framhjá vikt. Þannig yrði rétt verðmæti hvers og eins reiknað og honum svo búið það starfsumhverfi sem hentar óháð kynferði eða kynhneigð, hæð eða þyngd, bróðerni eða þjóðerni.

Flest stórfyrirtæki landsins, já og heimsins, eru saga frumkvöðla, einstaklinga eða skapandi stjórnenda, sem vildu breyta umhverfi sínu og gripu tækifæri sem buðust. Auðvitað hefur markaðurinn síðan tekið vel á móti bestu hugmyndunum og gert þær að stórvirkum alþjóðlegum peningamaskínum. Ekkert segir að slíkt geti ekki gerst í meira mæli hérlendis.

Því getum við ekki átt okkar Kýsildal við Mývatn þar sem tölvusérfræðingar heimsins hanna nýjustu forritin. Er næsti Andy Warhol eða Bill Gates kannski búsettur á Íslandi? Hvað með finnska Nokia-símafyrirtækið? Þegar Nokia var búið að metta finnska markaðinn með gúmmistígvélum, dekkjum og sjónvarpstækjum fór það að hugsa hnattrænt og hóf framleiðslu á farsímum. Gæti þetta gerst hér? Er næsta nafnið í farsímaheiminum 66°North eða Cintamani? Verða það kannski fartölvur eða ferðasjónvörp? Gæti næsti tölvurisi komið frá Íslandi? Það þarf ekki nema einn frumkvöðul eins og Steve Jobs stofnanda Apple til að koma á fót alþjóðlegu stórveldi á sviði hátækni. Hvað með Google-gaurana og Facebook-fýrinn, gátu þeir ekki allt eins fæðst í blokk í Hlíðunum?

Og ekki voru það sænsku kjötbollurnar sem gerðu Ingvar Kamprad ríkan, svo ágætar sem þær eru. Nei það var hugmyndaflugið hans. Og ef hann hefði búið á Íslandi, farið einn góðan vecirque_du_soleil_6_768124.jpgðurdag í Miklagarð sáluga til að kaupa sér bókahillur og svo ekki komið þeim í bílinn sinn, þá hefði hugmyndin að Ikea húsgagnaversluninni allt eins getað kviknað við Holtagarðana. Hvað mundi sérhæfður frumkvöðlaskóli að sænskri fyrirmynd framkalla margar framúrskarandi hugmyndir með tilheyrandi verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið? Skapandi tækniskóli gæti líka fætt af sér alþjóðlegan hátækniiðnað og framleiðslu. Því ekki að framleiða sólarrafhlöður eða vistvænar ljósaperur hérlendis?

Bítlarnir frá Seyðisfirði

Gátu Bítlarnir ekki allt eins æft lögin sín í fjárhúsi á Seyðisfirði eins og í kirkju í Liverpool? Útflutningstekjur Breta af tónlist á sjöunda áratug síðustu aldar voru meiri en af öllum öðrum útflutningsgreinum. Allt sem hefði þurft, fyrir utan segulbandsstæki, eru tveir gítarar, gamalt píanó og kannski hálft trommusett. Já eða eins og einn tónlistarskóli á framhaldsskólastigi.

Líklega má segja að eitt öfgafyllsta dæmið um heila borg byggða í kringum skapandi atvinnugreinar, sé bandaríska borgin Las Vegas sem reist var á sandi útí eyðimörkinni fyrir vafasamt fjármagn (nóg hefur líka verið af pappírspeningum hér síðustu ár). Þar er nú milljónaborg sem grundvallast á ferðaþjónustu, verslun, tónlist, leikhúsum, skemmtistöðum, arkitektúr, hönnun (ekki alltaf smekklegri reyndar) og auðvitað spilavítum. 

Og í Las Vegas hefur eitt flottasta menningarfyrirtækið á heimsvísu, hinn magnaði Cirque Du Soleil, kanadíski Sólarsirkusinn, hreiðrað um sig. Fleiri hundruð starfsmanna setja þar upp hverja glæsisýninguna á fætur annarri sem hver um sig kostar marga milljarða en skilar framleiðendum samt gríðarmiklum tekjum. Svo ekki sé talað um tekjur borgarinnar og afleidd störf. Cirque Du Soleil sem einnig starfrækir nú alþjóðlegan listaskóla, er með höfuðstöðvar í Montreal þar sem nýcirque_du_soleil_1_768125.jpgjar sýningar eru þróaðar. Þaðan ferðast fleiri þúsund listamenn og starfsmenn hans frá um 40 löndum með fjölmargar sýningar árlega. Fjarlægðin frá Kanada til heimsborganna þar sem sýningar Cirque hafa blómstrað hefur aldrei stöðvað vöxt fyrirtækisins. Yfir 80 milljón manna hafa séð sýningar sirkusins. Eigum við að ræða það eitthvað hvað slík verðmætasköpun mundi gera fyrir þjóðarbúið íslenska!

Og hvernig hófst þetta stórkostlega ævintýri? Jú, fyrir tuttugu og fimm árum, í atvinnubótavinnu nokkurra götulistamanna í Quebec. Með aðstoð stjórnvalda í Kanada, sem m.a. útveguðu húsnæði til starfseminnar og greiddu atvinnulausum fyrir listræna bæjarvinnu, náði verkefnið fótfestu. Götulistamennirnir hafa þannig endurgoldið samfélagi sínu margfalt, bæði í fjárhagslegum, en ekki síður menningarlegum verðmætum.

Spilað á Sprengisandi

Því gætum við ekki átt okkar Glas Vegas á Sprengisandi, herjað á norræna ferðamannamarkaðinn og boðið hingað skemmtanaglöðum Skandinövum. Þeir mundu gista á íshótelum og í hraunhellum, farið í glúfraklifur, skíðagöngur og vélsleðaferðir og skautað á ísilögðum miðlunarlónum. Þar mundu svo stórsýningar leikhópsins Vesturports laða að menningartúrista, íslenskar kvikmyndir sýndar í snjóhúsum og hljómsveitin Sigur-Rós halda tónleika í sínu náttúrulega umhverfi. 

Eða hvað, er hér of langt gengið? Eflaust mundu spilavíti undir jökli ekki falla aðlas_vegas_2_768126.jpg viðkvæmri ímynd þjóðarinnar og líklega er þetta ein þeirra hugmynda sem flokkast mundu undir seinni tíma pælingu og enda ofaní skúffu þangað til næsta bankabóla birtist.

Það er auðvitað ljóst að ekki allar hugmyndir verða að veruleika, heldur mun aðeins hluti þeirra verða að arðbærum fyrirtækjum. Áhættan er því alltaf töluverð í upphafi og grunnfjárfestingin nokkur. Það jákvæða er að hvert starf við skapandi greinar kostar aðeins brotabrot af því sem það kostar í stóriðju og fjárfestingin er beint í mannauði en ekki steinsteypu. Og fjárfesting í mannauði er nákvæmlega það sem samfélagið þarf í dag.

Fordæmin eru líka sannarlega til staðar, toppfyrirtæki á borð við Össur og Marel,las_vegas_skilti_768130.jpg sem í dag eru arðbær framleiðslufyrirtæki, byrjuðu í bílskúrum og byggja starfsemi sína á skapandi greinum, þá einkum vöru- og iðnhönnun en innan þeirra hafa ávallt starfað margir hönnuðir. 

Borgarleikhúsið, Íslenska Óperan, Sinfóníuhljómsveitin, Dansflokkurinn, Stöð 2, Latibær, Iceland Airwaves og tölvuleikjarisinn CCP eru síðan góð dæmi um verkefni sem byrjuðu smátt en hafa vaxið í öflug fyrirtæki á menningarsviðinu, skapa störf og skila verðmætum til samfélagsins. Og ekki má gleyma fjölda auglýsingastofa, ljósmyndara, arkitekta, kvikmyndaframleiðenda og sjálfstæðra leikhúsa, allt skapandi atvinnufyrirtæki, mörg hver arðbær.

Skapandi stórborgir

Fleiri dæmi um heilu borgirnar sem byggjast að miklu leyti upp á skapandi iðnaðibroadway_ny_768133.jpg eru t.d. Mílanó sem þekkt er fyrir hverskonar hönnun, Hollywood þar sem kvikmyndagerð ræður ríkjum, París er mekka tískunnar og hvar væri Vínarborg án tónlistar. Við Broadway í New York og á West End í London hefur stórvirkur leiklistariðnaður hreiðrað um sig. 

Miðborg Lundúna er raunar dæmi um borg sem hefur umbreyst á nokkrum áratugum í skapandi iðnaðarsvæði þar sem listgreinar þrífast og hafa tekið við af hefðbundnum framleiðslugreinum. Þar fer fram gríðarmikil hönnun, tónlistar- og kvikmyndaframleiðsla sem skilar fjölmörgum afleiddum störfum. Sama má segja um New York en báðar þessar borgir eiga öflugt skólakerfi sem styður þennan iðnað.

Fjölmargar borgir um allan heim eru að fylgja í kjölfarið sem alhliða lífsgæðaborgir með áherslu á grænar skapandi atvinnugreinar. Flestar þeirra reka skapandi menningarpólitík og hafa sett gríðarmikið fjármagn í lista- og menningarhátíðir sem bera gjarnan nafn borganna og eru stolt borgaryfirvalda. 

Evrópusambandið hefur um árabil staðið fyrir verkefninu Menningarborg Evrópu, European Capital of Culture, þar sem valdar borgir fá sérstakt kastljós sambandsins. Margar evbroadway_skilti_768134.jpgrópskar borgir hafa blómstrað í kjölfarið og draga að sér bæði ferðamenn og greiðendur útsvars.

Arkitektúr er svo hliðarafurð af umbreytingum borganna og eitt megin aðdráttarafl ferðamanna. Stórvirkur byggingariðnaður fylgir í kjölfarið bæði vegna nýbygginga og samgöngumannvirkja en ekki síður vegna verndunar gamalla og sögufrægra húsa og umhverfis. Jafnvægi í verndun og uppbyggingu er oft höfuðverkefni borgaryfirvalda og hefur víða tekist svo vel til að engin raunveruleg framleiðsla fer fram í miðborgunum, allt byggist þar á ferðamannaiðnaði; veitingastöðum, leikhúsum, tónlist og listasöfnum.

west_end_2_768135.jpgFerðamannaiðnaðurinn er þannig annað afsprengi umbreytinga og hvers konar þjónusta blómstrar í kringum þessa kjarna með beinum jákvæðum áhrifum á hagkerfi borganna. Forsenda umbreytinga sem þessa er líka viðráðanlegt veður, stöðugleiki og friður en ekki síður hátt menntunarstig samfélagsins. Eru jafnvel samskonar möguleikar í Reykjavík, þá vitanlega á smærri skala og allt miðað við hina margfrægu höfðatölu?

Spennandi menning

En hvað kemur útúr skapandi skólakerfi? Í byrjun er auðvelt að ímynda sér þann mátt sem leysist úr læðingi þegar allir þessir skólar hafa tekið til starfa og orkan og sköpunarkrafturinn hríslast um samfélagið. Eftir fimm til tíu ár gætum við síðan séð hundruð, jafnvel þúsundir sprotafyrirtækja á menningarsviðinu og listastofnanir spretta upp eins og gorkúlur um allt samfélagið.vatnsmyri_-_tillaga_graeme_massie_2_768137.jpg

Skapandi atvinnugreinar eru grænar, sjálfbærar og starfsemin er í fínu jafnvægi við náttúruna. Þær eru mikilvægur hluti af grænu hagkerfi framtíðarinnar þar sem öll afleidd störf eru vistvæn. Ekki er heldur gengið á orkuauðlindir Jarðarinnar, ja nema þá hugarorkuna og af henni er nóg til. 

En hvað, umfram annað, sameinar skapandi atvinnuvegi? Jú, flestar afurðir þeirra, vörur, krefjast þess af neytandanum að hann sé hluti af sköpuninni. Hluti af afurðinni og upplifunni við notkun vörunnar. Varan sjálf er ekki lokaútgáfa heldur er framlag neytandans og í sumum tilfellum einnig flytjandans, það sem fullkomnar framleiðsluna. Tónverk án hlustenda og/eða flytjenda, ritverk án lesenda og leikverk án áhorfenda og/eða leikenda, túlkendanna, eru þannig ekki endanlegar niðurstöður, heldur aðeins skissur.

Og hvar gæti þetta samfélag helst blómstrað? Hvar yrði þungamiðjan - græni kjarninn? Í því sambandi er ekki úr vegi að horfa til Vatnsmýrarinnar og gjörbreyttu framtíðarskipulagi þess svæðis. Þar verður nóg pláss fyrir fjölda skapandi orkustöðva sem starfa mundu með háskólum og fyrirtækjum á svæðinu. Öflugur þekkingarkjarni gæti þannig risið í Vatnsmýrinni í Reykjavík, iðandi af fjölbreyttu mannlífi. Margir mundu líka vilja búa í návígi við þennan suðupott, taka þátt í gerjuninni. Í slíku umhverfi verður menningin spennandi.

Vatnsmýri - Tillaga Graeme Massie


Sex gráður gætu breytt heiminum

SixDegrees

Umræðan um hnattræna hlýnun, Global Warming, snýst að miklu leyti um niðurstöður vísindalegra rannsókna og hversu nákvæmar og raunhæfar þær séu. Nefndar eru mismunandi tölur um hve mikil hlýnunin kunni að verða eða jafnvel hvort nokkur hlýnun verði yfirhöfuð. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar enda eru veðurfar, umhverfi, dýralíf og vistkerfið svo víðtæk rannsóknarefni að stór hluti vísindamanna heimsins kemur með einhverjum hætti að verkefninu.

Flestir eru sammála um að töluverð hlýnun hafi nú þegar átt sér stað og rannsóknir sýna að meðalhiti hækkaði um eina gráðu celsius á síðustu öld. Mannkynið hefur aldrei lifað tímabil þar sem meðalhitinn er einni gráðu hærri en hann er núna og á síðustu milljón árum hefur ekki verið heitara. 

Flestar rannsóknir sýna einnig að ef aðeins meðalspár rætast er samt veruleg vá fyrir höndum og breytingar verða miklar og óafturkræfar. Vísindasamfélagið er orðið algjörlega sammála um þessar niðurstöður og skýrsla Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, Intergovernmental Panel on Climate Change, spáir því að hlýnunin verði á milli 1,4 til 6,4 gráður celsius á þessari öld. Ef meðalspár IPCC rætast og hlýnunin verður t.d. um þrjár gráður mun líf manna og vistkerfið gjörbreytast.

En enginn veit nákvæmlega hvert raunverulega stefnir og vandasamt er að spá fyrir um framtíð loftslagsins. Einnig er deilt um hvort sú hlýnun sem kunni að vera framundan sé hættuleg manninum og sumir telja að lítið mál verði að aðlagast breyttum aðstæðum. Þessar raddir heyrast þó æ sjaldnar þegar augljósar sannanir fyrir dramatískum afleiðingum hlýnunar birtast nú nánast daglega í fjölmiðlum.

Hæst fer deilan um það hvort hlýnunin sé af mannavöldum eða hvort um eðlilega hlýnun og veðurfarssveiflu sé að ræða. Margt bendir til þess að þessari deilu fari líka að ljúka og hægt verði að sameinast um víðtæka viðbragðsáætlun. Nánast allar þjóðir heims hafa tekið höndum saman um hnattræn viðbrögð. Meira að segja Bandaríkjastjórn er að snúast á sveif með þeim sem vilja aðgerðir strax og hefur loksins gert áætlun um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Það er góðs viti, en Bandaríkin hafa um árabil losað mest allra og dregið lappirnar í þessum málum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa leitt umræður og samningagerð vegna loftslagsbreytinga. Nánast allar þjóðirnar eru aðilar að rammasamkomulagi um viðbrögð við loftslagsbreytingum, United Nations Framework Convention on Climate Change, frá árinu 1992. Kyoto bókunin, þar sem kveðið er á um hve miklum koltvísýringi þjóðirnar, þ.m.t. þróunarlönd, mega losa út í andrúmsloftið var svo undirrituð árið 1997. Allar þjóðirnar hafa staðfest bókunina nema Bandaríkin, en hún gildir til ársins 2012. Nýtt ferli er þegar hafið þar sem samið verður um ný viðmið eftir árið 2012. Stefnt er að því undirrita nýja bókun á ráðstefnu í Kaupmannahöfn árið 2009. 

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fylgja stefnu Evrópusambandsins og stefna að 50-75% minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2050 miðað við losunina árið 1990. Það verður ekki létt verk fyrir Ísland að uppfylla þessi skilyrði miðað við stöðuna í dag. Þörf er á allsherjar átaki hér heima.

Í heimildarmynd National Geographic sjónvarpsstöðvarinnar, Six degrees could change the world, Sex gráður gætu breytt heiminum, fjallar á afar áhrifaríkan hátt um hugsanlega hnattræna hlýnun. Dregnar eru skýrar línur vegna mögulegra afleiðinga og sterkt myndmál notað til að lýsa aðstæðum. Gerð er grein fyrir þeim breytingum sem hver gráða af hærri meðalhita hefur í för með sér, allt frá einni gráðu uppí sex gráður. Afleiðingarnar eru allsherjar náttúruhamfarir, stórfelldar breytingar á umhverfi og veðurfari og gríðarleg eyðilegging á lífríkinu. Ljóst er að ef svartsýnustu spár verða að veruleika mun mannkynið ekki lifa af.

Verulegar loftslagsbreytingar eru staðreynd. Þær gerast hratt og mannkynið mun fljótt upplifa gjörbreytta tíma og ferðast um ókannað umhverfi. Ennþá er hlýnunin þó ekki stjórnlaus, þ.e. hún hefur ekki náð þeim punkti þegar ekki verður aftur snúið. Þetta er sú áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir. Að snúa þróuninni við áður en sá tímapunktur kemur að ekki verði aftur snúið. Tíminn til að bregðast við er því núna.

 

 

 


Ellefta stundin

The 11th Hour
Markmið heimildarmyndarinnar The 11th Hour, eða Ellefta stundin, er að rannsaka ástand mannkyns undir ógninni af yfirvofandi loftslagsvá. Hvaða hindranir eru í vegi og hvaða leiðir eru mögulegar til úrbóta? Margir af virtustu vísindamönnum, hönnuðum, sagnfræðingum og hugsuðum okkar tíma koma fram í myndinni, meta stöðuna og leggja fram hugmyndir að lausnum. Myndin er framleidd af Leonardo DiCaprio.

Leitað er svara við þeirri spurningu hvers vegna mannkynið virðist vera á góðri leið með að valda óafturkræfu stórslysi á náttúrunni og hvaða leiðir eru færar til að afstýra því slysi. Farið er yfir stutta sögu mannkyns í samhengi við u.þ.b. fjögurra milljarða ára sögu lífs á Jörðinni og skoðað er hvað framtíðin kann að bera í skauti sér, fyrir mannkynið annars vegar og náttúruna hinsvegar.

Myndin er stórmerkilegt, upplýsandi og nauðsynlegt innlegg í þann suðupott sem umræðan um hlýnun Jarðar er. Sjónrænt er hún mjög áhrifarík, þrátt fyrir að hún byggist að miklu leyti upp á einföldum viðtölum. Fjölbreytt og öflugt myndmál er notað til að styðja við frásögnina. Ekki spillir frábær tónlist sem m.a. er úr smiðju Sigur-Rósar.

Frásögnin í myndinni hverfist um umhverfismál og loftslagsvandann og skilur jafnvel eftir fleiri spurningar en hún svarar. Lausnir á vandanum eru ekki einfaldar né auðsóttar en eru samt margar nú þegar uppá borðinu og tiltækar, bíða framkvæmda. Yfirgripsmiklar staðreyndir eru settar fram um ástand náttúrunnar og loftslagsins. Þetta er mikilvæg þekking sem ekki er hægt að líta framhjá undir neinum kringumstæðum. Þekking sem t.d. stjórnmálamenn hafa siðferðislega skyldu til að bregðast við.

Sterk og sannfærandi rök eru færð fyrir helstu breytum og áhrifavöldum loftslagsvandans og niðurstaðan er mjög skýr. Bregðast þarf strax við svo ekki fari illa. Bregðast þarf við með mjög víðtækum ráðum á hnattrænum vettvangi og á flestum sviðum samfélagsins. Nýir orkugjafar þurfa að mótast. Nýtt hagkerfi þarf að þróast. Ný hugsun þarf að fæðast.

Vandamálin sem mannkynið stendur frammi fyrir eru ekki vísindaleg, tæknileg né efnafræðileg heldur eru þau fyrst og fremst menningarleg og hugarfarsleg. Stærstu vandamálin eru hugsunarháttur mannsins og það pólitíska og félagslega skipulag sem þjóðir og samfélög hafa komið sér upp. Skipulag sem að mestu leyti byggist á neyslu, peningum, völdum og efnishyggju. Það eru stærstu hindranirnar, að breyta hugarfari og menningu þjóða og þeim hraða takti sem maðurinn gengur eftir.

Að koma á jafnvægi á milli manns og náttúru er ekki afturför til fortíðar heldur lífsnauðsynleg framför, raunsæ og rökrétt þróun. Þetta nýja náttúrulega jafnvægi þarf ekki að vera hallærislegt eða gamaldags, heldur getur orðið hátæknilegt og nútímalegt. Grænt hagkerfi býður uppá óendanlega nýja möguleika og ekki síst spennandi viðskipta- og vöruhugmyndir.

Neyslu- og græðgissamfélag nútímans er tímaskekkja og getur aldrei orðið annað en tímabundið ástand. Núverandi menning flestra samfélaga leggur eignarhald manna á náttúrunni til grundvallar. Maðurinn ræður og drottnar. Landssvæði og auðlindir ganga kaupum og sölum og nýting er í þágu hagsældar fárra einstaklinga á kostnað náttúrunnar. Er þetta rétt hugsun? Getur þetta gengið til framtíðar? Varla. Ætti mannkynið ekki frekar að vera í þjónustu náttúrunnar, með auðlindir og land að láni, ef ekki frá framtíðarkynslóðum, þá að láni frá náttúrunni sjálfri?

Maðurinn er óaðskiljanlegur hluti náttúrunnar og geymir í raun frumeindir allt frá upphafi lífs í líkama sínum. Í genum mannsins leynist saga lífsins. Mannkynssagan. En staðreyndin er samt sú að 99,9999% af öllum tegundum lífs á Jörðinni frá upphafi eru útdauðar. Það eru því ekki miklar líkur á því að mannkynið lifi af og sérstaklega þar sem mannkynið er ofarlega í fæðukeðjunni er það í áhættuhópi; útrýmingarhættu. Í því samhengi er útlitið dauft. En okkar kynslóð getur samt reynt að tefja þetta ferli, hlustað á vísindin og tekið mark á neyðarkalli náttúrunnar.

Maðurinn þarf enn á ný að enduruppgötva tilvist sína og endurhanna samspil sitt við náttúruna. Skapa þarf vistvænt, sjálbært hagkerfi sem byggir ekki á jarðefnaeldsneytum sem orkugjöfum heldur endurnýjanlegum orkugjöfum. Sólin er helsti lykillinn að nýjum orkugjöfum og reyndar að öllu lífi á Jörðinni í gegnum ljóstillífun. Margar nýjar lausnir snúast um beislun á kröftum sólarljóssins en nýting vatnsorku er líka það sem horft er til í auknum mæli og þar geta Íslendingar lagt lóð á vogarskálarnar.

Nýja vistvæna hagkerfið þarf að snúa við dauðadæmdri þróun einnar tegundar svo hægt verði að hverfa frá undirbúningi jarðarfarar mannsins. Þetta snýst því ekki um að bjarga Jörðinni heldur mannkyninu og ef maðurinn getur verið upphaf vandans hlýtur hann líka að geta verið uppspretta lausnarinnar.

 

Níu milljarðar

Jörðin að næturlagi

Þróun mannfjölda á Jörðinni var framanaf í jafnvægi og fjölgun manna hægfara. Það var ekki fyrr en á 20. öld að mannkyninu tók að fjölga verulega og mun hraðar en áður. Iðnbyltingunni í lok 19. aldar fylgdi mikil fólksfjölgun og sama má segja um tæknibyltingu síðustu áratuga, en af henni hefur hlotist mikil fjölgun. Um miðja 20. öld voru um tveir milljarðar manna á Jörðinni. Aðeins þremur áratugum síðar hafði sú tala tvöfaldast og í dag, rúmlega sextíu árum síðar telur mannkynið um sex og hálfan milljarð, sem er þreföldun á einni mannsævi.

Þessi mikla fólksfjölgun er að mörgu leyti jákvæð, því ljóst er að lífsskilyrði, heilsa og afkoma manna hafa batnað þegar á heildina er litið, sérstaklega á Vesturlöndum. Mannsævin hefur lengst sem hlýtur að teljast jákvætt framfaraskref, en þessi hraða fjölgun helst einnig í hendur við breytingar á loftslaginu og er stór áhrifavaldur í yfirvofandi loftslagsvá.

Svo hröð fólksfjölgun gerir það að verkum að öll náttúran er undir stórauknu álagi, ekki síst nú, þegar hraðar fjölgar í millistéttum og neysla og framleiðsla eykst á áður óþekktum hraða. Af hverjum 33 tonnum af framleiddum vörum í heiminum er 32 tonnum hent. Aðeins eitt tonn af 33 eru varanlegar framleiðsluvörur, afgangurinn er sorp. Við þessa þróun, sem ekki sér fyrir endan á, eykst t.d. álagið á helstu málma og jarðefnaeldsneyti og notkun vatns eykst, en ferskvatn er nú orðin ein eftirsóttasta auðlind Jarðar.

Hluti af lausninni hlýtur því að vera að koma böndum á þessa hröðu mannfjöldaþróun og leita jafnvægis við nýtingu og verndun auðlinda. Mannkynið gengur í auknum mæli og stöðugt hraðar á auðlindir náttúrunnar, án þess að gæta þess að eðlileg endurnýjun fari fram. Sjálfbærni auðlinda er fórnað. Sumar auðlindir hafa af þessum sökum þurrkast upp sem þýðir að þeirra verður ekki notið framar, a.m.k. ekki fyrr en eftir hundruð eða þúsundir, jafnvel milljónir ára.

Taka má olíulindir sem dæmi. Ljóst er að olía er takmörkuð auðlind og eldsneyti sem mannkynið er orðið háð. Olían er auðlind sem nær alls ekki að viðhalda sér með slíkri ásókn og verður líklega uppurin innan nokkurra áratuga. Olía og önnur jarðefnaeldsneyti verða til djúpt í jarðlögum á þúsundum ára og því ljóst að of geyst er farið ef hún þurrkast upp á nokkur hundruð árum. Slík þróun gengur eðlilega ekki, hvorki hvað olíu né aðrar auðlindir varðar. Leita þarf nýrra leiða og þróa orkugjafa í sátt við ferli og hraða náttúrunnar. Slík viðhorf eru sem betur fer að verða algild, en þó er langt í land að jafnvægi sé náð.

Sú staðreynd að ný kolaknúin verksmiðja er gangsett nánast vikulega í Kína er ógnvekjandi og þar er toppnum ekki nærri því náð. Mengun sem af þessu stafar er afar mikil og berst víða. Kína notar nú meira af kolum en Bandaríkin, lönd Evrópu og Japan samanlagt og á næstu 25 árum mun Kína brenna meira af kolum og senda meira af koltvísýringi út í andrúmsloftið en öll önnur lönd heimsins samanlagt. Vöxtur í Kína er því svakalegur, en er samt ekki einsdæmi því Indland siglir nú fram á ljóshraða og brátt verða Indverjar fleiri en Kínverjar.

Meðfylgjandi teiknimynd sýnir þróun mannfjölda frá upphafi tímatalsins til okkar daga. Algjör mannfjöldasprenging verður á 20. öld. Einnig sýnir hún mannfjöldaspá næstu 30 ára. Líklegt er að um miðja öldina muni mannkynið telja yfir níu milljarða manna. Þá er talið mögulegt að hægi á mannfjöldaaukningunni og jafnvægi komist á þróunina. En það er háð nokkrum þáttum, s.s. að hægt verði að koma böndum á ótímabærar þunganir og hægja á aukningunni sem einkum á sér stað í þróunarríkjunum.


Móðir náttúra - Engin tilviljun

Fóstur

Náttúran er stórfenglegt samofið gangverk óteljandi ólíkra þráða. Síbreytilegt og undurfagurt kraftaverk. Mannkynið er hluti af náttúrunni. Það sem mannkynið skapar er hluti af náttúrunni.

Móðir náttúra hefur engar tilfinningar en náttúran kallar samt fram kröftugar tilfinningar hjá mönnum. Hvort sem um er að ræða hryllilegar hamfarir eða fágaða fegurð, bregst maðurinn við með tárum eða trega, von eða vonleysi. Náttúruhamfarir leysa úr læðingi gríðarmikla orku og snerta líf manna. Er það þessi orka sem framkallar tilfinningar eða er það aðdáunin og óttinn við augljósa yfirburðina?

Náttúran spyr ekki um aðstæður á Jörðinni, né hjá mönnunum, breytingar í náttúrunni gerast óháð því hvort þær hafi áhrif á mannkynið eða ekki. Náttúran tekur því ekkert tillit til mannsins. Hún er sjálfstæð og sækir ekki um framkvæmda- né ferðaleyfi. Lögmálum náttúrunnar breytir mannkynið ekki en örlög mannkynsins eru í höndum náttúrunnar.

Action = Reaction. Reaction = Action. Atburðir í náttúrunni hafa afleiðingar í för með sér og orsakast af öðrum atburðum. Náttúran og lífríki Jarðarinnar er samsett eftir nákvæmum fyrirmælum efnafræðinnar. Ekkert gerist fyrir tilviljun í náttúrunni. Allt sem fæðist, lifir, þroskast og deyr er hluti af þeim flókna vef sem náttúran spinnur dag og nótt, árið um kring um aldir alda. Allt hefur sinn tilgang.

Ferðalag móður náttúru er langt í samanburði við ferðalag mannsins. Breytingar gerast hægt og aðeins eftir að langir efnafræðilegir ferlar þróast í aðstæðum sem náttúran hefur skapað. Móður náttúru liggur heldur ekkert á. Hún mun lifa mannkynið af. Hún þarf ekki á okkur að halda en við þurfum á henni að halda.

Maðurinn er ung dýrategund en einstök. Á stuttum tíma hefur manninum tekist að þróa með sér vitsmuni. Og segja má að maðurinn sé því undantekningin sem sannar regluna um tilviljanir í náttúrunni. Vitsmunir mannanna geta í raun framkallað tilviljanir eða tekið ákvarðanir sem eru andstæðar grunnhvötum og því í mótstöðu við upprunalegan tilgang tegundarinnar. Vitsmunir eru ástæða þess að mennirnir hafa alltaf val hvort þeir fylgja sínum hvötum eða vinna gegn þeim. Engin dýrategund hefur endurhugsað tilveru sína jafnoft og á svo stuttum tíma, líkt og maðurinn gerir í sífellu.

Önnur dýr efast ekki líkt og maðurinn gerir og hafa ekki frelsi til vitrænnar hugsunar, heldur taka ákvarðanir sínar samkvæmt meðfæddum grunnhvötum. Líf dýra snúast um að uppfylla grunnþarfir án þess að vitsmunir komi þar nokkuð við. Dýr hafa að þessu leyti ekkert val og enga undakomuleið frá hvötunum.

En felast mistök mannanna vegna yfirvofandi loftslagsvanda í notkun á vitsmunum. Frelsinu til að velja? Eru það gjörðir manna sem eru að breyta náttúrunni á óafturkræfan hátt? Hefur valfresli mannanna gert það að verkum að náttúran mun skaðast svo ekki verður aftur snúið? Hver var þá tilgangurinn með fæðingu mannsins? En mun móðir náttúra þá ekki lifa áfram? Jú líklega og Jörðin er ekki í hættu. En mannkynið gæti hinsvegar verið í hættu.

Maðurinn hefur lengi viljað drottna yfir Jörðinni og hefur aldrei viljað viðurkenna vanmátt sinn gangvart móður náttúru. Er það vandamálið sem mannkynið stendur frammi fyrir? Hefur mannkynið sagt móður náttúru óvinnanlegt stríð á hendur?

Spurningin er ekki lengur um hvort og hve mikil áhrif hlýnun Jarðar hefur á mannkynið og lífríki Jarðarinnar. Spurningin er hversu skjótt mannkynið nær að bregðast við til að takmarka þann skaða sem af hlýnuninni mun hljótast.

Nú þurfum við að vakna því náttúran á að njóta vafans. Við eigum ekki annarra kosta völ. Nú verður maðurinn að sanna tilgang sinn og snúa við þróuninni, taka upp lifnað í sátt og samlyndi við móður náttúru og stuðla að nýju jafnvægi hér á Jörðinni.


Óþægilegur sannleikur

An Inconvenient Truth

Heimildarmyndin An Inconvenient Truth, Óþægilegur sannleikur eftir Al Gore, sem einu sinni var næsti forseti Bandaríkjanna, eins og hann kynnir sjálfan sig í myndinni, er eitt mikilvægasta framlagið í umræðunni um hlýnun Jarðar.

Þegar myndin var frumsýnd má segja að umræðan hafi stokkið uppá stærra svið og inní almenna umræðu, sérstaklega í Bandaríkjunum. Al Gore byggir með myndinni mikilvæga brú á milli vísindanna, stjórnmálamanna og almennings og myndin verður því öflugt ákall um viðbrögð umheimsins við loftslagsvánni.

Myndin hlaut Óskarsverðlaun sem heimildarmynd ársins 2007 og er byggð upp í kringum vel sviðssettan og myndrænan fyrirlestur sem Gore hefur flutt víða um heim síðustu árin. Þó að myndin sé aðeins tveggja ára gömul er mikið af þeirri myrku framtíðarsýn sem þar er sett fram nú þegar orðin að veruleika. Nánast allt sem þar birtist hefur verið staðfest með vísindalegum rannsóknum og skýrslum, nú síðast risaskýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Myndin lýsir líka vel mannfjöldaþróuninni sem orðið hefur, sérstaklega eftir seinni heimstyrjöld, en á þessum rúmlega 60 árum hefur mannfjöldi aukist úr 2 milljörðum í rúmlega 6 milljarða og um miðja öldina er líklegt að mannkynið telji um 9 milljarða manna. Þetta tengist beint aukningu koltvíoxíðs í andrúmsloftinu, gríðarlegri tæknibyltingu síðustu áratuga og þeim breytingum á loftslaginu sem í daglegu tali eru nefnd gróðurhúsaáhrif.

Framsetning upplýsinga í myndinni er með þeim hætti að mjög auðvelt er að skilja flóknar vísindalegar niðurstöður og rannsóknir. Myndin ætti því að opna augu margra fyrir þeim vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga sem orðið hafa af mannavöldum.

Í myndinni lýsir Gore þeirri skoðun sinni að framtíð Jarðarinnar og samfélag mannanna sé í húfi ef ekkert verður aðhafst og færir fyrir því sterk rök. Hann segir það siðferðislega skyldu manna, ekki síst stjórnmálamanna, að bregðast við núna og snúa við blaðinu. Hann lýsir því hvernig hann fékk í raun að skyggnast inní framtíðina sem háskólanemi, en kennari hans, Dr. Roger Revelle, var frumherji í mælingum á koltvísýringi í andrúmsloftinu og skynjaði hættuna framundan.

Þrautsegja Gore hefur síðan verið einstök, en í raun byrjaði hann að benda á vandamálið fyrir tugum ára síðan, m.a. fyrir þingnefndum Bandaríkjaþings, en talaði jafnan fyrir daufum eyrum. Þáverandi forseti Bandaríkjanna, George Bush eldri, kallaði hann í ræðum á opinberum vettvangi geggjaðan villitrúarmann.

Al Gore birtist í myndinni sem einarður og sannur baráttumaður fyrir bættum heimi og sýnir hlið á sér sem er athyglisverð, sérstaklega í ljósi þess að hann er í raun "hreinræktaður" bandarískur stjórnmálamaður, en faðir hans var öldungadeildarþingmaður í Washington. Persónuleg reynsla hans vegna bílslyss sonar vakti hann til vitundar um hvað skiptir virkilega máli í lífinu.

Það sem er líka áhugavert að velta fyrir sér, í ljósi þess að Al Gore "tapaði" forsetakjöri í Bandaríkjunum árið 2000, hvað hefði gerst ef hann hefði orðið forseti. Líklega hefði hann komist eitthvað áfram með baráttu sína fyrir bættri umhverfisvitund innan stjórnarinnar. En er víst að hann hefði farið þá leið sem hann fer hér? Hefði stjórnmálaumhverfið í Washington leyft honum það? Hefði málið kannski dagað uppi enn einu sinni? Var það kannski lán í óláni að Gore náði ekki kjöri svo boðskapurinn kæmi fram með þessum hætti? Hann segir að eftir kosningaklúðrið hafi hann vaknað til vitundar, byrjað uppá nýtt og náð að skynja hið stóra samhengi hlutanna.

En af hverju eru upplýsingar þær sem fram koma í myndinni kallaðar óþægilegur sannleikur? Hvers vegna eru þær ekki taldar trúverðugar af stjórnvöldum í Bandaríkjunum? Hvers vegna bregðast stjórnvöld ekki við vánni strax? Hvers vegna hefur upplýsingum um loftslagsbreytingar ítrekað verið breytt af launuðum vísindamönnum á vegum Bandaríkjastjórnar og sannleikanum hagrætt? Hvaða hagsmuni hafa stjórnvöld af því að réttar upplýsingar komi ekki fram?

Al Gore bendir á mörg dæmi þess að olíuiðnaðurinn hafi með skipulegum hætti þaggað niður í þeim sem vildu leggja fram þessar upplýsingar og þrýsihópar á vegum olíufyrirtækja ítrekað grafið undan umræðunni með öllum tiltækum ráðum, m.a. mútugreiðslum. Hann bendir í þessu sambandi á að "það er erfitt að fá mann til að skilja eitthvað, ef laun hans eru háð því að hann skilji það ekki."

Í lok myndarinnar fjallar Gore um leiðir til úrbóta og hann lýsir því að í raun eigum við öll nauðsynleg tæki og þekkjum þær hugmyndir sem við þurfum til að snúa þróuninni við og takast á við vandamálið. Hann segir: "We have everything we need but, say perhaps, political will. But do you know what? In America, political will is a renewable resource." Við höfum allt sem við þurfum nema, kannski, pólitískan vilja. En vitiði hvað? Í Bandaríkjunum er pólitískur vilji endurnýjanlegt hráefni.

Ljóst er að mikil barátta er framundan til að koma í veg fyrir óafturkræfar breytingar á lífríki og vistkerfi Jarðarinnar. Hvað stjórnmálin í Bandaríkjunum varða þá hlýtur það að vekja bjartsýni að bæði Hillary Clinton og Barak Obama eru vel meðvituð um vandamálið, meira að segja John McCain er á margan hátt umhverfisvænn kostur, þó hann sé afleitur á öðrum sviðum.


Iceland Warming

Jörðin

Verið velkomin á þetta vefsvæði sem ég vil tileinka einu mikilvægasta viðfangsefni samtímans, hlýnun Jarðar eða Global Warming. Hér verða ýmsar hugleiðingar og vangaveltur en einnig áhugaverðir tenglar vítt og breitt um heiminn. Mörgum spurningum er enn ósvarað þrátt fyrir að ítarlegar rannsóknir hafi verið gerðar um áhrif hnattrænnar hlýnunar á veðurfar, umhverfi, gróður, uppskeru, stærð jökla, sjávarhæð og dýralíf á Jörðinni. 

Niðurstöður viðurkenndra rannsókna eru samhljóða um að stórfelldar breytingar eru að verða á loftslagi Jarðarinnar. Breytingar sem munu gera það að verkum að skilyrði fyrir lífi á Jörðinni versna. Lífsgæðum mannkyns hrakar og ef ekki verður brugðist við með ábyrgum og afgerandi hætti, gæti farið svo að mannkynið eigi ekki öruggt athvarf í framtíðinni. 

Heimili mannkyns, Jörðin, eina heimili þess er því í hættu. Bregðast verður strax við því ljóst er að allt daglegt amstur og lífsgæðakapphlaup er til einskis háð ef illa fer fyrir því samfélagi manna sem nú byggir Jörðina.

Flestir eru nú sammála um að loftslagsvá er yfirvofandi og vaxandi vandamál um heim allan. Umhverfismál eru því orðin að einu helsta viðfangsefni stjórnmálanna. Málaflokkur sem lengi hefur tilheyrt þeim sem verið hafa á vinstri væng stjórnmála. Málaflokkur sem hefur þótt "mjúkur" og oft verið stillt upp sem andstæðu gegn hinum "hörðu" kapítalísku hagkerfum. En grænt umhverfisvænt hagkerfi þarf alls ekki að vera andstæðingur kapitalisma.

Enn eru samt allmargir sem efast um trúverðuleika og sannleiksgildi þeirra alþjóðlegu rannsókna sem framkvæmdar hafa verið, m.a. af Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Hér til hliðar má nálgast skýrslu nefndarinnar, undir tenglinum Climate Change Synthesis Report, en skýrslan samanstendur af niðurstöðum þúsundum vísindamanna um allan heim.

Í þessari umræðu er mikilvægt að horfa á hið stóra samhengi hlutanna og því kunna sumar spurninganna að virka fjarstæðukenndar og svörin fjarlæg, en í þessu máli sem og öðrum er þekkingin lykillinn. Fordómalaus umræða, fræðsla og traust á vísindalegum staðreyndum eru forsendur árangurs. Því meira sem við vitum um umhverfið og náttúruna, því reiðubúnari erum við til að taka upplýstar ákvarðanir. 

Við verðum því að byrja snemma og umhverfisfræði ætti að vera kennd samhliða líffræði og landafræði í grunnskólum. Því fyrr sem við lærum að meta og skilja umhverfið og það furðuverk sem náttúran er, því fyrr mun almenn hugarfarsbreyting geta átt sér stað. En hún er nauðsynleg til að ná samstöðu umhvernig bregðast skuli við. 

Hugarfarsbreyting er það sem þarf til þess að snúa þróuninni við. Virkileg hugarfarsbreyting verður ekki nema með mikilli fræðslu um hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga og hlýnunar Jarðar. Víðtæk þekkingarsköpun og þróunarvinna um nýtt grænt hagkerfi þarf einnig að fara fram og verða í forgangi í framtíðarsýn samfélaga, fyrirtækja, stofnana og heimila.

En hver eiga viðbrögðin að vera við þeim umhverfisskaða og loftslagsvá sem hlýnun Jarðar mun hafa í för með sér? Hver verða áhrif loftslagsbreytinganna á Íslandi? Hver verða áhrifin á daglegt líf Íslendinga? Verða þau fremur efnahagsleg en landfræði-, umhverfis- eða veðurfarsleg? Nú þegar hafa olíuverð og áburðarverð hækkað sem haft hefur hagræn áhrif hér á landi og bein áhrif á fjármál heimilanna. Mun landið sjálft breytast, fjörur færast og fjörðum fjölga? Hvar munu strendur Íslands liggja um miðja 21. öldina?

Kannski finnum við hér einhver svör við þessum spurningum en líklega koma jafnharðan upp nýjar og krefjandi spurningar. Ég hvet alla sem áhuga hafa að gera athugasemdir við greinar eða senda mér spennandi tengla og pistla um þetta ögrandi málefni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband